Öfgana á milli í bæjarferð

Skruppum út að labba í gær á meðan Þórir svaf sem ekki telst til tíðinda.  Nú er farið að vora svolítið í Edinborg þótt hitastigið sé nú almennt hærra séð út um gluggann en í raun þegar út er komið.  Þó er það yfir leitt um 10 gráðurnar á daginn og getur verið nokkuð gott bara þegar sólin skín.

Í gær lögðum við af stað áleiðis niður í bæ í blíðskapar veðri og sól.  Þegar við vorum komin niður undir Meadows fór að þykkna verulega upp.  Við leiktum okkur aðeins á uppáhaldsleikvellinum okkar við Meadows og síðan var stefnan tekin á höll drottningar,  þ.e. Holyrood Palace.

Þá fóru að leka dropar úr lofti.  Við rákum augun í skilti sem benti okkur að Moskueldhúsi nokkru sem staðsett er í húsasundi.  Lyktin var góð og við kíktum við.  Þá var rigningin orðin slík að það hreinlega fossaði niður af himninum í nokkrar mínútur og þegar við héldum að þetta hefði náð hámarki þá kom haglél í nokkrar mínútur og ekki í neinu smáræðismagni!

Þar sem við höfðum flúið á vit múslimana ákváðum við að fá okkur að borða.  Þarna er einhvers konar súpueldhús í bakgarði moskunnar í Edinborg þar sem boðið er upp á marga góða karrýrétti og nanbrauð að hætti Pakistana og þjóðanna þar í kring.  Þarna borðuðum við á okkur gat undir tjaldhimni í portinu á meðan veðurofsinn gekk yfir.  Þá var orðið of seint að fara í höllina og stefnan tekin niður í bæ enda aftur komið ágætisveður.

Þar enduðum við á "The Scotch Whisky Experience" sem er sýningarhús í tengslum við skoska viskýgerð og þá miklu menningarsögu sem það á í Skotlandi.  Þar hlustuðum við á nokkra stutta fyrirlestra um viskýgerð og síðan var farið í það að smakka veigarnar.  Þetta var mjög skemmtilegt og var okkur meðal annars gefið The Glencairn Glass sem er tiltölulega nýhannað glas og fyrsta sérhannaða viskýsmökkunarglas í heimi.  Við versluðum okkur síðan smávegis nesti og héldum heim á leið.

Þetta var því bæjarferð öfganna.  Sól í bland við úrhelli og haglél og ég veit ekki alveg hvað góðlega manninum, sem var auðsjáanlega einhvers konar leiðtogi í moskunni þar sem við borðuðum, hefði fundist ef hann hefði vitað að við fórum beint frá honum í viskýsmökkun, en það er annað mál. Wink

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband