Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Minjagripur frá Edinborg - A Walk in the Gardens

Við höfum að undanförnu verið að líta í kringum okkar eftir minjagrip eftir dvöl okkar í Edinborg.  Eigum reglulega leið fram hjá galleríi á leiðinni heim úr miðbænum og þar greip augu okkar málverk sem höfðaði sérstaklega til okkar.  Eftir að hafa gengið fram hjá henni líklega 10 sinnum með glampa í augunum fórum við inn og gengum að lokum heim með gripinn. 

Málverkið er af borgarmyndinni í Edinborg sem er einstök og á heimsminjaskrá UNESCO.  Horft er frá Princes Street í áttina að Edinborgarkastala og Royal Mile yfir Princes Gardens.  Við höfum í vetur eitt ófáum gönguferðunum á þessu svæði og myndin er lífleg og falleg.  Við erum mjög ánægð með minjagripinn okkar.

Við keyptum hana óinnrammaða enda fer hún betur þannig á því flakki sem við verðum næstu mánuði og ár.  Ætli hún endi ekki inni í geymslu á Miklubrautinni eða með brúðkaupsgöfunum á háaloftinu í Ásabyggðinni.  Þar bíða allar gersemarnar þess að við flytjum aftur á Frónið og eigum þar fastan viðverustað aftur.

Gripinn má skoða hér á heimasíðu gallerísins þar sem við keyptum hana.  Hægt er að smella á hana til að skoða stærri mynd.


Hvað hefur fjölskyldan verið að bardúsa? Jú...

... það er nú eitt og annað sem við höfum verið að gera undanfarna daga.  Sem betur fer annars værí lítið gaman af þessu Smile

Þann 12. febrúar bauð eiginmaðurinn okkur út að borða (í tilefni af Valentínusardeginum) á, (að ég held) fínasta og samkvæmt sögum, einn dýrasta veitingastað í Edinborg.  The Witchery, frábær staður og virkilega góð þjónusta.  Þetta er jú mjög fínn staður en verðið er samt alveg fyrir "venjulegt" fólk, aðalréttirnir eru frá 14.95 pund og reyndar upp í 50 pund (það var sjávarréttarplatti með heilum humar) en lang algengast var að sjá verð í kringum 23 pund.  Snilldin er samt að nú árið 2009 er boðið upp á 30 ára afmælisseðil sem er 3 rétta máltíð á 30 pund fyrir manninn, svo bætast drykkir við það.

Ástæðan fyrir því að við fórum út að borða 12. febrúar í stað 14. febrúar sem er Valentínusardagurinn er sú að Kristófer kom til okkar föstudaginn 13. feb. svo þann 14. áttum við fjögur  huggulegt fjölskyldukvöld saman Smile.  Þessi tími saman er búinn að vera ósköp góður og rólegheitin alveg þau sömu og venjulega, samt er alltaf nóg að gera.  Við erum búin að ganga um allt, skoða margt og mikið. Þeir feðgar, Siggi og Kristófer, fóru í Our Dynamic Earth í gær og skemmtu sér hið besta. Í dag fóru þeir allir þrír í dýragarðinn á meðan ég var í skólanum.  Á morgun er stefnan að fara í Edinborgarkastala og skoða hann og útsýnið frá honum.  Um kvöldið á að fara á PizzaHut að ósk Kristófers og svo huggókvöld með bíómynd.

Á föstudagsmorguninn fljúga Siggi og Kristófer til Billund. Kristófer fer heim til Álaborgar en Siggi hoppar aftur upp í vélina og flýgur til Edinborgar á ný.  Dagmar vinkona okkar frá Aberdeen ætlar að koma og vera hjá okkur óg klippa fólk og lita hár (eins og var hjá okkur í byrjun des.).  Við búumst því við gleði og fjöri hér á "Saloon West Powburn" um helgina Smile


Nýjar myndir komnar á Barnalandssíðuna...

Við skelltum nýjum myndum frá 15. janúar og fram í febrúar inn á Barnalandssíðuna.  Njótið vel. Smile

Skemmtileg matarhelgi

Þessi helgi hefur verið með líflegra móti hvað mat snertir nú um helgina, þó oft sé fjör í þeim efnum.

Ég tók mig til og útbjó Sushi í fyrsta skipti í gær, vá hvað þetta var fínt og gott hjá mér Smile mikið betra en ég þorði að vona svona með fyrsta skipti.  Stefnan var að borða herlegheitin eftir að Þórir Snær væri sofnaður.  Það fór ekki svo, sá stutti lék á alls oddi svo það endaði með að Stubbarnir voru settir í DVD spilarann og foreldrarnir boðuðu sushi og skáluðum í bjór (sem passar svaka vel með).

Matargleðin hélt áfram í dag því við buðum vinum okkar þeim Bjarna, Lindu ásamt börnum í "brunch."  Þetta var mjög skemmtilegt enda alltaf gaman að njóta góðs matar í góðum félagskap.


Lífið og tilveran

Já ætli það sé ekki komin tími til að blogga.  Það er til lítils að vera með heimavinnandi eiginmann ef hann getur ekki bloggað annað slagið... hvað ætli líði langur tími þar til hann rekur augun í þetta :-)

En síðan á bóndadaginn þá hefur svosem ýmislegt gerst.  Nú Siggi skilaði sér heim frá Sviss, sem var ánægjulegt.  Ég er búin að fá allar einkunnir fyrir haustönnina og náði öllu Smile sem er alltaf mjög gleðilegt. Ég reyndar bjóst alveg við að ná öllu en það getur allt gerst.  Í framhaldi af þessu þá er ég byrjuð í þremur nýjum fögum sem eru mjög spennandi jafnframt sem ég er ánægðari með kennsluaðferðirnar núna.  Mínir dagar eru því þannig að ég vakna, fer í ræktina eða er heima með feðgunum fram að skóla, kem heim seinnipartinn, elda og læri fyrir næsta dag.  Sú "regla" hefur komið upp að ég er með Þóri Snæ á föstudögum og þá er Siggi að vinna í tölvunni.  Frábært fyrir mig að fá þennan tíma til að snúllast með stráknum mínum Smile

 Annars er gaman að segja frá því að það var "spurt eftir" Sigga tvisvar í síðustu viku.  Í fyrra skiptið var það maður sem býr á hæðinni hér fyrir neðan sem spurði Sigga hvort hann væri til í að kíkja á pub við tækifæri (mér skilst að þeir ætli á miðvikudagskvöldið) og í seinna skiptið voru það íslensku strákarnir sem voru á leið á pub og í bíó.  Svo það er aldeilis að eiginmaðurinn er vinsæll Wink  allavega vinsælli en ég, það er ekki spurt eftir mér og ég held að skólafélögunum finnist ég bara vera "mamma" sem fer ekki út að tjútta í tíma og ótíma.  En ég er þá líka bara hérna heima í rólegheitum og er alveg að fíla það (úff hvað maður er eitthvað miðaldra Wink).

Stóru fréttirnar eru þær að við fjölskyldan erum búin að kaupa okkur flugmiða til Íslands um páskana.  Bæði til að hitta allt fólkið okkar og til að mæta við skírn litlu frænku Ásu og Rúnarsdóttur.  Við komum til landsins rétt fyrir miðnætti þann 5. apríl og förum út aftur snemma morguns 17. apríl, verðum þá helgi í London að spóka okkur og tökum lest til Edinborgar á sunnudeginum 19. apríl.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband