Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Daglegt líf á Rutland Avenue

Lífið hefur sinn vanagang sem er ósköp ljúft.  Siggi skólastrákur er á fullu í skólanum og mætir þar að auki í Tai Chi, svass og skokkar líka við og við, frúin veltir því fyrir sér hversu "hoj og slank" húsbóndinn verður í lok námsársins.  Frú Inga er meira eins og jólakúla í laginu þó það breytist í lok janúar þegar nýjasti fjölskyldumeðlimurinn fæðist.

Dagarnir hjá okkur Þóri Snæ eru huggulegir, við reynum að vera dugleg við að mæta á krakkamorgna hér í bænum, fara í gönguferðir og leika okkur hér heimavið.

Í kvöld er Siggi á leið út á lífið með bekknum sínum þar sem hópurinn er með Hrekkjavökugleði, verður spennandi að sjá og heyra hversu margir mæta í búningum.

Eitt sem frúin hefur mikinn áhuga á þessa dagana er að komast að ÖLLUM góðum ráðum til að auka úthald og orku.  Endilega látið mig vita ef þið lumið á einu slíku.


Frú Inga Master

Já það er komið á hreint að ég er að fara útskrifast með mastersgráðu þann 26. nóvember næstkomandi Smile.  Mikið óskaplega er ég hamingjusöm með að hafa náð þessu markmiði mínu, ég hef reyndar ekki verið hrædd um að falla en að fá þessa staðfestingu frá skólanum er endalust notalegt.  Við fjölskyldan stefnum því á ferð til Edinborgar til að mæta á útskriftina, Þórir Snær verður þó líklega í pössun á meðan við Siggi verðum við útskriftarathöfnina sjálfa og svo getur verið að deildin mín verði með smá móttöku fyrir okkur útskritarnemana.

Eins og segir í frægri íslenskri bíómynd:..."ef það er ekki tilefni til að skála Salómon..."

 Ég er semsagt að útskrifast með Mastersgráðu í Stjórnun Starfsþróunar (MSc in Management of Training and Development).....JEY!!!!


Nýjar myndir á barnalandssíðunni hans Þóris

Ég kláraði að vinna upp "halann" á barnalandi nú síðdegis.  Nýjustu albúmin eru september og til 21.október.  Ég stefni á að setja aftur inn myndir um næstu mánaðamót og halda okkur á réttri braut héðan í frá.... allavega þann tíma sem ég er heimavinnandi mamma Smile 


Ekki var það hlaupabóla...

...en samt er sá stutti lasinn.  Þórir Snær er sem betur fer orðinn hitalaus en kvefið hefur aukist auk þess sem hann er enn með smá útbrot á skrokknum en þau hafa minnkað mikið.  Í gær og fyrradag var Þórir hress framan af degi, fékk sér blund og var alveg ómögulegur eftir blundinn.  Vælinn og allt ömurlegt sem gert var.  Í dag var þessu öfugt farið, ósköp stúrinn framan af en í fínu formi seinni partinn.  Þar sem hitinn er búinn þá fékk hann sér ekki blund í dag og því sofnaður nú í kvöld á góðum tíma.  Yndislegt að eiga þá kvöldið fyrir sig.


Hlaupabólan mætt í kotið...

....allavega virðist vera svo.  Í morgun þegar ég var að bursta tennurnar í Þóri Snæ tók ég eftir því að hann var "flekkóttur" í andlitinu.  Svo þegar ég skipti á honum og klæddi hann í fyrir daginn sá ég að "flekkirnir" eða útbrotin náðu niður á kvið.  Ég benti Sigga á útbrotin og hann var á sama máli og ég, að líklegast væri hlaupabólan mætt.  Svo sem fínn tími til að fá hana núna fyrir utan hvað það er gott að klára hana líkt og aðra algenga barnasjúkdóma.

Þórir var reyndar nokkuð hress framan af degi nema hvað matarlystin var óvenju lítil.  Um miðjan dag horfði ég hinsvegar á hvernig hitinn hækkaði og stúfurinn minn varð dasaðari.  Sem betur fer náði hann að sofna í góða stund, þegar hann vaknaði var hann í raun mun veikari en áður en hann sofnaði.  Glær í augunum af hita,  vildi bara vera í fanginu á mér og orðinn svolítið vælinn.  Sem betur fer hef ég fengið hann til að drekka vel af vatni og öðrum vökva í dag og borða eitthvað smáræði.

Fyrir nóttina fékk hann stíl sem vonandi mun slá á hitann og draga úr verkjum ef einhverjir eru.  Veiki stúfurinn minn var fljótur að sofna og ég vona að nóttin verði góð og að hann nái að sofa vel og þar með við foreldrarnir líka.  Eins gott að vera sjálfur í góðu formi þegar veikt barn er á heimilinu.


Ferðalag til Immingham og Grimsby

Við fjölskyldan skelltum okkur í svolítið ferðalag í gærkvöldi.  Siggi var að vinna í hópaverkefni til klukkan 19:30 í gærkvöldi, náði í okkur mæðgin og svo lögðum við í hann sem leið lá eftir hraðbrautum frá Lancaster á vesturströndinni yfir til Grimsby á austurströndinni.  Þórir Snær svaf alla leið þar sem hann hafði ekki tekið sér blund yfir daginn og við fórum því beint á hótelið enda klukkan orðin býsna margt.   Við gistum á Premier Inn í Grimsby, þetta er hótelkeðja sem bíður upp á fín herbergi á sanngjörnu verði.

Í morgun skelltum við okkur svo á fætur og fórum í morgunverðarhlaðborðið, borðuðum vel til að eiga forða fram eftir degi.  Að morgunmatnum loknum hringdum við í skrifstofu Samskipa í Immingham, fórum þangað og vorum leidd að Arnarfelli, skipi Samskipa þar sem Bjössi frændi er kokkur.  Frábært að hitta Bjössa þó aðeins væri í stutta stund.  Hann kom með sendingu frá Íslandi, barnadótið okkar sem hefur verið í notkun hjá Ásu systur og Rúnari síðan í janúar þegar Urður Eva kom í heiminn.  Bjössi kom líka með "gúmmelaði" sem Ása hafði keypt fyrir okkar auk hangikjöts og Ora grænna bauna frá mömmu og pabba.  Jólin verða því ekki hangikjötslaus á Rutland Avenue.  Til að kóróna gleðina þá gaf Bjössi okkur líka súrmjólk sem mun fara vel með ALVÖRU Cheerios-inu sem við fengum að heiman.  Cheerios-ið sem fæst hér í Bretlandi er svo sætt að ég get/vil hlest ekki borðað það.  Í sendingunni var líka þónokkuð magn jólagjafa til fjölskyldunnar auk þess sem Bjössi tók jólagjafir til Belgíu og til Íslands frá okkur.  Frábært að geta sparað sendingakostnaðinn á þennan hátt, auk þess eru eða allavega stefna póstmenn í Bretlandi á verkfall svo einhverjar seinkunnir kunna að verða á póstflutningum.

Eftir að kveðja Bjössa héldum við á ný út á hraðbrautir Bretlands og ókum sem leið lá til Manchester, þar stoppuðum við aðeins í Costco heildversluninni og keyptum "aðeins" inn.  Tíminn leið og skólinn beið eftir Sigga sem fór beint á fyrirlestur að ferðalaginu loknu.  Við Þórir Snær áttum rólegan dag hér heima enda bæði ögn "tuskuleg" eftir rúmlega 500 km keyrslu á tæpum sólarhring.  Alltaf gott að koma heim eftir góða ferð.

 


"Var þetta hún?"

Spurði Siggi í morgun og átti þá við ófædda dóttur okkar sem lék á alls oddi í bumbunni.  Sú stutta var svo hress og spörkin svo kröftug að húsbóndanum þótti vert að athuga hvort ég hefði verið að gera eitthvað (veit ekki alveg hvað það hefði átt að vera) eða hvort höggin kæmu frá þeirri stuttu.

Jú það er líf og fjör hér á heimilinu og greinilegt að það á ekkert eftir að minnka eftir að janúar-drottningin kemur í heiminn Smile


Hvað við erum og höfum verið að bardúsa

Nú er Siggi kominn á fullt í skólanum og er mjög ánægður með þá fyrirlestra og kennara sem hann hefur kynnst hingað til.  Einnig er hann búinn að skrá sig í skokkhóp og Tai Chi hóp svo þar ætti að vera komin fín leið fyrir hann til að fá útrás Smile.  Reyndar er líka útivistarhópur sem fer í dagsferðir á sunnudögum og lengri ferðir einu sinni til tvisvar á önn, aldrei að vita nema hann skelli sér í hressandi gögnuferð um Vatnahéruðin sem eru hér rétt fyrir norðan okkur.

Við Þórir Snær höfum það sömuleiðis gott á daginn.  Förum í gönguferðir og á fjölskylduhitting bæði hér í hverfinu og í Barnamiðstöð sem rekin er af hinu opinbera.  Virkilega gaman fyrir okkur bæði að hitta annað fólk.

Í gær átti ég tíma hjá ljósmóðurinni minni, það er alltaf jafn gaman að heyra hjartslátturinn hjá krílinu.  En það er greinilegt að "sú stutta" er hress og kát því hjartslátturinn var sterkur og jafn.  Eftir þetta keyrðum við fjölskyldan sem leið lá til bæjar hér í nágrenni við Lancaster, þar vissi ég af stórri barnavöruverslun sem meðal annars selur kerruna sem við höfum verið að spá í.  Við byrjuðum reyndar á að fá okkur að borða á pub hliðina á búðinni.  Þarna á þessum pub var boðið upp á glæsilegt steikarhlaðborð fyrir sömu upphæð eða jafnvel lægri upphæð en kostar fyrir okkur að fara á skyndibitastað.  Vel mett eftir svínasteik, kalkún og naut, meðlæti, drykk og dessert fórum við yfir í barnavöruverslunina.  Við erum sem sagt að leita okkur að 2ja barnakerru sem "þolir okkur" Smile

Þær kerrur sem stóðu uppúr í búðinni voru Out'n'About nipper 360 og Baby Jogger City mini, báðar mjög fínar kerrur sem hafa samt sem áður bæði kosti og galla.  Málið er bara að velja þá sem hefur færri galla að okkar áliti.  Þegar við gegnum út er það Baby Jogger sem hefur forskotið, spurning samt með dekkin á henni.  Mögulega færi ég frekar í Baby Jogger City Classic sem er í raun sama kerra en á betri dekkjum og með stillanlegu handfangi.  Já svona kerrupælingar eru skemmtilegar og gott að gefa sér góðan tíma í verkefnið.

Því næst keyrðum við til nágrannaborgarinnar Preston þar sem við kláruðum að kaupa þær jólagjafir sem sendar verða heim til Íslands með Bjössa frænda 19.október.   Kvöldið var rólegt hjá fjölskyldunni á Rutland Avenue sem er gott eftir góðan dag.


Upplýsingar!!!

Bara svo "aðdáendur" okkar viti þá er ég að vinna í því að fara í gegnum, flokka og dagsetja myndirnar okkar svo ég geti sett júní, júlí, ágúst og september inn á barnalandssíðuna sem fyrst.

Ég vona að þetta verkefni mitt gangi hratt og vel þrátt fyrir magnið Smile


Latibær!!!!

Já svei mér þá ef það er ekki réttnefni fyrir heimilislífið hér á 52 Rutland Avenue í dag.  Þetta gildir þó aðallega um okkur Þóri Snæ þar sem Siggi fór í skólann í morgun of hélt stuttan fyrirlestur um efni að eigin vali.  Það verkefni var sett fyrir með það fyrir augum að kanna hæfni nemenda til þess að vera með kynningu.  Mjög sniðugt og eitthvað sem ég hefði vilja sjá í mínu námi í Edinborg.

Íbúar "Latabæjar" mæðginin Inga og Þórir tóku því rólega í morgun, röltu þó út á pósthús og í búð.  Við vorum komin heim fyrir hádegi og höfum verið í kósý-gír síðan þá.  Horfðum á barnaefni og héldum popp og djús veislu, Þóri Snæ fannst stórmerkilegt að sjá maísinn poppast (erum með glerlok á pottunum) og fannst á tíma alveg nóg um lætinn í pottinum.  Afraksturinn sló í gegn hjá okkur báðum Smile  Ég ákvað að gleða skólastrákinn líka og bakaði hjónabandssælu með heimagerðri rabbarbarasultu, þar með var búið að gleðja alla íbúa í kotinu.

Mikið er lífið gott!!! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband