Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Íslandsferð fjölskyldunnar

Föstudagurinn 26. júní og það var komið að Íslandsferðinni okkar.  Um miðjan dag var farangurinn kominn í bílinn og við lögðum að stað til Manchester í föstudagsseinnipartsumferðinni... ÚFF við þurftum að einbeita okkur heilmikið.  Ég á kortinu og Siggi undir stýri, allt fór vel og við mætt tímanlega á flugvöllinn til að finna bílastæði.  Við tók hið venjubundna flugvallarflakk, finna rétt innritunarborð, örggisleit, fríhöfn og síðast en ekki síst töluverð bið.  Þórir Snær var í góðu skapi að venju, foreldrarnir héldu fast í vonina um að sá stutti myndi sofna fljótlega eftir að við færum í loftið og svæfi vært til Íslands (þar sem um kvöldflug var að ræða).  En aldeilis ekki, Þórir vakti nær alla leið og brölti í 1800 hringi í það minnsta. Líf og fjör þegar um er að ræða yfirbókað flug.  Hann sofnaði þó 10 mínútur í lendingu á Íslandi.  Tengdó, Hanna og Úlli, voru svo yndisleg að ná í okkur á völlinn og við héldum heim á Skúlagötuna.  Þar sem nota bene beið mín já og hinna alvöru gamaldags hangikjötssalat brauðterta a la Birna. Takk Birna, hún var æði!!

Dagarnir í borginni voru rólegir og góðir.  Helst ber að nefna brúðkaup Valda og Eddu þann 4. júlí, athöfnin í Lágafellskirkju og veislan í Veisluturninum í Smáranum.  Takk fyrir okkur.

Ása, Rúnar og Urður Eva komu að hitta okkur strax á laugardeginum, mikið er maður nú ríkur að eiga systur sem er líka besta vinkona manns. Já og þú kemur sterk til leiks í þeim efnum Urður Eva. Við komum börnunum fyrir í kerrum og héldum í gönguferð um miðbæinn.  Eins hittum við Heklu okkar og fórum líka með henni í göngufúr.  Það er orðinn siður að halda fjölskyldug Raclette-veislu þegar við komum til landsins.  Mikið er það góður siður. Eins fórum við í heimsókn til Steina, Herdísar og dætra í Grafarvoginn og hittum Mató í Laugardalnum.  Það er í raun merkilegt hvað okkur tókst að gera margt án þess að vera nokkurn tíman að flýta okkur, en þannig er það í raun alltaf hjá okkur hjónunum.

Mamma og pabbi (Una og Þórir) mættu á höfðuborgarsvæðið, tilbúin í barnapössun og ekki síður til þess að koma með okkur aftur til Lancaster.  Eins kom Kristófer til landsins og kom einnig með okkur út til Lancaster.  Eins gott að vera með aukasæti í skottinu á bílnum, enda var þéttpakkað af bæði farangri og farþegum af flugvellinum í Manchester til Lancaster.

Góð ferð var á enda og ný ævintýri bíða okkar.


18. júní - flutt frá Edinborg til Lancaster

Dagurinn þegar við fluttum frá Edinborg til Lancaster var runninn upp.  Íbúðin okkar að 7/7 West Powburn var hrein og fín eftir nákvæm þrif okkar hjóna og búið að pakka öllum okkar eigum.  Við viljum þakka almættinu fyrir að halda þurru á meðan við pökkuðum í bílinn og á kerruna sem við leigðum í Edinborg.  Já einmitt KERRUNA, við sem fórum út með allt í bílnum okkar í lok ágúst þurftum að leigja kerru til að komast á milli með allt okkar dót.  Anna nágranni var svo indisleg að hjálpa okkur að bera dótið niður og passa Þóri Snæ á meðan við kláruðum að pakka.  Takk Anna!! Þá var lagt af stað til Englands frá Skotlandi þar sem svo gott er að búa og Edinborg sem er indisleg borg þar sem við áttum 10 frábæra mánuði.  Við munum alltaf hugsa vel til Edinborgar, Skotlands og Skota. Leiðin lá eftir sveitavegi frá Edinborg út á hraðbrautina sem liggur niður eftir austur Englandi.  Á gatnamótum 34 beygðum við útaf og vorum mætt til Lancaster.  Lancaster sem á eftir að vera heimabær/borg okkar næstu 15 mánuðina.  Við keyrðum beint heim að 52 Rutland Avenue þangað sem Suzanne frá leigumiðluninni kom til að ganga frá leigusamningnum.  Þegar því var lokið bárum við (Siggi) dótið inn úr bíl og kerru – við vorum flutt inn. Við erum ókaplega ánægð með tveggjahæða parhúsið okkar með bílskúr og garði... en það voru kóngulærnar greinilega líka.  Einnig sem eigandinn virðist hafa yfirgefið húsið án þess að þrífa það vel.  Föstudagur og laugardagur eru því búnir að fara í að þrífa húsið hátt og lágt, slá lóðina og koma okkur fyrir.  Það tókst og nú er það hið ljúfa líf sem bíður okkar. Við erum reyndar á leið til Íslands næsta föstudag, fljúgum frá Manchester að kvöldi 26. júní og verðum á Íslandi til 6. júlí.  Þá förum við aftur heim til Lancaster og tökum mömmu og pabba (Unu og Þóri) með okkur. Við hlökkum til að kanna og kynnast Lancaster og nágrenni.

17. júní í Edinborg

Þrátt fyrir að vera í útlöndum hélt fjölskyldan upp á þjóðhátíðardaginn eins og sönnum Íslendingum “ber” að gera.  Vararæðismaður Íslands í Skotlandi, Limma (Kristín Hannesdóttir), bauð Íslendingum í Skotlandi að koma heim til sín.  Þar var hoppukastali fyrir börninn, pylsur, gos einnig sem veislugestir lögðu hitt og þetta á veisluborðið.  Þar á meðal voru upprúllaðar sykur pönnukökur frá Önnu nágranna, harðfiskur og smjör sem við komum með, nammi, fylltur lakkrís, prins pólo og terta skreytt sem íslenski fáninn.  Veislugestir átu vel og skemmtu sér vel.  Þórir Snær tók til að mynda mjög vel á því í hoppukastalanum og brosti sínu breiðasta.  Við notuðum líka tækifærið og hvöddum kæra vini sem við höfum kynnst í Edinborg í vetur.  Hópurinn okkar sem hittist reglulega á leikvellinum á Meadows, í afmælum og í dýragarðsferðum er frábær hópur fólks sem við hlökkum til að halda sambandi við og hitta hvort sem er hér í Bretlandi eða á Íslandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband