Óvissa og ævintýri litlu fjölskyldunnar

Fengum óvæntar fréttir í dag.  Leigusalinn okkar tilkynnti okkur að nýju leigjendurnir væru búnir að panta sér flug þann 9. júní til Edinborgar.  Það væri því fínt ef við yrðum farin ca. viku fyrr!  Við komum algerlega af fjöllum!  Við fórum með leigusölunum okkar, sem er mikið sómafólk, í gönguferð 30. desember og spjölluðum þá um það hvað væri á döfinni og þar fram eftir götunum.  Þá vorum við að spá í að fara til Íslands í maí og vera þar þangað til við héldum áfram til Ameríku í lok sumars.  Þetta var áður en ég sótti um skólana og löngu áður en við vissum að masterinn sem ég sótti um í Lancaster í mars væri yfirhöfuð til.

Þau virðast hins vegar hafa tekið þessar vangaveltur fullbókstaflega því þau hafa gengið út frá því að þetta væri planið.  Við höfum hins vegar síðan smám saman komist á þá skoðun að vera bara hérna í Edinborg í sumar og fara síðan beint þangað sem við ætluðum að búa í vetur, sem líklega verður í Lancaster fáist jákvæð niðurstaða þaðan.

Ég sendi þeim póst áðan og spurði hvort það væri einhver leið út úr þessu önnur en að yfirgefa íbúðina í lok maí?  Við eigum reyndar svo gott að það er búið að bjóða okkur að vera, bæði hjá Önnu og Hildi hérna í næstu íbúð og hjá Lindu og Bjarna sem búa hér stutt frá.  Takk fyrir það öll sömul.  Það er gott að eiga góða að.  Við sjáum hvernig þessu öllu ríður af á næstu dögum.

Hvað skólamál varðar er ég eins og áður sagði búinn að fá "Já" frá háskólanum í Dayton, Ohio fyrir nokkru síðan.  Núna í síðustu viku fékk ég síðan neikvætt svar frá "Full time MBA" í háskólanum í Alabama en þeir buðu mér að flytja umsóknina mína yfir í "Executive MBA" deildina hjá sér.  Þar er um að ræða "Háskólanám með vinnu" prógram sem væri mjög athyglisvert.  Ég mætti reyndar líklega ekkert vinna í Ameríkunni en gæti þá tekið aukakúrsa í staðinn, t.d. þá sem snúa beint að viðskiptagreind (business intelligence) og ég hafði hugsað mér að taka í "Full time MBA"-inu þar sem mér var hafnað.  Þetta er líka spennandi vegna þess að þá væri ég með fólki sem væri að koma af vinnumarkaðnum í stað þess að hluti samnemenda minna væri að koma beint úr námi.  Vandamálið við þetta er að það er skipulagt öðruvísi.  Það er ekkert sumarleyfi heldur er náminu dreift á vetur-sumar-vetur í stað vetur-vetur í dagskólanum og það veldur því að hver önn nær ekki fullu námi eins og Lánasjóður íslenskra námsmanna skilgreinir það.  Ég fengi því ekki fullt námslán nema að ég næði að bæta við mig meira námi.  Ég var í símaviðtali við tvær konur frá EMBA í Alabama sem eru að skoða umsóknina mína og síðustu dagar hafa farið í að svara ritgerðarspurningum frá þeim sem ég sendi í gær.  Svo er bara að bíða og sjá hvort ég fái já eða nei þaðan.

Ég hafði loksins samband við Lancaster í síðustu viku. Ég hefði betur gert það fyrr en vegna þess að þeir óska eftir því að maður sé ekki að hringja of mikið í þau á meðan á valferlinu stendur, þar sem það tefji fyrir, þá beið ég fram yfir páska.  Ég heyrði hinsvegar á tóninum í þeirri sem svaraði að umsóknin mín hafði klárlega lent milli skips og bryggju einhvern veginn og hún sagðist setja hana í forgang eftir að ég benti henni á að búið væri að samþykkja mig í Ohio.  Ég hringdi síðan aftur núna á fimmtudaginn, þar sem þau höfðu ætlað að gefa mér svar í þessari viku, og þá var augljóst á því hvernig hún talaði að hún var ekkert búin að gera, þótt hún segði það ekki beint.  Hún virðist þó eitthvað hafa vaknað til lífsins því hún sendi mér tölvupóst seinna um daginn og tilkynnti mér að hana vantaði einkunnablað úr HR og 2 meðmælabréf.  Ég kom henni í skilning um að hvort tveggja væri komið til hennar fyrir löngu.  Þá sá ég að hún sendi gögnin mín á einhverja skólaskrifstofu í Lancaster þannig að þau eru vonandi loksins að fara að gera eitthvað í mínum málum.  Konan lofaði að ég fengi niðurstöðu núna eftir helgina.

Þar sem ég er búinn að ýta umsókninni í Ohio á undan mér í dágóðan tíma án þess að taka afstöðu til þess hvort ég tek því boði eða ekki þá er mikilvægt að ég fari að fá niðurstöðu í Lancaster þannig að ég missi ekki plássið í Ohio og sitji þá hugsanlega uppi með ekki neitt.  Það væri versta mögulega niðurstaða.  Ég hafði samband við Ohio vegna þessa og þeir gáfu mér umhugsunarfrest út maí þannig að ég þarf ekkert að óttast alveg á næstunni. 

Ef niðurstaðan frá Lancaster verður jákvæð þá erum við líklega að fara að flytja til þangað í lok maí eða seinna í sumar ef eitthvað breytist varðandi íbúðina.  Ef hún verður neikvæð þá erum við líklega að fara að panta pláss í Norrænu til Íslands, a.m.k. eftir atburði dagsins varðandi leigusalana.  Þá keyrum við væntanlega til Danmerkur og hittum Kristófer, með viðkomu í Brussel hjá Rósu og Marwan, áður en við höldum um borð í Norrænu og verðum á Íslandi í sumar þangað til við höldum vestur um haf í lok sumars.

Okkar háttur er viðtengingarháttur þessa dagana.  Óvissa er nú samt svolítið skemmtileg, svona þar sem við vitum a.m.k. að ég er pottþétt kominn inn í skólann í Ohio þannig að versta mögulega niðurstaða er að flytja til Íslands í sumar og þaðan til Ohio í haust.  Það er nú bara stórfín niðurstaða og því ekkert að óttast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Siggi, EMBA er alger nó-breiner.

MBA nám byggist 80% á því hvað þú og hinir nemendurnir koma með að borðinu. Í fyllstu hreinskilni þá hafa krakkar sem eru að koma beint úr skóla lítið sem ekkert fram að færa umfram það sem stendur í skólabókunum sem þú ert að dekka hvort sem er. 

En...Dayton Ohio - hvað í andsk. ertu að spá með það?  Það sem þú tekur með þér úr þessu námi er (vonandi)smá personal development og tengslanet. Tólin sem bætast við frá viðskiptafræðináminu eru ekki sérlega merkileg. Ef þú ert heppinn með kennara myndi ég segja að þú lærir að hugsa aðeins öðruvísi.

Reyndar myndi ég segja að þú værir betur settur í HR með bestu kennarana frá IESE, IVY, Boston Univ. ofl.  en í skóla með eigin deild þar sem "innanhússfólk" kennir alla kúrsa (svipað og ég sá frá HÍ).  Nú skal það tekið fram að ég er ekki alveg hlutlaus, eigandi eftir ca 4 klst. vinnu til að klára mitt MBA nám frá HR.

Þorsteinn Yngvi Guðmundsson (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 09:28

2 identicon

Ég tók MBA-ið hérna í Edin, var mjög ánægð. Hefði aldrei viljað taka það á Íslandi þar sem (amk 2006) mér fannst nemendurnir vera með allt of einsleita reynslu og lítið spennandi að vera í bekk með fólki sem maður þekkir eða amk þekkir til....ég vildi fá eitthvað meira út úr þessu. Reynsla af því að vinna í alþjóðlegu umhverfi er ekki metin til fjár...

Er hins vegar alveg sammála Þorsteini hérna að ofan, MBA reynslan gengur út á hvað samnemendurnir og kennarar koma með að borðinu...er í sjálfu sér ekkert erfitt nám. Maður getur alltaf bara keypt bókina eða farið í MSc ef fræðilegt nám er það sem heillar...það hefur náttúrulega líka í för með sér að flest allir nemendurnir eru 10 árum yngri en maður sjálfur...sem kemur svo að þeim fáránlega punkti að við Íslendingar ljúkum ekki stúdentsprófi fyrr en um tvítugt, en það er nú önnur saga...

Í mínu tilfelli var það amk fólkið í bekknum sem ég lærði sem mest af. Gríðarlega mismunanndi bakgrunnur, meðal aldur 33 ár og kom frá 27 löndum. Þessi alþjóðlega reynsla var mér gjörsamega ómetanleg bæði hvað varðar personal og career development. Hefði amk ekki viljað gera þetta öðruvísi. Í dag á ég stóran og góðan vinahóp (eða tengslanet hvernig sem þú lítur á það) sem býr út um allan heim. Megnið af samnemendum mínum eru súper klárt lið sem er að gera frábæra hluti á sínum vettvangi, og hefur það reynst mér svakalega vel að geta leitað til mismunandi sérfræðinga úr hópnum eftir að ég byrjaði að vinna hérna...

Við valið, myndi ég amk reyna að horfa í samsetningu nemenda, aldur, bakgrunn, þjóðerni osfrv þar sem ekkert fútt er að lenda í einsleitum bekk ;-)

Jæja, held þetta sé orðið gott, get alveg farið á flug varðandi MBA þar sem ég var svo hrikalega heppin og ánægð með mitt nám ;-)

Vona þér gangi sem allra best, veit að eitthvað gott kemur út úr þessu, og með þinn karakter eru þér allir vegir færir, hérna sem hinumegin við hafið!

Kv áslaug

Áslaug (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 10:03

3 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sæl,

Dayton Ohio og Alabama, buðu upp á áherslu á viðskiptagreind.  Þeim hefur eitthvað fjölgað núna á síðustu mánuðum hér vestan megin hafs en voru ekki margir í fyrra.  Ég kannaði líka Denver sem einnig býður upp á þetta en það hefði kostað hátt í Range Rover að fara þangað.

Ég er sammála ykkur með mikilvægi samnemendahópsins.  Þess vegna vildi ég fara erlendis eins og Áslaug.  Á hinn bóginn finnst mér frábært hvernig HR vinnur gegn íslensku einsleitninni með því að sækja sér kennara víða að, marga frá bestu skólum heims.

Vitið þið hvort einhvers staðar er boðið upp á MBA nám þar sem þetta er sameinað?  Kennararnir sóttir frá bestu skólum heims, ekki á Íslandi og kostar ekki hvítuna úr augunum á manni?

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.5.2009 kl. 15:12

4 identicon

Persónulega myndi ég skoða Schulich í Toronto, Kanada...Hef heyrt mjög mjög gott af þeim skóla, 66% international faculty og 65% international students, virkilega faglega staðið að öllu, mikil áhersla á tengsl við atvinnulífið og personal/career development. Vinur minn var skiptinemi þar, get komið þér í samband við hann ef þú hefur áhuga...á svo líka tvo góða vini í Toronto ef til þess kemur að þig vanti upplýsingar um borgina ;-)

http://rankings.ft.com/businessschoolrankings/york-university-schulich#global-mba-rankings

Síðan er Erasmus, Rotterdam víst góður, en eitthvað um 30% international facutly en 90%+ international students...

Varðandi hvítuna....þegar kemur að MBA, þá held ég maður verði bara að lifa af eineygður.....

Kv áslaug...sem er smá abbó yfir að eiga þetta ekki eftir ;-)

Áslaug (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 15:58

5 identicon

Í Kanada myndi ég líka skoða Ivey. Ég hef verið með nokkra mjög góða prófessora þar: http://rankings.ft.com/businessschoolrankings/university-of-western-ontario-ivey

Ég tek undir Erasmus - hann Eyþór vinur þinn var  náttúrulega þar - ætti að geta gefið þér pointers um skólann.

Svo er IESE mjög góður líka huxa ég.  Þá værirðu kominn undir stjórn  Opus Dei :-) sem eiga móðurstofnunina. Hef verið með nokkra mjög góða þaðan: http://rankings.ft.com/businessschoolrankings/iese-business-school

Ég held reyndar að þú ættir að skoða Edinborgarháskóla líka. Hef lítið annað en gott heyrt af honum.

Ég er sammála Áslaugu um að skoða vel samsetninguna og einsleitnina í skólnum. Í RU eru að jafnaði ekki nema 3-5 útlendingar í árgangi.

En líka, og ekki síður, að meta stærðina. Við vorum ca 55 sem lögðum af stað í RU og það er alveg í efri mörkum svona hópa. Ég ætla að leyfa mér að segja að bekkir sem eru stærri en það skili þér talsvert minni skoðanaskiptum því fólk einfaldlega kemst ekki að til að tjá sig. Ég held að besta hópastærð sé á bilinu 30-40. Þá geta allir tjáð sig um málin og hægt er að eiga alvöru skoðanaskipti og debat.

Ég var svo sannfærður um að þú yrðir úti að það hvarflaði ekki að mér að láta senda þér gögn og boð um að taka þátt í náminu. Það hefur verið tekið mjög vel á þeim ábendingum sem við höfum gefið og bæði kennslu/kúrsum/kennurum verið breytt skv ábendingum nemenda.

huxaðu þetta vandlega góði - þessi tími sem fer í þetta nám flýgur hjá eins og vindurinn... En þetta er ótrúlega skemmtilegt og gefandi.

Þorsteinn Yngvi (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband