Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Stóri áfanginn síðasta fimmtudag

Það kom að stóru stundinni síðasta fimmtudag þann 26. nóvember klukkan 15:00.  Ég útskrifaðist með MSc gráður (master) í Management of Training and Development sem gæti útlagst sem Master í stjórnun starfsþjálfunar á íslensku frá Edinborgar háskóla.

Útskriftardagurinn var ljómandi, við Þórir byrjuðum á því að skella okkur í klippingu um morguninn.  Því næst var að gera sig klára fyrir athöfnina, feðgarnir skutluðu mér á staðinn og fóru svo í smá bíltúr svo Þórir Snær næði að sofna smá (þar með yrði hann hressari um kvöldið).  Athöfnin var skemmtileg og gekk hratt og vel. Á meðan var Þórir í pössun hjá Lindu og Bjarna vinum okkar, þeim sem við gistum hjá.  Þar var heldur betur líf og fjör að venju, Þórir Snær alsæll að vera með krökkunum.  Um kvöldið fórum við út að borða á veitingastaðinn Gusto með Önnu sem var nágranni okkar í Edinborg og mömmu hennar.

Á föstudeginum skelltum við okkur í miðbæinn þar sem búið var að opna jólamarkaðinn, skemmtilegt að kíkja á stemninguna þar.  Einnig fórum við í góða ferð í IKEA þar sem barnarúm og kommóða var keypt fyrir dömuna sem von er á í janúar.  Um kvöldið keyrðum við heim til Lancaster.  Þreytt og sæl eftir góða ferð.


Þórir Snær og ensk barnalög

Uppáhalds lag Þóris Snæs þessa dagana er lag sem við mæðgin lærðum á "krakkamorgnum" (sem eru reyndar bæði fyrir og eftir hádegi).  Lagið er að sjálfsögðu á ensku en Þórir töffari er farinn að syngja með á fullu:

Zoom zoom zoom, we're going to the moon

Zoom zoom zoom, we'll be there very soon

Five, four, three, two, one (segir þetta hátt og skýrt og notar fingurna til að telja niður)

ZOOM (og þá er krökkunum lyft upp í loftið eins og eldflaug á leið til tunglsins)

 Svo virðist sem þau orð sem stúfurinn er að byrja nota séu að stórum hluta á ensku, greinilegt að við hjónin og það sem við höfum að segja er ekki mjög spennandi.  En við erum ekki áhyggjufull yfir þessu, þ.e. að enskan komi á undan.  Þegar 2ja ára stúfur er að læra tvö tungumál þá er eðlilegt að talkunnáttan komi ekki jafnt fram með bæði tungumál.  Þórir Snær skilur samt sem áður allt sem við segjum við hann (sem er á íslensku) svo nú er bara að gefa honum tíma til þess að vinna úr öllu saman Smile


Með góðan gest í heimsókn

Bjössi frændi (móðirbróður Ingu) kom til okkar síðasta miðvikudag og fór aftur heim til Íslands í dag.  Búið að vera gaman að fá hann til okkar og ekki síst fyrir þá Þóri Snæ að kynnast, en þeir eru miklir vinir eftir dvöl frændans hjá okkur.

Takk fyrir samveruna Bjössi, verður gaman að sjá þig aftur hjá okkur næsta vor/sumar Smile


Komin með nýja leigendur

Mikið er það yndislegt þegar hlutirnir ganga hratt og vel fyrir sig.  Við erum semsagt búin að fá nýja leigendur sem taka við íbúðinni okkar á Miklubrautinni um næstu áramót.  Þökk sé Facebook Smile.

Nýju leigendurnir eru ungt par í námi sem bæði vinna með skólanum.  Ég er tengd mömmu stelpunar á facebook, hún sá þegar ég auglýsti íbúðina og hafði strax samband við mig.  Ég kenndi stelpunni þar að auki svo ég þekki hana aðeins auk þess að þekkja til hennar í gegnum mömmuna.

Mikill léttir fyrir mig óléttu konuna sem reynir að stjórnast í og redda málum á milli landa Smile


Íbúðin okkar á Miklubraut 70 til leigu

Staðan er sú að parið sem tók íbúðina okkar á Miklubrautinni til leigu um miðjan júlímánuð eru búin að segja leigunni upp (af persónulegum ástæðum).  Íbúðin er því til leigu og eftir því sem við best vitum getur hún verið laus fljótlega þrátt fyrir að uppsagnartíminn séu 3 mánuðir.

Þetta er nýuppgerð 2 herbergja íbúð sem skiptist í hol/eldhús, baðherbergi með stórum sturtuklefa, mjög rúmgott svefnherbergi og stofu.  Íbúðin er sem áður segir nýuppgerð, björt með mjög gott skápapláss.  Þvottavélin okkar fylgir með sem og kælir/frystir, "allt" í eldhúsið og helstu húsgögn.

Verð á mánuði eru 105 þúsund krónur.  Innifalið er allt ofantalið, hússjóður, hiti, þrif á sameign og Securitas heimavarnarkerfi.

 Endilega hafið samband ef þú/þið hafið áhuga eða þekkið einhvern sem hefur áhuga á að leigja frábæru íbúðina okkar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband