Hvar skyldum við dansa um næstu jól?

Af skólamálum hjá Sigga...

Um áramótin sótti ég um MBA með áherslu á viðskiptagreind (Business Intelligence) í tveimur skólum.  Annars vegar University of Alabama í bænum Tuscaloosa í Alabamafylki í Bandaríkjunum og hins vegar í University of Dayton sem staðsettur er í Dayton í Ohio fylki.

Ég hafði síðan samband við skólana í janúar til að fá staðfestingu á því að ekkert hefði vantað í umsóknirnar og að öll gögn væru komin í hús hjá þeim.  Eitthvað vildu þeir hafa öðruvísi og eftir nokkurra daga póstsendingar var allt klárt.

Síðan hef ég ekkert heyrt frá University of Dayton en í byrjun febrúar heyrði ég frá Alabama.  Þar var mér sagt að umsóknin mín væri mjög sterk en samkeppnin í ár væri mikið meiri en hún hefði verið undanfarin ár. Vegna fjöldaatvinnuleysis í Bandaríkjunum (10% atvinnuleysi - hátt í 20 milljónir manna) væri miklu meiri aðsókn í námið en áður hefði verið.  Ég væri því á biðlista.  Það helsta sem ég gæti gert til að hafa áhrif á niðurstöðuna væri að endurtaka GMAT prófið.  Þar voru þeir bæði að vonast eftir hærra skori hjá mér og líka að sjá hvort ég tæki áskoruninni.  Ég kýldi auðvitað á það, tók prófið núna 9. mars síðastliðinn og sendi þeim niðurstöðuna.  Niðurstaðan var 20 stigum hærri en síðast (580 í stað 560).  Næsti fundur valnefndarinnar í Alabama er 23. mars eða þar um bil og munu þeir hafa samband eftir þann fund varðandi það hver staða mín verður þá.  Þessi aukna samkeppni gerir það að verkum að maður er ekki jafn viss í sinni sök og áður.

Ég er því að spá í að sækja um á fleiri stöðum nú á næstu dögum.  Koma þá þrjú nám helst til greina, öll hérna megin Atlantshafs.  Líklega sæki ég um þau öll:

  • Alþjóðlegt MBA hér í Edinborgarháskóla. 15 mánaða nám þar sem síðasti hluti námsins (haustið 2010) er tekinn í einhverjum af samstarfsskólum Edinborgarháskóla, t.d. í Singapore eða Shanghai, sem væri ekki leiðinlegt!
  • Annar kostur er Grenoble Graduate School of Business þar sem ég er að spá í að sækja um MBA nám með áherslu á viðskiptagreind (Business Intelligence).  Þetta er ansi spennandi skóli á mjög spennandi stað, Grenoble í frönsku ölpunum með Matterhorn fyrir ofan okkur og frönsku rívíeruna svolítið sunnan við okkur.  Ekki slæmt það!
  • Þriðji kosturinn, líklega sá mest spennandi námslega séð, er mastersnám í stjórnun, breytingastjórnun og upplýsingatækni (MSc Information Technology, Management & Organisational Change (ITMOC)) við háskólann í Lancaster.  Lancaster er um 100 km norðvestur af Manchester, í norð-vesturhluta Englands.  Þangað er aðeins 2-3 klukkustunda akstur héðan frá Edinborg.  Þetta er sérhæfðara nám heldur en MBA sem er almennt viðskiptafræðinám.  Þetta nám brúar bilið á milli upplýsingatækni og stjórnunar með sérstakri áherslu á breytingastjórnun.  Þetta er mjög spennandi og í raun nákvæmlega það sem ég hef áhuga á.  Þrátt fyrir að áherslan á viðskiptagreind sé minni þá er komið inn á hana í náminu líka.

Þetta þýðir að ef við förum ekki til Bandaríkjanna þá vitum við ekki hvort við komum til Íslands í sumar eða hvort við verðum í Edinborg.  Líklega verðum við bara hérna þangað til við keyrum á nýja staðinn, þ.e. ef ég enda ekki í Edinborgarháskóla.  Ef við hins vegar ákveðum að skella okkur yfir hafið, þá komum við væntanlega heim í maí og verðum fram til mánaðarmóta júlí/ágúst áður en við höldum til vesturheims í tvö ár.

Í stuttu máli sagt höfum við ekki hugmynd um hvar í heiminum við verðum stödd seinni part ársins sem gefur auðvitað endalaus tækifæri!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Greinilegt að litla fjölskyldan stendur á tímamótum.  Gangi ykkur vel og það verður spennandi að sjá hvar þið endið ....(dansið  næstu jól ;) 

Kveðjur frá Þrándheimi

Kittý landfræðigella (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband