Lancasterferð til fjár! Flytjum 15. júní!

Á þriðjudaginn var komið að langþráðri stund, ferðalagi til Lancaster þangað sem ég (Siggi) ætla til náms í haust.  Við áttum pantaða tíma hjá tveimur leigusölum í Lancaster þennan dag til að skoða sitthvort húsið auk þess sem okkur hafði verið boðið að koma og skoða nýja háskólann minn.

20090602 Lancaster Fyrstu skrefin á Lancasterska grund!Ferðin til Lancaster gekk vel og lá leiðin í gegnum gullfallegar skoskar sveitir í suðvestur frá Edinborg þangað til kemur að M6 hraðbrautinni sem liggur frá Glasgow og suður með eyjunni framhjá Lancaster.  Við gleymdum að taka bensín áður en við lögðum af stað og komumst fljótlega að því að ekki var mikið um bensínstöðvar í sveitunum.  Komum loks til bæjar sem heitir Biggar.  Þar sáum við nokkrar eldgamlar skítugar bensíndælur, þið munið þessar ferköntuðu sem voru á öllum Shell stöðum í gamla daga.  Við beygðum inn að þeim þar sem þær stóðu við einhvers konar verkstæði en ekki venjulega bensínstöð.  Út kom maður sem var enn eldri en tankarnir.  Ég myndi giska á að hann hafi verið farinn að nálgast áttrætt.  Gamli maðurinn dældi á bílinn og ég hóf máls á því að það væru nú ekki margar bensínstöðvar á leiðinni.  Gamli maðurinn sem enn hafði ekkert sagt hnussaði þá hálfpartinn hvort „þessi stöð væri ekki nægilega góð handa mér?!".  „Uh, jú, mér finnst þessi stöð mjög góð" sagði ég og ákvað að láta þar með spjallæfingum mínum lokið í bili.  Sá gamli varð hins vegar allur meyrari þegar við komum að kassanum og þakkaði mér mikið fyrir að versla við sig, „Thank you very much!" í hlýlegum tón.  Ég hef líklega reddað viðskiptunum þann daginn fyrir blessaðan karlinn.  Það var eitthvað ljúft við þennan endatón þessa karls sem hafði verið svo fýldur þarna stuttu áður.  Þegar ég elti hann inn þá var þetta bara einhver ruslakompa eða vísir að verkstæði þar sem öllu ægði saman.  Þetta var kærkomin og persónulegri tilbreyting frá öllum stöðluðu bensínstöðvunum.

Allan daginn skein sól í heiði og þegar við komum til Lancaster um hádegisbilið rúntuðum við um bæinn, fundum húsin sem við ætluðum að skoða, skruppum í verslun og fengum okkur að borða.

20090602 Lancaster Hlaupið í mömmuknús á litla opna svæðinu við hliðina á húsinu okkar.Rúmlega eitt vorum við mætt við fyrsta húsið.  Þar tók á móti okkur fasteignasali, kona sem tjáði okkur að við kæmumst ekki þarna inn.  Núverandi leigjendur neituðu að hleypa fólki inn að skoða og sögðust hafa bannað skoðanir á þessum tíma dags.  Húsið var enda líka til sölu þannig að okkur þótti ekki spennandi að fara að leigja hús sem síðan yrði selt undan okkur fljótlega.  Við fórum því aftur til baka með skottið milli lappanna.  Nú var aðeins eitt hús eftir að skoða og líkurnar orðnar óþægilega miklar á því að við færum aftur húslaus heim til Edinborgar.

Leigan í Lancaster er mun lægri en í Edinborg.  Líklega er 40-60% munur á leiguverði á góðum stað í London og Edinborg og hátt í annar eins munur á Edinborg og Lancaster.  Lancaster er líklega sambærilegt því að flytja á Patreksfjörð eða Sauðárkrók á Íslandi þótt um sé að ræða 40 þúsund manna bæjarfélag.  Við höfðum því gert okkur grein fyrir því að fyrir nokkurn veginn sömu upphæð og við erum að greiða í Edinborg gætum við fengið hús með garði í Lancaster.  Hér greiðum við 600 pund á mánuði en greiddum 660 pund til áramóta þegar leigusalarnir okkar ákváðu af eigin frumkvæði að LÆKKA leiguna af meðaumkvun yfir íslenska gengishruninu!

Þær óskir sem við höfðum voru því að húsið væri leigt út með húsgögnum og hins vegar að við það væri lokaður garður sem Þórir Snær gæti leikið sér í án þess að geta hlaupið út á götu.  Inga hefur leigið yfir fasteignamarkaðnum í Lancaster undanfarið og hefur komist að því að lítið er um hús sem uppfylla þessi tvö skilyrði auk þess að vera verðlögð innan þeirra marka sem hentar okkur.

20090602 Lancaster Nýja húsið okkar.Í húsi númer tvö hvað við annan tón en í því fyrsta.  Húsið var mjög smekklega innréttað, tveggja hæða hús með bílskúr og garði þar sem auðsjáanlega var nýbúið að gera upp neðri hæðina sem skiptist í stofuna, eldhúsið og anddyrið sem og baðherbergið á annarri hæðinni.  Þegar maður kemur inn í húsið fer maður inn á flísalagðan gang meðfram stiganum sem liggur upp á aðra hæð.  Við enda gangsins er eldhúsið, til vinstri undir stiganum er lítil geymsla búin þvottavél og hægra megin við ganginn stofa og borðstofa í einu rými.  Í eldhúsinu er ný eldhúsinnrétting með innbyggðum ofni, örbylgjuofni, ísskáp, frystiskáp, gashellum og meira að segja uppþvottavél!  Í stofunni er sjónvarpskrókur með kamínu sem aldrei hefur verið kveikt á í öðrum endanum og borðstofuborð í hinum endanum með gasarni!  Við sjónvarpskrókinn er tvöföld hurð sem hægt er að opna út í garð.  Í garðinum sem er lokaður á alla kanta er lítil stétt, lítill grasbali og meira að segja viðarpallur með garðhúsgögnum.  Við hliðina á garðinum er stór bílskúr með ýmsum græjum.  Uppi á lofti er nýuppgert baðherbergi með baði og sturtu, tvö svefnherbergi með tvíbreiðum rúmum í báðum herbergjunum, miklu skápaplássi og lítið svefnherbergi sem búið er að innrétta sem skrifstofu.  Þó var þar aukarúm sem hægt er að troða þangað inn ef fólk vill.  Á anddyrinu, eldhúsinu og baðherberginu eru dökkar smekklegar flísar, í stofunni og herbergjunum er parket og á stiganum er þykkt teppi.  Það mun vonandi koma í veg fyrir meiriháttar slys þegar Þórir fer að detta í stiganum.

Það er skemmst frá því að segja að húsið uppfyllti allar okkar óskir og vel það.  Við ákváðum því að láta slag standa.  Þarna, að 52 Rutland Avenue, skyldum við búa næstu 15 mánuði ef við gætum einhverju um það ráðið!  Leiguverðið var 650 pund á mánuði sem var innan þeirra marka sem við höfðum sett okkur.  Við biðum því ekki boðanna og komum okkur niður á skrifstofu leigumiðlunarinnar eins fljótt og við gátum því annað par hafði verið að skoða húsið rétt á undan okkur og við vissum ekki nema þau hefðu tekið sömu ákvörðun og við.  Gengið var frá pappírum, hringt í eiganda hússins og við fylltum út ýmis eyðublöð.  Eigandi hússins er læknir sem bjó þarna sjálfur þangað til hann fékk vinnu erlendis.  Sú vinna framlengdist nýverið og því er ekki von á honum heim á næstunni.

Allt í einu vorum við því komin með stórt hús í Lancaster og var ákveðið að við flyttum 15. júní næstkomandi, eftir einungis 12 daga!  Í heimaverkefni fengum við það að redda staðfestingu á því hvar við byggjum (Proof of Residency) og staðfestingu á framfærslu frá LÍN.  Í Bretlandi er engin kennitala úr þjóðskrá sem allir komast í eins og á Íslandi.  Hér er nafn og heimilisfang notað til að auðkenna þig í stað kennitölu á Íslandi.  Við þurftum því að redda „Proof of Residency"-pappírum frá einhverjum ábyrgum aðilum eins og banka, sveitarfélagi eða orkufyrirtæki sem sannaði að við værum virkilega Inga og Siggi og byggjum á West Powburn í Edinborg.  20090602 Lancaster Nýi háskólinn hans SiggaVið þurfum einnig að verða okkur út um bréf frá LÍN þar sem kemur fram hvaða framfærslu við verðum með næsta árið.  Þegar þetta er skrifað (á laugardegi) erum við búin að senda þeim staðfestingu á heimilisfesti, búin að senda beiðni á LÍN að útbúa bréf fyrir okkur, eigandinn er búinn að samþykkja okkur og við erum búin að fá í pósti til undirritunnar tvö afrit af leigusamningnum.

Hérna má finna myndir af nýju höllinni okkar.

Þetta er auðvitað mjög fyndið.  Við búum í tveggja herbergja íbúð í Reykjavík.  Ákváðum að gerast fátækir námsmenn í útlöndum og leigðum okkur þriggja herbergja íbúð í Edinborg og nú tveggja hæða hús með bílskúr og garði í Lancaster!  Það er alveg óskaplega erfitt að vera námsmaður í útlöndum! ;o)

Eftir þessa viðburðaríku tvo tíma í Lancaster ákváðum við að fara og skoða nýja skólann minn, Lancaster University Managment School (Viðskiptadeild háskólans í Lancaster).  Við höfðum heyrt í starfsfólkinu sem heldur utan um masterinn minn og þær buðu okkur hjartanlega velkomin í heimsókn.  Á þessum sólríka degi var allt auðvitað eins aðlaðandi og frekast gat verið.  Fólk lá í sólbaði út um allar trissur og brosti út í bæði.  20090602 Lancaster Nýi flotti háskólinn hans SiggaHúsin þarna eru öll meira og minna ný eða nýleg og viðskiptadeildin er í mjög nýtískulegu húsi þar sem öll aðstaða virðist vera eins og best verður á kosið.  Við hittum Söruh og Sian sem halda utan um ITMOC masterinn sem ég er í en Niall (næstum því eins og Njáll) sem stjórnar ITMOC var ekki við.  Þær voru mjög vinalegar, spjölluðu lengi og Sian fór meira að segja með okkur í gönguferð um svæðið.  Háskólasvæðið er í raun lítið bæjarfélag með alla þjónustu.  Þar búa hundruð manna í stúdentaíbúðum og þar eru banki, veitingastaðir, matvöruverslun o.fl. eins og í litlu bæjarfélagi.

Eftir frábæran, viðburðaríkan dag renndum við heim á leið í sólinni með Þóri Snæ syngjandi í aftursætinu.  600 kílómetrar og tveggja hæða hús er ekki svo slæmt dagsverk!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju

Anna Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 02:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband