Í saltan sjó

Skelltum okkur á ströndina í gær.  Komum við á McDonalds og fórum með matinn á Portobelloströndina til að gæða okkur á kræsingunum með almennilegu útsýni.  Veðrið var fínt, sól og hlýtt þannig að við trítluðum svolítið á tásunum í flæðarmálinu, lékum okkur með skóflu og fötu og Þórir Snær elti hunda sem voru þarna út um alla strönd.

Fyrst var Þórir Snær frekar óöruggur gagnvart því að vaða út í sjóinn, líklega fyrst og fremst vegna kulda.  Fljótlega fannst honum þetta þó spennandi og náði spennan hámarki þegar hann tók á rás út í sjó.  Hann var þó ekki kominn nema rétt um hnédýpt þegar hann steyptist á kaf í sjóinn.  Við vorum að sjálfsögðu með honum, kipptum honum upp og klæddum hann úr fötunum og fjarlægðum sjóblauta bleiuna.  Þóri fannst þessi bleyta skrítin á fötunum og brá hálfpartinn.  Var auðsjáanlega ekki búinn að gera sér grein fyrir því að sjórinn var blautur.  Það kemur líklega með nokkrum svona byltum.

Hann þornaði þó fljótt í fanginu á pabba sínum í sólinni og var fljótlega farinn að hlaupa um á nýrri bleiu.  Þórir hefur því kannski ekki mýgið í saltan sjó en hann hefur hins vegar dottið í hann og lyktaði af sjávarseltu fram eftir degi þegar við komum loks heim og hann fór í bað.  Er nokkuð íslenskara en að lykta af sjávarseltu?


Í syngjandi sveiflu!

Þórir Snær gengur nú um íbúðina syngjandi alla daga og á leiðinni úr safarí garðinum á sunnudaginn söng hann megnið af leiðinni.  Skemmtilegt!! Smile

Leigjendurnir hættir við að koma!

Fengum nýjar fréttir í gær af leigumálum.  Nýju leigjendurnir sem ætluðu að koma 9. júní eru hættir við, fundu sér minni og ódýrari íbúð einhvers staðar í borginni.  Við ráðum því hvort og hvenær við yfirgefum Edinborgina.

Við erum búin að vera að skoða leigumarkaðinn í Lancaster.  Svo virðist sem við séum að fá parhús með garði og jafnvel bílskúr fyrir svipaða leigu og við erum að greiða fyrir þriggja herbergja íbúðina okkar hér, þrátt fyrir að við séum að greiða lága leigu samanborið við aðra í Edinborg.  Það er svolítið freistandi.

Eftir vangaveltur undanfarinna vikna er eiginlega kominn ferðahugur í okkur og okkur langar að fá garð fyrir sumarið og leikföng í garðinn þannig að Þórir geti verið úti að leika sér án þess að við þurfum alltaf að vera með.  Við munum því líklega kýla á flutning til Lancaster í júní þrátt fyrir nýjustu fréttir.  Þó verður það líklega meira á rólegri nótunum og án þess að við þurfum að flytja inn á Önnu nágranna í millitíðinni.

Við munum hins vegar kveðja Edinborg með söknuði.  Hér hefur okkur liðið sérstaklega vel og hér höfum við kynnst algerlega frábærum vinum, bæði íslenskum, skoskum og víðar að.  

Dagmar og Geir ætla að koma frá Aberdeen og vera hjá okkur um helgina.  Þá ætla Íslendingarnir að hittast á laugardagskvöldið hjá Ragga og Agnesi í grilli og Eurovisionpartýi auk þess sem stefnan er tekin á safarigarð á sunnudaginn þar sem keyrt er á milli ljónanna.  Eins gott að opna ekki gluggann! 


Aftur og aftur...

Venjulega erum við inni hjá Þóri Snæ þangað til hann sofnar á kvöldin.  Siggi ákvað að taka slaginn í kvöld og fór út áður en Þórir sofnaði.  Þá kom berglega í ljós að drengurinn er engin lufsa.  Hann kom fram eitthvað á bilinu 30 til 40 sinnum, ekki sáttur, og jafn oft fór Siggi með hann aftur inn.  Að lokum, stuttu fyrir miðnætti, varð þreytan þrjóskunni yfirsterkari.  Maður gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. ;o)


Loksins loksins...

Restin af marsmyndunum er komin inn á Barnalandssíðuna, þ.e. frá 11. mars.  Apríl kemur síðan á næstunni.


Þórir Snær ferðalangur!

Þórir Snær er orðinn ansi ferðavanur þótt hann sé ekki nema 22 mánaða. Hann hefur búið í Reykjavík, Edinborg og er á leiðinni til Lancaster. Hann hefur ferðast í bílum, lestum, neðanjarðarlestum, skipi, breskum leigubílum, innanlandsflugi, millilandaflugi og komið til Íslands, Færeyja, Noregs, Frakklands og Skotlands, að ekki sé minnst á að hann hefur farið á bilinu 2.500 - 3.000 km í kerrunni sinni! Geri aðrir betur á 22 mánuðum! ;o)

Kominn inn í Lancaster

Var að fá póst áðan...

5 May 2009

Dear Mr Sigurdur Ulfarsson

Further to your application for the MSc in Information Technology, Management & Organisational Change programme, we are very pleased to recommend that you be made an unconditional offer for a place on the programme commencing October 2009.

We have therefore forwarded your application to our Central Postgraduate Admissions Office and, subject to their approval; you should receive an official unconditional offer letter from them within the next few weeks.

This official offer letter will also enclose an acceptance form for you to complete to inform us if you want to accept or decline the offer.  If you wish to accept we ask that you return your acceptance form and deposit of £500 within 21 days after receipt of your official offer from the University. Please send this to the Management School Admissions Office.

The programme fees for 2009/10 are UK/EU students: £7,000 (GBP), Overseas (non-EU) students: £11,700 (GBP).

We hope that you accept this offer of a place on this popular Master's programme and that we will be able to welcome you to Lancaster in October 2009.

If you have any queries whatsoever, please do not hesitate to contact the Management School Admissions Office at ITMOCadmissions@lancaster.ac.uk

With best wishes

Yours sincerely,

 


Sarah Patterson
Faculty Admissions Officer (Postgraduate)

Cc: Central Postgraduate Admissions Office

Find out about our MSc in Information Technology, Management & Organisational Change
http://www.lums.lancs.ac.uk/masters/itmoc/


Óvissa og ævintýri litlu fjölskyldunnar

Fengum óvæntar fréttir í dag.  Leigusalinn okkar tilkynnti okkur að nýju leigjendurnir væru búnir að panta sér flug þann 9. júní til Edinborgar.  Það væri því fínt ef við yrðum farin ca. viku fyrr!  Við komum algerlega af fjöllum!  Við fórum með leigusölunum okkar, sem er mikið sómafólk, í gönguferð 30. desember og spjölluðum þá um það hvað væri á döfinni og þar fram eftir götunum.  Þá vorum við að spá í að fara til Íslands í maí og vera þar þangað til við héldum áfram til Ameríku í lok sumars.  Þetta var áður en ég sótti um skólana og löngu áður en við vissum að masterinn sem ég sótti um í Lancaster í mars væri yfirhöfuð til.

Þau virðast hins vegar hafa tekið þessar vangaveltur fullbókstaflega því þau hafa gengið út frá því að þetta væri planið.  Við höfum hins vegar síðan smám saman komist á þá skoðun að vera bara hérna í Edinborg í sumar og fara síðan beint þangað sem við ætluðum að búa í vetur, sem líklega verður í Lancaster fáist jákvæð niðurstaða þaðan.

Ég sendi þeim póst áðan og spurði hvort það væri einhver leið út úr þessu önnur en að yfirgefa íbúðina í lok maí?  Við eigum reyndar svo gott að það er búið að bjóða okkur að vera, bæði hjá Önnu og Hildi hérna í næstu íbúð og hjá Lindu og Bjarna sem búa hér stutt frá.  Takk fyrir það öll sömul.  Það er gott að eiga góða að.  Við sjáum hvernig þessu öllu ríður af á næstu dögum.

Hvað skólamál varðar er ég eins og áður sagði búinn að fá "Já" frá háskólanum í Dayton, Ohio fyrir nokkru síðan.  Núna í síðustu viku fékk ég síðan neikvætt svar frá "Full time MBA" í háskólanum í Alabama en þeir buðu mér að flytja umsóknina mína yfir í "Executive MBA" deildina hjá sér.  Þar er um að ræða "Háskólanám með vinnu" prógram sem væri mjög athyglisvert.  Ég mætti reyndar líklega ekkert vinna í Ameríkunni en gæti þá tekið aukakúrsa í staðinn, t.d. þá sem snúa beint að viðskiptagreind (business intelligence) og ég hafði hugsað mér að taka í "Full time MBA"-inu þar sem mér var hafnað.  Þetta er líka spennandi vegna þess að þá væri ég með fólki sem væri að koma af vinnumarkaðnum í stað þess að hluti samnemenda minna væri að koma beint úr námi.  Vandamálið við þetta er að það er skipulagt öðruvísi.  Það er ekkert sumarleyfi heldur er náminu dreift á vetur-sumar-vetur í stað vetur-vetur í dagskólanum og það veldur því að hver önn nær ekki fullu námi eins og Lánasjóður íslenskra námsmanna skilgreinir það.  Ég fengi því ekki fullt námslán nema að ég næði að bæta við mig meira námi.  Ég var í símaviðtali við tvær konur frá EMBA í Alabama sem eru að skoða umsóknina mína og síðustu dagar hafa farið í að svara ritgerðarspurningum frá þeim sem ég sendi í gær.  Svo er bara að bíða og sjá hvort ég fái já eða nei þaðan.

Ég hafði loksins samband við Lancaster í síðustu viku. Ég hefði betur gert það fyrr en vegna þess að þeir óska eftir því að maður sé ekki að hringja of mikið í þau á meðan á valferlinu stendur, þar sem það tefji fyrir, þá beið ég fram yfir páska.  Ég heyrði hinsvegar á tóninum í þeirri sem svaraði að umsóknin mín hafði klárlega lent milli skips og bryggju einhvern veginn og hún sagðist setja hana í forgang eftir að ég benti henni á að búið væri að samþykkja mig í Ohio.  Ég hringdi síðan aftur núna á fimmtudaginn, þar sem þau höfðu ætlað að gefa mér svar í þessari viku, og þá var augljóst á því hvernig hún talaði að hún var ekkert búin að gera, þótt hún segði það ekki beint.  Hún virðist þó eitthvað hafa vaknað til lífsins því hún sendi mér tölvupóst seinna um daginn og tilkynnti mér að hana vantaði einkunnablað úr HR og 2 meðmælabréf.  Ég kom henni í skilning um að hvort tveggja væri komið til hennar fyrir löngu.  Þá sá ég að hún sendi gögnin mín á einhverja skólaskrifstofu í Lancaster þannig að þau eru vonandi loksins að fara að gera eitthvað í mínum málum.  Konan lofaði að ég fengi niðurstöðu núna eftir helgina.

Þar sem ég er búinn að ýta umsókninni í Ohio á undan mér í dágóðan tíma án þess að taka afstöðu til þess hvort ég tek því boði eða ekki þá er mikilvægt að ég fari að fá niðurstöðu í Lancaster þannig að ég missi ekki plássið í Ohio og sitji þá hugsanlega uppi með ekki neitt.  Það væri versta mögulega niðurstaða.  Ég hafði samband við Ohio vegna þessa og þeir gáfu mér umhugsunarfrest út maí þannig að ég þarf ekkert að óttast alveg á næstunni. 

Ef niðurstaðan frá Lancaster verður jákvæð þá erum við líklega að fara að flytja til þangað í lok maí eða seinna í sumar ef eitthvað breytist varðandi íbúðina.  Ef hún verður neikvæð þá erum við líklega að fara að panta pláss í Norrænu til Íslands, a.m.k. eftir atburði dagsins varðandi leigusalana.  Þá keyrum við væntanlega til Danmerkur og hittum Kristófer, með viðkomu í Brussel hjá Rósu og Marwan, áður en við höldum um borð í Norrænu og verðum á Íslandi í sumar þangað til við höldum vestur um haf í lok sumars.

Okkar háttur er viðtengingarháttur þessa dagana.  Óvissa er nú samt svolítið skemmtileg, svona þar sem við vitum a.m.k. að ég er pottþétt kominn inn í skólann í Ohio þannig að versta mögulega niðurstaða er að flytja til Íslands í sumar og þaðan til Ohio í haust.  Það er nú bara stórfín niðurstaða og því ekkert að óttast.


Fyrsti dagurinn heima eftir páskaferðina

Þórir Snær var svo glaður í morgun að vera kominn heim.  Það að fá hafragraut, krakkalýsi og gera "stór og sterkur" fyrir og eftir lýsistöku gerði stúfinn alsælann.

Morguninn fór í að ég skilaði inn verkefni sem ég var að vinna yfir páskana, Siggi tók upp úr töskum og setti í vél og við gerðum matseðil fyrir vikuna. Um hádegisbilið pökkuðum við í kerruna því sem við þurftum yfir daginn og fórum í gönguferð.  Fjölskyldan var léttklædd þar sem veðrið lék við borgarbúa í dag, sól og hiti á milli 15°C og 20°C.  Við fórum víða að vanda og enduðum á leikvellinum á Meadows.

Mikið óskaplega er gott að eiga svona fjölskyldu daga Smile

Á morgun byrja ég á síðasta áfangalokaverkefninu sem ég á að skila 1. maí, þegar því er lokið á ég bara stóru ritgerðina eftir.  Mikið óskaplega líður tíminn hratt.


Páskaferð til Íslands og helgi í London

Eftir um það bil 16 klst ferðalag (5.apríl) með leigubíl, lest, neðanjarðarlest, gangandi, flugi og fólksbíl komum við á Skúlagötuna til tengdó.  Mikið óskaplega var gott að komast á áfangastað og ekki var verra að leggjast til svefns og steinsofna Smile.  Ferðalagið gekk mjög vel en það var ekki síst Þóri Snæ að þakka sem er algjörlega æðislegur elsku strákurinn.  Alla þessa ferð og aldrei kvart, kvein eða grátur.

Við vorum svo heppin að daginn eftir að við komum til Íslands hittist matarklúbburinn okkar, Mató, sem eru skólafélagar mínir úr landafræðinni í HÍ.  Frábært að hitta það góða fólk og sjá nýjasta meðliminn sem fæddist í desember síðastliðnum.  Eftir mató gegnum við Þórir heim í hellirigningu (hressandi) og Siggi fór á burtfarartónleika með Kristínu Sigurðardóttur skáta (önnur þeirra sem söng í brúðkaupinu okkar).  Á þriðjudagskvöldinu áttum við skemmtilegt kvöld á Skúlagötunni með fjölskyldu Sigga.  Borðuðum raclette og spjölluðum.  Það var svo gaman að sjá hvað Þórir Snær og Petra Björk frænka hans, fædd sama ár, náðu vel saman og hvað þau skemmtu sér ótrúlega vel þessar elskur.  Veðrið var fínt og við Þórir fórum í göngutúr með Heklu vinkonu eins og við vorum vön að gera áður en við fluttum til Skotlands, gönguferð og gott spjall er alltaf hressandi og notalegt.

Á Skírdag keyrðu við til Akureyrar.  Það má segja að það hafi verið fullt hús í Ásabyggðinni hjá mömmu og pabba, við þrjú komum frá Edinborg, Rósa og Marwan komu frá París og Ása og Rúnar komu ásamt litlu stelpunni sinni úr Kópavoginum.  Páskarnir voru yndislegur og svo gaman að vera öll saman Smile.  Aðalviðburður páskanna var án efa skírn litlu frænku minnar, dóttur Ásu og Rúnars.  Daman var skírð Urður Eva, svo glöð og brosandi lítil stelpa sem við hlökkum til að kynnast betur.

Á þriðjudag eftir páska flugum við til Reykjavíkur, þar sem við dvöldum fram á föstudag en þá fórum við til London.  Þá um kvöldið fórum við í Baugakórinn til Ásu og fjölskyldu, Rósa, Marwan og Bjössi frændi voru líka og við áttum gott kvöld.  Við Ása náðum að vera svolítið saman þessa daga, spjalla og fara í göngutúr með börnin okkar Smile

Föstudagurinn 17.apríl var tekinn snemma, vöknuðum 3:45 til að ná flugi 7:40 til London.  Þórir Snær var alveg að "fíla" flugið þar sem hann var með sér sæti, gat horft á barnaefni í afþreyingarkerfinu, fékk snarl og svaf í fanginu á pabba sínum.  Þegar við komum til London fórum við á hótelið okkar til að losa okkur við farangurinn.  Þrátt fyrir þreytu skelltum við okkur í gönguferð að leita að leikvelli þar sem Þórir gæti fengið smá útrás.  Það tókst heldur betur, í Regent Park fundum við leikvöll þar sem sá stutti spretti úr spori og lét rigninguna sem komin var ekkert á sig fá.  Hann var svo alsæll að vera úti Smile.  Á endanum var Þórir orðinn svo blautur að þurr föt og flísteppið í kerrunni var málið.  Hann lognaðist svo útaf á leiðinni á hótelið og var í kúrustuði þar til hann fór að sofa. Elsku litli snúðurinn var alveg búinn á því en alltaf í svo góðu jafnvægi.

Laugardagurinn, afmæli húsbóndans rann upp.  Sólin skein og hlýtt í veðri, eftir enskan morgunverð skellti fjölskyldan sér í gönguferð um miðborg London.  Fórum frá Kings Cross á markaðinn í Covent Garden, þaðan fórum við að Thames ánni og gengum eftir henni á suðurbakkanum. Þar er fjöldi veitingastaða og mannlífið líflegt.  Við skoðuðum litlar búðir, markaði og hittum líka Lindsay vinkonu okkar, sem býr í London ásamt Hirti skólabróður Sigga úr Versló.  Um kvöldið fórum við út að borða í tilefni að 35 ára afmæli Sigga.  Fyrir valinu varð ítalskur veitingastaður á Strand, frábær þjónusta og góður matur.  Að sjálfsögðu náði litla sjarmatröllið okkar hann Þórir að heilla bæði þjóna og gesti eins og hann er vanur Smile

Að morgni sunnudags tókum við lest frá London til Edinborgar.  Mikið óskaplega fannst okkur öllum gott að koma heim, en þannig á það að vera eftir góða ferð. 


Lancaster

Ég var að enda við að senda inn umsókn um mastersnám í Lancaster í Norður-Englandi.  Ég veit nú ekki hvað Skotunum mínum finnst um það að ég sé að svíkja lit og flytja til ENGLANDS af öllum stöðum.  Sjáum til hvernig þetta fer.  Um er að ræða ITMOC masterinn í upplýsingatækni og breytingastjórnun sem ég minnist á í færslunni hér að neðan.  Mjög spennandi nám.

Smelltu hérna til að finna Lancaster á korti.

Annars erum við Þórir bara hérna heima í rólegheitum í augnablikinu en Inga er í skólanum.  Nú ætlum við að fá okkur smá hádegismat og síðan skellum við okkur út þar sem Þórir sefur í tvo tíma í kerrunni og ég rölti um óravíddir Edinborgar á meðan.  Úti hefur komið eitthvað bakslag í vorið.  Hitastigið er um 7 gráður, svolítill vindur og von á skúrum þegar líða tekur á daginn.  Búist er við svona veðri út vikuna.  Dagskipunin er semsagt: "Aftur í vetrarfötin!".

Inga er í skólanum en er búin í dag um tvöleytið.  Þá annað hvort slæst hún í hópinn með okkur í úti eða fer heim og heldur áfram með verkefnin.  Hún er að standa sig þvílíkt vel og klárar í dag verkefni sem hún þarf strangt til tekið ekki að skila fyrr en á föstudaginn.  Það eru hins vegar fleiri verkefni í farvatninu sem hún vill klára eins mikið af og hún getur áður en við komum til Íslands svo hún þurfi ekki að vera alla daga inni að læra á Fróni.

Í kvöld er svo kóræfing hjá kórnum mínum, Kevock kórnum, sem æfir nú stíft fyrir vortónleikana í Queens Hall 10. maí.  Efnisskráin er fjölbreytt og skemmtileg og má þar helst nefna The Armed Man sem er verk eftir Karl Jenkins, syrpu úr Evitu eftir Andrew Lloyd Webber, nokkur skosk þjóðlög og loks gamaldags djass/swing tónlist að hætti Fats Domino og má þar nefna Ain't Misbehaven, Continental og fleiri lög.  Það verður verulega gaman.  Ég hlakka mikið til.


Vorið er komið...

... og jafnvel pínulítið eins og íslenskt sumar í dag og í gær.  Æðislegt veður og frábært að vera úti. 

Siggi og Þórir Snær voru úti í 8 tíma í gær og voru báðir ósköp þreyttir um kvöldmatarleytið.  Ég (Inga) er að reyna að vinna á fullu í áfanga lokaverkefnum þessa dagana, en óskaplega er það erfitt þegar veðrið er svona gott.  Það verður samt að hafa það því ég á að skila einu verkefni 27. mars, öðru 3. apríl og þriðja 15. apríl en þá verð ég á Íslandi svo ég mun skila því verkefni líka þann 3. apríl.  Þetta hefst allt og ég þakka fyrir að hafa unnið jafnt og þétt í vetur og vera skipulögð í vinnubrögðum Smile

Veðurspáin fyrir morgundaginn (21.mars) er mjög góð og stefnan því tekin á Portabello-ströndina hér í Edinborg.  Ef fer eins og ætlað er mun þetta verða Íslendingaferð á ströndina, ég ætla því að vera dugleg að vinna í verkefninu í kvöld, fyrramálið og annaðkvöld því þá get ég farið með Smile


Kominn inn!!!

Gleðifréttir!!!  Ég var að fá póst um að búið væri að samþykkja mig í University of Dayton í Ohio í Bandaríkjunum.  Þetta þýðir að ég er a.m.k. öruggur um að komast í nám næsta haust og eyðir því mikilli óvissu.  Ég á von á svari frá Alabama í næstu viku eða þarnæstu.

Þetta þýðir að óþarfi er að sækja um fleiri skóla en þó ætla ég að henda inn umsókn í námið í Lancaster.  Það er mjög athyglisvert nám og myndi henta mér mjög vel ef ég fengi þar inni.

Óvissunni er alla vega eytt um það hvort ég komist í nám eða ekki.  Það er það mikilvægasta.  Jibbbííí!!!


Hvar skyldum við dansa um næstu jól?

Af skólamálum hjá Sigga...

Um áramótin sótti ég um MBA með áherslu á viðskiptagreind (Business Intelligence) í tveimur skólum.  Annars vegar University of Alabama í bænum Tuscaloosa í Alabamafylki í Bandaríkjunum og hins vegar í University of Dayton sem staðsettur er í Dayton í Ohio fylki.

Ég hafði síðan samband við skólana í janúar til að fá staðfestingu á því að ekkert hefði vantað í umsóknirnar og að öll gögn væru komin í hús hjá þeim.  Eitthvað vildu þeir hafa öðruvísi og eftir nokkurra daga póstsendingar var allt klárt.

Síðan hef ég ekkert heyrt frá University of Dayton en í byrjun febrúar heyrði ég frá Alabama.  Þar var mér sagt að umsóknin mín væri mjög sterk en samkeppnin í ár væri mikið meiri en hún hefði verið undanfarin ár. Vegna fjöldaatvinnuleysis í Bandaríkjunum (10% atvinnuleysi - hátt í 20 milljónir manna) væri miklu meiri aðsókn í námið en áður hefði verið.  Ég væri því á biðlista.  Það helsta sem ég gæti gert til að hafa áhrif á niðurstöðuna væri að endurtaka GMAT prófið.  Þar voru þeir bæði að vonast eftir hærra skori hjá mér og líka að sjá hvort ég tæki áskoruninni.  Ég kýldi auðvitað á það, tók prófið núna 9. mars síðastliðinn og sendi þeim niðurstöðuna.  Niðurstaðan var 20 stigum hærri en síðast (580 í stað 560).  Næsti fundur valnefndarinnar í Alabama er 23. mars eða þar um bil og munu þeir hafa samband eftir þann fund varðandi það hver staða mín verður þá.  Þessi aukna samkeppni gerir það að verkum að maður er ekki jafn viss í sinni sök og áður.

Ég er því að spá í að sækja um á fleiri stöðum nú á næstu dögum.  Koma þá þrjú nám helst til greina, öll hérna megin Atlantshafs.  Líklega sæki ég um þau öll:

  • Alþjóðlegt MBA hér í Edinborgarháskóla. 15 mánaða nám þar sem síðasti hluti námsins (haustið 2010) er tekinn í einhverjum af samstarfsskólum Edinborgarháskóla, t.d. í Singapore eða Shanghai, sem væri ekki leiðinlegt!
  • Annar kostur er Grenoble Graduate School of Business þar sem ég er að spá í að sækja um MBA nám með áherslu á viðskiptagreind (Business Intelligence).  Þetta er ansi spennandi skóli á mjög spennandi stað, Grenoble í frönsku ölpunum með Matterhorn fyrir ofan okkur og frönsku rívíeruna svolítið sunnan við okkur.  Ekki slæmt það!
  • Þriðji kosturinn, líklega sá mest spennandi námslega séð, er mastersnám í stjórnun, breytingastjórnun og upplýsingatækni (MSc Information Technology, Management & Organisational Change (ITMOC)) við háskólann í Lancaster.  Lancaster er um 100 km norðvestur af Manchester, í norð-vesturhluta Englands.  Þangað er aðeins 2-3 klukkustunda akstur héðan frá Edinborg.  Þetta er sérhæfðara nám heldur en MBA sem er almennt viðskiptafræðinám.  Þetta nám brúar bilið á milli upplýsingatækni og stjórnunar með sérstakri áherslu á breytingastjórnun.  Þetta er mjög spennandi og í raun nákvæmlega það sem ég hef áhuga á.  Þrátt fyrir að áherslan á viðskiptagreind sé minni þá er komið inn á hana í náminu líka.

Þetta þýðir að ef við förum ekki til Bandaríkjanna þá vitum við ekki hvort við komum til Íslands í sumar eða hvort við verðum í Edinborg.  Líklega verðum við bara hérna þangað til við keyrum á nýja staðinn, þ.e. ef ég enda ekki í Edinborgarháskóla.  Ef við hins vegar ákveðum að skella okkur yfir hafið, þá komum við væntanlega heim í maí og verðum fram til mánaðarmóta júlí/ágúst áður en við höldum til vesturheims í tvö ár.

Í stuttu máli sagt höfum við ekki hugmynd um hvar í heiminum við verðum stödd seinni part ársins sem gefur auðvitað endalaus tækifæri!


Dregið úr drykkju - Barnaland - skólinn hennar Ingu

Var að setja nýjar myndir inn á Barnaland.  Myndirnar frá 13. febrúar til dagsins í dag eru nýjar.

Annars er allt fínt að frétta af okkur hér í Edinborginni.  Það hefur komið smá bakslag í vorið undanfarna daga.  Þótt hitastigið haldi sig að mestu ennþá milli 8 og 10 gráður á daginn hefur veðrið að öðru leyti verið misjafnt undanfarið þótt góðir dagar hafi komið inn á milli.

Þórir hefur verið að drekka 4-5 pela af mjólk á nóttu.  Okkar tilfinning var að hann væri eiginlega ekkert svona þyrstur heldur væri þetta bara einhver sogþörf, yfirleitt 4-5 sinnum á nóttu.  Pelarnir hans eru 150 ml. og hann var því að drekka allt upp í 750 ml. á nóttu.  Við ákváðum því fyrir helgi að minnka innihaldið niður í 100 ml.  Nú höfum við minnkað það aftur niður í 50 ml. og enn er hann að drekka jafn oft og áður, þ.e. 4-5 sinnum á nóttu.  Hann drekkur hins vegar um 200 ml. í stað 750 ml áður og í kvöld gáfum við honum ekki pela þegar hann fór að sofa.  Það virðist ekki skipta hann neinu máli svo lengi sem hann fær smá smakk á þessum tímum.  Það verður athyglisvert að sjá hvort þetta fjarar ekki bara út í rólegheitum.  Prófum að skipta restinni yfir í vatn einhvern tímann á næstu dögum.

Nú er önnin hennar Ingu að klárast og á næstu tveimur vikum verða síðustu fyrirlestrarnir í hverju fagi.  Við tekur verkefnavinna en öllum fögunum líkur með stóru verkefni.  Hún verður því í stanslausri verkefnavinnu þangað til við förum til Íslands á pálmasunnudag 5. apríl.  Hún mun líka vinna í verkefnum á meðan við verðum á Íslandi og eftir að við komum út.  Síðan tekur ritgerðin við í allt sumar annað hvort hérna eða á Íslandi.


Þórir farinn að færa sig upp á skaftið!

Þórir er farinn að færa sig óþægilega upp á skaftið.  Hann er ekki eins morgunsvæfur og hann var.  Þetta gerði það að verkum að öll fjölskyldan var komin á fætur töluvert fyrir klukkan átta í morgun!  Slíkt gerist ekki oft á þessu heimili þótt flestum öðrum þyki þetta kannski hið eðlilegasta mál.

Öfgana á milli í bæjarferð

Skruppum út að labba í gær á meðan Þórir svaf sem ekki telst til tíðinda.  Nú er farið að vora svolítið í Edinborg þótt hitastigið sé nú almennt hærra séð út um gluggann en í raun þegar út er komið.  Þó er það yfir leitt um 10 gráðurnar á daginn og getur verið nokkuð gott bara þegar sólin skín.

Í gær lögðum við af stað áleiðis niður í bæ í blíðskapar veðri og sól.  Þegar við vorum komin niður undir Meadows fór að þykkna verulega upp.  Við leiktum okkur aðeins á uppáhaldsleikvellinum okkar við Meadows og síðan var stefnan tekin á höll drottningar,  þ.e. Holyrood Palace.

Þá fóru að leka dropar úr lofti.  Við rákum augun í skilti sem benti okkur að Moskueldhúsi nokkru sem staðsett er í húsasundi.  Lyktin var góð og við kíktum við.  Þá var rigningin orðin slík að það hreinlega fossaði niður af himninum í nokkrar mínútur og þegar við héldum að þetta hefði náð hámarki þá kom haglél í nokkrar mínútur og ekki í neinu smáræðismagni!

Þar sem við höfðum flúið á vit múslimana ákváðum við að fá okkur að borða.  Þarna er einhvers konar súpueldhús í bakgarði moskunnar í Edinborg þar sem boðið er upp á marga góða karrýrétti og nanbrauð að hætti Pakistana og þjóðanna þar í kring.  Þarna borðuðum við á okkur gat undir tjaldhimni í portinu á meðan veðurofsinn gekk yfir.  Þá var orðið of seint að fara í höllina og stefnan tekin niður í bæ enda aftur komið ágætisveður.

Þar enduðum við á "The Scotch Whisky Experience" sem er sýningarhús í tengslum við skoska viskýgerð og þá miklu menningarsögu sem það á í Skotlandi.  Þar hlustuðum við á nokkra stutta fyrirlestra um viskýgerð og síðan var farið í það að smakka veigarnar.  Þetta var mjög skemmtilegt og var okkur meðal annars gefið The Glencairn Glass sem er tiltölulega nýhannað glas og fyrsta sérhannaða viskýsmökkunarglas í heimi.  Við versluðum okkur síðan smávegis nesti og héldum heim á leið.

Þetta var því bæjarferð öfganna.  Sól í bland við úrhelli og haglél og ég veit ekki alveg hvað góðlega manninum, sem var auðsjáanlega einhvers konar leiðtogi í moskunni þar sem við borðuðum, hefði fundist ef hann hefði vitað að við fórum beint frá honum í viskýsmökkun, en það er annað mál. Wink

 


Minjagripur frá Edinborg - A Walk in the Gardens

Við höfum að undanförnu verið að líta í kringum okkar eftir minjagrip eftir dvöl okkar í Edinborg.  Eigum reglulega leið fram hjá galleríi á leiðinni heim úr miðbænum og þar greip augu okkar málverk sem höfðaði sérstaklega til okkar.  Eftir að hafa gengið fram hjá henni líklega 10 sinnum með glampa í augunum fórum við inn og gengum að lokum heim með gripinn. 

Málverkið er af borgarmyndinni í Edinborg sem er einstök og á heimsminjaskrá UNESCO.  Horft er frá Princes Street í áttina að Edinborgarkastala og Royal Mile yfir Princes Gardens.  Við höfum í vetur eitt ófáum gönguferðunum á þessu svæði og myndin er lífleg og falleg.  Við erum mjög ánægð með minjagripinn okkar.

Við keyptum hana óinnrammaða enda fer hún betur þannig á því flakki sem við verðum næstu mánuði og ár.  Ætli hún endi ekki inni í geymslu á Miklubrautinni eða með brúðkaupsgöfunum á háaloftinu í Ásabyggðinni.  Þar bíða allar gersemarnar þess að við flytjum aftur á Frónið og eigum þar fastan viðverustað aftur.

Gripinn má skoða hér á heimasíðu gallerísins þar sem við keyptum hana.  Hægt er að smella á hana til að skoða stærri mynd.


Hvað hefur fjölskyldan verið að bardúsa? Jú...

... það er nú eitt og annað sem við höfum verið að gera undanfarna daga.  Sem betur fer annars værí lítið gaman af þessu Smile

Þann 12. febrúar bauð eiginmaðurinn okkur út að borða (í tilefni af Valentínusardeginum) á, (að ég held) fínasta og samkvæmt sögum, einn dýrasta veitingastað í Edinborg.  The Witchery, frábær staður og virkilega góð þjónusta.  Þetta er jú mjög fínn staður en verðið er samt alveg fyrir "venjulegt" fólk, aðalréttirnir eru frá 14.95 pund og reyndar upp í 50 pund (það var sjávarréttarplatti með heilum humar) en lang algengast var að sjá verð í kringum 23 pund.  Snilldin er samt að nú árið 2009 er boðið upp á 30 ára afmælisseðil sem er 3 rétta máltíð á 30 pund fyrir manninn, svo bætast drykkir við það.

Ástæðan fyrir því að við fórum út að borða 12. febrúar í stað 14. febrúar sem er Valentínusardagurinn er sú að Kristófer kom til okkar föstudaginn 13. feb. svo þann 14. áttum við fjögur  huggulegt fjölskyldukvöld saman Smile.  Þessi tími saman er búinn að vera ósköp góður og rólegheitin alveg þau sömu og venjulega, samt er alltaf nóg að gera.  Við erum búin að ganga um allt, skoða margt og mikið. Þeir feðgar, Siggi og Kristófer, fóru í Our Dynamic Earth í gær og skemmtu sér hið besta. Í dag fóru þeir allir þrír í dýragarðinn á meðan ég var í skólanum.  Á morgun er stefnan að fara í Edinborgarkastala og skoða hann og útsýnið frá honum.  Um kvöldið á að fara á PizzaHut að ósk Kristófers og svo huggókvöld með bíómynd.

Á föstudagsmorguninn fljúga Siggi og Kristófer til Billund. Kristófer fer heim til Álaborgar en Siggi hoppar aftur upp í vélina og flýgur til Edinborgar á ný.  Dagmar vinkona okkar frá Aberdeen ætlar að koma og vera hjá okkur óg klippa fólk og lita hár (eins og var hjá okkur í byrjun des.).  Við búumst því við gleði og fjöri hér á "Saloon West Powburn" um helgina Smile


Nýjar myndir komnar á Barnalandssíðuna...

Við skelltum nýjum myndum frá 15. janúar og fram í febrúar inn á Barnalandssíðuna.  Njótið vel. Smile

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband