Hvað við erum og höfum verið að bardúsa

Nú er Siggi kominn á fullt í skólanum og er mjög ánægður með þá fyrirlestra og kennara sem hann hefur kynnst hingað til.  Einnig er hann búinn að skrá sig í skokkhóp og Tai Chi hóp svo þar ætti að vera komin fín leið fyrir hann til að fá útrás Smile.  Reyndar er líka útivistarhópur sem fer í dagsferðir á sunnudögum og lengri ferðir einu sinni til tvisvar á önn, aldrei að vita nema hann skelli sér í hressandi gögnuferð um Vatnahéruðin sem eru hér rétt fyrir norðan okkur.

Við Þórir Snær höfum það sömuleiðis gott á daginn.  Förum í gönguferðir og á fjölskylduhitting bæði hér í hverfinu og í Barnamiðstöð sem rekin er af hinu opinbera.  Virkilega gaman fyrir okkur bæði að hitta annað fólk.

Í gær átti ég tíma hjá ljósmóðurinni minni, það er alltaf jafn gaman að heyra hjartslátturinn hjá krílinu.  En það er greinilegt að "sú stutta" er hress og kát því hjartslátturinn var sterkur og jafn.  Eftir þetta keyrðum við fjölskyldan sem leið lá til bæjar hér í nágrenni við Lancaster, þar vissi ég af stórri barnavöruverslun sem meðal annars selur kerruna sem við höfum verið að spá í.  Við byrjuðum reyndar á að fá okkur að borða á pub hliðina á búðinni.  Þarna á þessum pub var boðið upp á glæsilegt steikarhlaðborð fyrir sömu upphæð eða jafnvel lægri upphæð en kostar fyrir okkur að fara á skyndibitastað.  Vel mett eftir svínasteik, kalkún og naut, meðlæti, drykk og dessert fórum við yfir í barnavöruverslunina.  Við erum sem sagt að leita okkur að 2ja barnakerru sem "þolir okkur" Smile

Þær kerrur sem stóðu uppúr í búðinni voru Out'n'About nipper 360 og Baby Jogger City mini, báðar mjög fínar kerrur sem hafa samt sem áður bæði kosti og galla.  Málið er bara að velja þá sem hefur færri galla að okkar áliti.  Þegar við gegnum út er það Baby Jogger sem hefur forskotið, spurning samt með dekkin á henni.  Mögulega færi ég frekar í Baby Jogger City Classic sem er í raun sama kerra en á betri dekkjum og með stillanlegu handfangi.  Já svona kerrupælingar eru skemmtilegar og gott að gefa sér góðan tíma í verkefnið.

Því næst keyrðum við til nágrannaborgarinnar Preston þar sem við kláruðum að kaupa þær jólagjafir sem sendar verða heim til Íslands með Bjössa frænda 19.október.   Kvöldið var rólegt hjá fjölskyldunni á Rutland Avenue sem er gott eftir góðan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband