Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Fyrsta ritgerðin búin

Já það kom að því að ég þyrfti að skrifa ritgerð í þessu mastersnámi mínu Smile  þetta ritgerðarverkefni verður samt ekki metið til einkunnar og sett inn á ferilinn minn.  Þetta er einskonar æfingar ritgerð.  Stutt, ekki nema 1500orð, um efni sem við fengum að velja sjálf og markmiðið með henni er að sjá vinnubrögðin hjá okkur og leiðbeina okkur með það sem betur má fara áður en kemur að ALVÖRU ritgerðunum.  Sem ég á að skila 5. des, 15. des og 12. jan.

Allavega ég er búin að skila fyrstu ritgerðinni inn og það er mjög góð tilfinning Smile lét það svo eftir mér að hanga við sjónvarpið í kvöld eftir að Þórir Snær var sofnaður.  Siggi situr lokaður inni í herbergi og lærir og lærir fyrir GMAT prófið sem hann fer í á mánudaginn.  Planið er því að hann fái helgina til að læra og að ég verði með Þóri Snæ.  Sem er æði fyrir mig, ég er næstum komin með fráhverfseinkenni vegna þess hvað ég er lítið með honum miðað við síðasta vetur.

Þetta verður frábær helgi þó svo veðurspáin sé leiðinleg...


Loksins loksins loksins...

Undur og stórmerki gerðust í dag.  Við fengum í morgun staðfestingu á því að búið væri að leggja peninginn okkar inn á nýja flotta skoska bankareikninginn okkar.  Það hefur því tekið nærri tvo mánuði að koma þessu alla leið.

Fyrst sóttum við um bankareikning hjá Halifax Bank of Scotland (HBOS) í byrjun september.  Þeir sögðu okkur að þetta gæti tekið alla vega 10 daga.  Þegar ekkert hafði gerst 23. september fórum við í bankann og komumst að því að þeir höfðu týnt umsókninni okkar.  24. september sóttum við því aftur um reikning.

Tveimur vikum seinna gáfum við skít í þá og gengum yfir ganginn í verslunarmiðstöðinni og inn í Lloyds TSB bankann.  Þar tók það okkur 20 mínútur að stofna bankareikninginn sem við vorum búin að bíða eftir í meira en mánuð á hinum staðnum.  Daginn eftir kom bankakortið frá HBOS og daginn þar á eftir kom kortið frá Lloyds TSB.  Við stöndum hins vegar við það sem við ákváðum - HBOS fær að róa.

Þegar þarna var komið við sögu gátum við loksins farið að flytja út pening.  Við höfðum sem betur fer flutt peninginn okkar yfir á gjaldeyrisreikning á Íslandi þegar líða tók á september og ekkert bólaði á okkar reikningi hérna úti.  Þegar við komum út í lok ágúst var gengið um 150 kall en í lok september var það komið í 200 kall!

8. október sendum við Nýja Landsbankanum tölvupóst og báðum um að millifært yrði af bankareikningnum okkar hingað út.  Um er að ræða 4500 pund (tæp 900 þús. krónur) sem fer í að greiða skólagjöldin hennar Ingu hérna úti, leigu um mánaðarmótin, gas og rafmagn.  Eftir að hafa fengið nei á hverjum degi rofaði loksins til í lok seinustu viku, málið okkar var sent Seðlabankanum og þeir tóku afstöðu með okkur þar sem við vorum námsmenn erlendis og þurftum að greiða skólagjöldin.  Við fengum því tilkynningu á föstudaginn var (17. október) um að peningarnir væru farnir út af reikningnum okkar heima.  Þar var síðan ekki fyrr en í dag, miðvikudag, sem við fengum tilkynningu um að þeir væru komnir inn á reikninginn okkar hérna úti.  Í 5 daga vissum við semsagt ekkert hvar í heiminum peningarnir okkar væru niður komnir, hvort við fengjum þá yfirleitt eða hvort þeir myndu festast í hryðjuverkalagagildru Darling og Brown og vera notaðir til að greiða ICESAVE.

En nú er þetta komið í hús.  Fórum út á horn og keyptum okkur kínverskan í kvöldmatinn til að halda upp á daginn!  Greiddum með nýja fína skoska debetkortinu okkar...sem meira að segja virkaði!

Við vitum semsagt í dag að við getum greitt skólagjöldin, leiguna, gas og rafmagn um mánaðarmótin.  Við erum því í góðum málum út nóvember.

Erum að bíða eftir annarri færslu frá námslánareikningnum okkar á Akureyri.  Hún kemur vonandi fyrir jól.

Þess má geta að Bretarnir eru með debetkort með upphleyptum stöfum (eins og kreditkortin heima).  Stórsniðugt að geta verslað á netinu með debetkorti en ekki kreditkorti.  Íslensku kortafyrirtækin mættu taka sér þetta til fyrirmyndar.


Á fullu við lærdóminn

Nú sitjum við bæði hjúin við stofuborðið og lærum.  Inga er að vinna ritgerð fyrir skólann um fjölgreind, sem var efni sem hún valdi sjálf.  Um er að ræða stutta ritgerð sem þau eiga að skila á föstudaginn og fara leiðbeinendurnir yfir þær og sjá hvað þarf að lagfæra áður en þau hella sér út í stærri verkefni.

Ég er að undirbúa mig fyrir GMAT próf næsta mánudag, 27. október.  Um er að ræða samræmt undirbúningspróf fyrir framhaldsháskólanám í viðskiptafræði, MBA (Master of Business Administration).  Einkunnirnar úr GMAT prófinu eru hluti þess sem þarf að fylgja með umsóknum í framhaldsnám í viðskiptafræði næsta haust.  Ég þarf að fara að sækja um skóla fyrir haustið 2009 núna á næstu mánuðum.

Prófað er í stærðfræði og enskri málnotkun og ritgerðarsmíð.  Prófið eru 3-4 tímar að lengd og er mikil tímapressa.  Ég fór í svona próf heima í fyrra og var ekki nægilega ánægður með niðurstöðuna.  Hún var svosem allt í lagi en mér fannst að hún hefði getað verið betri.  Ég ætla því að láta vaða aftur. (SÚ)


Í háttinn klukkan tíu

Þau undur og stórmerki áttu sér stað í gærkvöldi að bæði hjúin voru komin í háttinn klukkan tíu.  Magnað alveg hreint.  Vorum bæði stórskrítin í dag - hálf sloj og Siggi slæmur í öxlunum. 

Ég held að líkamar okkar hafi bara ekki botnað hvorki upp né niður í því hvað var eiginlega á seyði.  Við látum þetta ekki koma fyrir aftur.  Þurfum líklega að gefa okkur meiri aðlögun áður en við förum í svona drastískar aðgerðir aftur. Smile


Blogg og myndir

Við höfum verið svo dugleg að blogga í kvöld að við ákváðum að blogga um það hvað við vorum dugleg að blogga.

Svo eru nýjar myndir í októbermöppunni á Barnalandi.


Íslendingadagur í dýragarðinum

Fórum um þarsíðustu helgi í Íslendingaferð í dýragarðinn.  Frábær dagur þar sem hittist um 20 manns sem flest hafði aldrei hisst áður.  Hópurinn small ótrúlega vel saman og átti frábæran og afslappaðan dag í sólinni í þessum glæsilega dýragarði.  Þarna er heil nýlenda af mörgæsum, þarna eru ljón, apar, hlébarðar og ótalmargar fleiri tegundir.  Þarna var til dæmis ísbjörn sem var í mat þegar við komum að.  Á matseðlinum, sem var þríréttaður var kanínukjöt í forrétt, aðalrétt og eftirrétt.  Keyptum okkur árskort í dýragarðinn enda frábær staður fyrir helgarútiveruna.

Í dýragarðinn komu meðal annars Dagmar og Geir sem búa í Aberdeen með börnin sín þrjú.  Dagmar var dagmömmubarn á Hólsveginum á sínum tíma, frá því hún var hálfs árs og þar til hún fór í grunnskóla.  Þetta voru skemmtilegir endurfundir.20081005 Íslendingaferð í dýragarðinn Matartími hjá hópnum20081005 Íslendingaferð í dýragarðinn Inga og Dagmar

 

 

 

 

 

 

20081005 Íslendingaferð í dýragarðinn20081005 Íslendingaferð í dýragarðinn Matartími hjá ísbirninum

 

 

 

 

 

 

 

20081005 Íslendingaferð í dýragarðinn Matartími hjá ljóninu20081005 Íslendingaferð í dýragarðinn Mörgæsir


Nágrannar

20081001 Refur út um gluggann

Sá ref á lestarteinunum sem liggja meðfram girðingunni við húsið okkar.  Hef einnig séð íkorna á vappi að ógleymdum fuglunum.  Skemmtilegt inni í miðri borg.

 


Kíktum í Rosslyn kapelluna í dag

Fórum í bíltúr í dag.  Höfðum það á orði að það væri orðin tilbreyting að fara út að keyra.  Höfum ekki notað bílinn síðan síðasta mánudag að undanskilinni stuttri búðarferð húsmóðurinnar í gærkvöldi.  Renndum suður fyrir borgina í leit að Rosslyn kapellunni sem margir muna eftir úr lokaatriði Da Vinci Lykilsins, þeirrar góðu bíómyndar.

Það sem er flott við þessa kapellu er að hún er úr steini og allir veggir, loft, súlur og annað eru þaktir myndum sem höggnar hafa verið í steininn.  Mjög skemmtilegt.  Þá var ekki síður skemmtilegt að keyra í gegnum sveitirnar hérna suður af borginni.  Afar fallegt umhverfi, vegir ýmist í gegnum trjágöng eða með miklu útsýni, hlaðnir veggir, oft þröngir vegir sem hlykkjast í gegnum landið.


Göngutúr meðfram Union Canal

Fórum í síðustu viku í göngutúr meðfram Union Canal.  Union Canal er skipaskurður sem liggur frá Falkirk Wheel skipalyftunni sem við skoðuðum með Úlla og Hönnu og inn í miðja borg í Edinborg.  Hann er hluti af neti skipaskurða sem liggja meðal annars milli Edinborgar og Glasgow annars vegar og frá austurströnd Skotlands yfir á vesturströndina hins vegar.  Í gegnum tíðina hafa þeir mikið verið notaðir í alls kyns flutninga en í dag eru þeir mest notaðir til ýmiss konar afþreyingar.

Þennan sólríka dag þegar við gengum með skurðinum var fullt af krökkum að leika sér á bátum, sum á kappróðursæfingu og margt fólk á leiðinni úr og í vinnu sem valdi þessa leið úr miðbænum.  Skemmtilegur göngutúr sem endaði á því að verða 10 km langur.

20081008 Göngutúr meðfram Union Canal20081008 Göngutúr meðfram Union Canal


Íslenskt kvöld

Áttum íslenskt laugardagskvöld.  Horðum á fréttirnar, veðrið, Spaugstofuna og Gott kvöld með Ragnhildi Steinunni þar sem hún tók á móti Páli Óskari.  Notalegt.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband