Ferðalag til Immingham og Grimsby

Við fjölskyldan skelltum okkur í svolítið ferðalag í gærkvöldi.  Siggi var að vinna í hópaverkefni til klukkan 19:30 í gærkvöldi, náði í okkur mæðgin og svo lögðum við í hann sem leið lá eftir hraðbrautum frá Lancaster á vesturströndinni yfir til Grimsby á austurströndinni.  Þórir Snær svaf alla leið þar sem hann hafði ekki tekið sér blund yfir daginn og við fórum því beint á hótelið enda klukkan orðin býsna margt.   Við gistum á Premier Inn í Grimsby, þetta er hótelkeðja sem bíður upp á fín herbergi á sanngjörnu verði.

Í morgun skelltum við okkur svo á fætur og fórum í morgunverðarhlaðborðið, borðuðum vel til að eiga forða fram eftir degi.  Að morgunmatnum loknum hringdum við í skrifstofu Samskipa í Immingham, fórum þangað og vorum leidd að Arnarfelli, skipi Samskipa þar sem Bjössi frændi er kokkur.  Frábært að hitta Bjössa þó aðeins væri í stutta stund.  Hann kom með sendingu frá Íslandi, barnadótið okkar sem hefur verið í notkun hjá Ásu systur og Rúnari síðan í janúar þegar Urður Eva kom í heiminn.  Bjössi kom líka með "gúmmelaði" sem Ása hafði keypt fyrir okkar auk hangikjöts og Ora grænna bauna frá mömmu og pabba.  Jólin verða því ekki hangikjötslaus á Rutland Avenue.  Til að kóróna gleðina þá gaf Bjössi okkur líka súrmjólk sem mun fara vel með ALVÖRU Cheerios-inu sem við fengum að heiman.  Cheerios-ið sem fæst hér í Bretlandi er svo sætt að ég get/vil hlest ekki borðað það.  Í sendingunni var líka þónokkuð magn jólagjafa til fjölskyldunnar auk þess sem Bjössi tók jólagjafir til Belgíu og til Íslands frá okkur.  Frábært að geta sparað sendingakostnaðinn á þennan hátt, auk þess eru eða allavega stefna póstmenn í Bretlandi á verkfall svo einhverjar seinkunnir kunna að verða á póstflutningum.

Eftir að kveðja Bjössa héldum við á ný út á hraðbrautir Bretlands og ókum sem leið lá til Manchester, þar stoppuðum við aðeins í Costco heildversluninni og keyptum "aðeins" inn.  Tíminn leið og skólinn beið eftir Sigga sem fór beint á fyrirlestur að ferðalaginu loknu.  Við Þórir Snær áttum rólegan dag hér heima enda bæði ögn "tuskuleg" eftir rúmlega 500 km keyrslu á tæpum sólarhring.  Alltaf gott að koma heim eftir góða ferð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband