Amma og afi í heimsókn

Una og Þórir heimsóttu okkur um helgina og áttum við frábæran tíma saman.  Við sóttum þau á flugvöllinn í Glasgow á fimmtudagsmorguninn og renndum síðan heim á leið og fengum okkur Jacket Potato.  Höfðum lofað afa Þóri að sýna honum uppáhalds Jacket Potato staðinn okkar.  Gerðum það.  Hann er heima hjá okkur að 7/7 West Powburn.  Langflottast!Lifrapylsan frá ömmu og afa rann ljúflega niður

Eins og oft áður komu þau færandi hendi, nú með hangikjöt í jólamatinn, rúgbrauð, reyktan silung, lifrapylsu og fleira góðgæti, þar með talið chillisultu handa húsbóndanum. Smile

Þau komu líka með útigalla og fóðruð Viking stígvél á Þóri Snæ.  Það er svo ótrúlegt að í höfuðlandi rigningarinnar er ekki hægt að fá loðfóðruð stígvél eða almennilega úti- og pollagalla!   Hverjum hefði dottið það í hug?

Tókum góðan göngutúr í bæinn á fimmtudaginn og á föstudaginn skellti hópurinn sér í verslunarleiðangur í Fort Kinnaird verslunarmiðstöðina.  Það er ekki eiginleg verslunarmiðstöð heldur meira þyrping verslana í ætt við Smárann í Kópavogi, bara miklu stærra.

Siggi og Þórir Snær ákváðu að leggja land undir fót og kerruhjól og ganga að heiman til Fort Kinnaird.  Það reyndist frábær 10 km. göngutúr í sól og blíðu og römbuðum við á göngustíg sem lá nokkurn veginn alla leið þannig að við þurftum varla að fara yfir götu á leiðinni.  Þórir og Þórir byggjaGengum meðal annars eftir leið svokallaðrar Innocent railway (íslenska: Sakleysislestin) sem var járnbrautalest sem reist var um 1830.  Þá var hestum beitt fyrir lestina þar sem forvígismenn hennar töldu ólíklegt að ógnvekjandi kolakynntar eimreiðar ættu framtíðina fyrir sér.  Þetta minnir mann á ummæli forstjóra Intel hérna um árið þegar hann sagði að "þetta Internet væri nú bara bóla!". Smile

Hluti leiðarinnar liggur meðfram golfvelli og lentum við í því að golfkúla kom úr mikilli hæð og lenti nokkrum metrum fyrir framan okkur.  Nokkrum mínútum síðar lenti síðan önnur fyrir aftan okkur.  Maður þarf kannski að ganga með hjálm þegar leiðin liggur meðfram þeim aragrúa golfvalla sem dreift er um allt hér í Edinborg!

Á laugardaginn skelltum við okkur niður í bæ á bændamarkaðinn þar sem við keyptum dýrindis mat fyrir kvöldið og héldum síðan út fyrir bæinn.  Leiðin lá til Peebles, gamals hlýlegs smábæjar 50 km. sunnan við borgina.  Það var sérstaklega fallegt að keyra um sveitirnar í haustlitunum á laugardaginn.  Peebles er gamall fallegur bær sem liggur meðfram ánni Tweed.  Miðbærinn er mjög gamall í útliti og hlýlegur.  Tvær fallegar brýr liggja yfir ánna og gengum við hring meðfram ánni auk þess sem að fá okkur snarl á kaffihúsi sem staðsett er í leikhúsi bæjarins.  Þar sat maður á næsta borði sem við vorum ekki á einni skoðun um hvort væri ekki í sama heimi og við, hvort hann væri að skrifa leikrit eða hvað en hann sat aleinn við borðið, skrifaði af miklum móð og spjallaði við sjálfan sig.Amma Una og Þórir Snær lesa um Tuma

Eftir góða ferð um Peebles héldum við heim á leið þar sem eldað var dýrindis nautakjöt af bændamarkaðnum ásamt eplaköku, berjum og Butterscotch sósu.  Vorum við nánast meðvitunarlaus eftir átið og var kreppunni gefið langt nef þetta kvöld.

Seinna um kvöldið skelltu Inga og Siggi sér í bíó þar sem barnapíurnar voru mjög áfjáðar í að losna við okkur úr húsinu svo þær gætu pakkað inn jólagjöfum og verið einar með Þóri Snæ.  Skelltum okkur á nýju James Bond myndina og vorum sammála því að þar færi frábær hasarmynd en engin "Bond" mynd.  Þarna var enginn Q, engin Miss Moneypenny, engar hnittnar setningar, enginn glæsileiki heldur fyrst og fremst hasar, slagsmál og blóð sem var gott og blessað en við söknuðum samt Bond.  Okkur var líka algerlega ofboðið með auglýsingum.  Myndin átti að byrja 22:30 en byrjaði ekki fyrr en 23:05.  Auglýsingar voru því í fullar 35 mínútur áður en myndin byrjaði!!!  Íslensku 10-15 auglýsingamínúturnar urðu allt í einu örstuttur tími!

Gengum síðan heim með viðkomu á pöbb í nokkrar sekúntur.  Æi við nenntum því ekki.  Fórum inn á tvo pöbba en út af þeim aftur eftir um það bil 30 sekúntur.  Ég held við þurfum að fá aðstoð í pöbbarölti.  Við erum ekki að skora stórt á þeim vettvangi. Blush Á götu í Peebles

Sunnudagurinn var tekinn rólega fram yfir hádegi en síðan ákveðið að leggja land undir hjól og skoða Glasgow.  Þetta er í fyrsta skipti sem við komum til Glasgow.  Eyddum tveimur tímum eða svo í að ganga um miðborg Glasgow með Þóri og Unu áður en við skutluðum þeim á flugvöllinn.  Spennandi borg sem verður án efa gaman að kíkja í fyrir jólin.

Það var frábært að hafa Þóri og Unu um helgina.  Við gættum þess að vera ekki með þaulskipulagða dagskrá heldur tókum okkur góðan tíma til að vera saman í rólegheitum hérna heima og leika við Þóri Snæ.  Hann náði góðum tengslum við ömmu og afa og lék á alls oddi alla helgina enda miðdepill athyglinnar.

Tókum því rólega á sunnudagskvöldið eftir frábæra helgi.  Góð vika framundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvar eru myndirnar?

Rósa Rut (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 10:40

2 Smámynd: Siggi & Inga

Svona svona...þú ert svo ströng!  Þær eru komnar NÚNA.

Siggi & Inga, 13.11.2008 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband