Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Fyrsti dagurinn heima eftir páskaferðina

Þórir Snær var svo glaður í morgun að vera kominn heim.  Það að fá hafragraut, krakkalýsi og gera "stór og sterkur" fyrir og eftir lýsistöku gerði stúfinn alsælann.

Morguninn fór í að ég skilaði inn verkefni sem ég var að vinna yfir páskana, Siggi tók upp úr töskum og setti í vél og við gerðum matseðil fyrir vikuna. Um hádegisbilið pökkuðum við í kerruna því sem við þurftum yfir daginn og fórum í gönguferð.  Fjölskyldan var léttklædd þar sem veðrið lék við borgarbúa í dag, sól og hiti á milli 15°C og 20°C.  Við fórum víða að vanda og enduðum á leikvellinum á Meadows.

Mikið óskaplega er gott að eiga svona fjölskyldu daga Smile

Á morgun byrja ég á síðasta áfangalokaverkefninu sem ég á að skila 1. maí, þegar því er lokið á ég bara stóru ritgerðina eftir.  Mikið óskaplega líður tíminn hratt.


Páskaferð til Íslands og helgi í London

Eftir um það bil 16 klst ferðalag (5.apríl) með leigubíl, lest, neðanjarðarlest, gangandi, flugi og fólksbíl komum við á Skúlagötuna til tengdó.  Mikið óskaplega var gott að komast á áfangastað og ekki var verra að leggjast til svefns og steinsofna Smile.  Ferðalagið gekk mjög vel en það var ekki síst Þóri Snæ að þakka sem er algjörlega æðislegur elsku strákurinn.  Alla þessa ferð og aldrei kvart, kvein eða grátur.

Við vorum svo heppin að daginn eftir að við komum til Íslands hittist matarklúbburinn okkar, Mató, sem eru skólafélagar mínir úr landafræðinni í HÍ.  Frábært að hitta það góða fólk og sjá nýjasta meðliminn sem fæddist í desember síðastliðnum.  Eftir mató gegnum við Þórir heim í hellirigningu (hressandi) og Siggi fór á burtfarartónleika með Kristínu Sigurðardóttur skáta (önnur þeirra sem söng í brúðkaupinu okkar).  Á þriðjudagskvöldinu áttum við skemmtilegt kvöld á Skúlagötunni með fjölskyldu Sigga.  Borðuðum raclette og spjölluðum.  Það var svo gaman að sjá hvað Þórir Snær og Petra Björk frænka hans, fædd sama ár, náðu vel saman og hvað þau skemmtu sér ótrúlega vel þessar elskur.  Veðrið var fínt og við Þórir fórum í göngutúr með Heklu vinkonu eins og við vorum vön að gera áður en við fluttum til Skotlands, gönguferð og gott spjall er alltaf hressandi og notalegt.

Á Skírdag keyrðu við til Akureyrar.  Það má segja að það hafi verið fullt hús í Ásabyggðinni hjá mömmu og pabba, við þrjú komum frá Edinborg, Rósa og Marwan komu frá París og Ása og Rúnar komu ásamt litlu stelpunni sinni úr Kópavoginum.  Páskarnir voru yndislegur og svo gaman að vera öll saman Smile.  Aðalviðburður páskanna var án efa skírn litlu frænku minnar, dóttur Ásu og Rúnars.  Daman var skírð Urður Eva, svo glöð og brosandi lítil stelpa sem við hlökkum til að kynnast betur.

Á þriðjudag eftir páska flugum við til Reykjavíkur, þar sem við dvöldum fram á föstudag en þá fórum við til London.  Þá um kvöldið fórum við í Baugakórinn til Ásu og fjölskyldu, Rósa, Marwan og Bjössi frændi voru líka og við áttum gott kvöld.  Við Ása náðum að vera svolítið saman þessa daga, spjalla og fara í göngutúr með börnin okkar Smile

Föstudagurinn 17.apríl var tekinn snemma, vöknuðum 3:45 til að ná flugi 7:40 til London.  Þórir Snær var alveg að "fíla" flugið þar sem hann var með sér sæti, gat horft á barnaefni í afþreyingarkerfinu, fékk snarl og svaf í fanginu á pabba sínum.  Þegar við komum til London fórum við á hótelið okkar til að losa okkur við farangurinn.  Þrátt fyrir þreytu skelltum við okkur í gönguferð að leita að leikvelli þar sem Þórir gæti fengið smá útrás.  Það tókst heldur betur, í Regent Park fundum við leikvöll þar sem sá stutti spretti úr spori og lét rigninguna sem komin var ekkert á sig fá.  Hann var svo alsæll að vera úti Smile.  Á endanum var Þórir orðinn svo blautur að þurr föt og flísteppið í kerrunni var málið.  Hann lognaðist svo útaf á leiðinni á hótelið og var í kúrustuði þar til hann fór að sofa. Elsku litli snúðurinn var alveg búinn á því en alltaf í svo góðu jafnvægi.

Laugardagurinn, afmæli húsbóndans rann upp.  Sólin skein og hlýtt í veðri, eftir enskan morgunverð skellti fjölskyldan sér í gönguferð um miðborg London.  Fórum frá Kings Cross á markaðinn í Covent Garden, þaðan fórum við að Thames ánni og gengum eftir henni á suðurbakkanum. Þar er fjöldi veitingastaða og mannlífið líflegt.  Við skoðuðum litlar búðir, markaði og hittum líka Lindsay vinkonu okkar, sem býr í London ásamt Hirti skólabróður Sigga úr Versló.  Um kvöldið fórum við út að borða í tilefni að 35 ára afmæli Sigga.  Fyrir valinu varð ítalskur veitingastaður á Strand, frábær þjónusta og góður matur.  Að sjálfsögðu náði litla sjarmatröllið okkar hann Þórir að heilla bæði þjóna og gesti eins og hann er vanur Smile

Að morgni sunnudags tókum við lest frá London til Edinborgar.  Mikið óskaplega fannst okkur öllum gott að koma heim, en þannig á það að vera eftir góða ferð. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband