Hamingjutímar í kotinu

 

Nýjustu fréttir eru þær að ég er búin með mastersritgerðina mína og þar að auki búin að skila henni inn í Edinborg.  JÚHÚ!!! Grin  Já þetta er óskaplega skemmtilegt og góð tilfinning.

Við skelltum okkur því í ferð til Edinborgar síðastliðinn fimmtudag og komum aftur heim undir miðnætti á laugardagskvöldið.  Við fengum gistingu hjá vinum okkar þeim Lindu og Bjarna, sem tóku æðislega vel á móti okkur.  Þórir Snær var alveg í skýjunum þar sem á heimilinu eru krakkar, Kolbrún 15 ára, Eyvindur 8 ára og það sem Þóri þótti best eru þau Margrét sem er ári eldri en hann og Kristófer sem er ári yngri.  Það var því töluverður galsi og mikil gleði.  Á tímabili héldum við að Þórir ætlaði að setjast að Smile

Á föstudagsmorguninn kom í ljós að við höfðum lagt ólöglega og bíllinn hafði verið dreginn í burtu, líklega hefur einhver í nærliggjandi húsum hringt og látið draga hann.  Eftir nokkurn tíma í símanum var bílinn fundinn og kostnaðurinn við að leysa hann út kominn í ljós... ÚFF!!!

Á meðan feðgarnir fóru að ná í bílinn fór ég í skólann til að skila ritgerðinni.  Ég fékk frábærar móttökur með hamingjuóskum fyrir bæði ritgerðarskilin og ekki síður bumbuna sístækkandi. Nokkrir höfðu orð á því að nú færi að styttast í fæðingu en þegar ég bendi á að það væru u.þ.b. fjórir mánuðir eftir af meðgöngunni þá datt andlitið hreinlega af fólki þar sem bumban er býsna vígaleg.

Dagurinn fór svo í að kíkja í búðir ásamt því sem við fórum út að borða í hádeginu til að halda upp á áfanga frúarinnar.  Um kvöldið var "skvísukvöld" þegar ég ásamt Edinborgar-dömunum fórum út að borða og á pub. Ótrúlega gaman að eiga gott stelpukvöld, langt síðan ég hef átt svoleiðis Smile

Á laugardeginum fórum við í IKEA og COSTCO þar sem við náðum okkur í birgðar, að því loknu héldum við í veislu til Lindu og Bjarna þar sem meðal annars var boðið upp á Guinness-súkkulaðiköku....namminamminamm Smile það er ljóst að sú kaka verður bökuð á heimili okkar hjóna í framtíðinni.  Algjört æði!!!

Um kvöldið keyrðum við heim á leið frá Edinborg eftir A 702 niður á M6 hraðbrautina sem liggur hér framhjá Lancaster.  Gott að koma heim eftir góða ferð.

Sunnudagurinn fór í yndislega leti hjá okkur öllum

Í dag mánudag, hefst kynningarvika í háskólanum hér í Lancaster og Siggi því með skipulagða dagskrá fyrir næstu daga sem eru góð blanda af skemmtun og alvöru.

Það fyndna er að ég sem er nýbúin með lokaritgerðina mína og ósköp sátt við það er svolítið "öfundssjúk" útí Sigga að vera byrja í sínu námi og eiga það eftir.  Ætli ég skelli mér ekki bara í annan master við tækifæri...kemur í ljós Smile

 


Ritgerðarskrifin

Lokaritgerðin í mastersnáminu mínu er að klárast...allavega á næstu 2 vikum.  Ég gat því miður lítið sem ekkert unnið í júní og júlí sökum ógleði og annarra fylgikvilla meðgöngunnar.  En sem betur fer lauk því nú og ég komst á skrið í skrifum.  Í augnablikinu er ég að klára að skrifa um niðurstöður rannsóknarinnar sem ég framkvæmdi, mikið er nú gaman að skrifa um efni sem vekur áhuga manns.

Allavega ég stefni á að klára öll skrif um miðja næstu viku, gef mér svo viku til 10 daga í yfirlestur og frágang áður en við rennum til Edinborgar þar sem ég skila lokaritgerðinni minni.  Þá verður þetta ársnám á enda og námsárið hans Sigga tekur við þann 1. október næstkomandi.  Þetta passar því ljómandi vel saman hjá okkur.

Ég hlakka til að skrifa hér inn þegar ritgerðin verður búin og ég komin í hlutverk hinnar heimavinnandi húsmóður á ný.  Mikið verður það ljúft Smile


20 vikna sónar í gær

Þá var komið að því að kíkja á krílið í bumbunni, athuga hvort allt væri eins og lagt var upp með einnig sem við hjónin vorum búin að ákveða að sjá hvort um strák eða stelpu væri að ræða.  Veðrið var gott of við förum gangandi með Þóri Snæ í kerrunni...vonum innilega að hann sofni og sofi meðan á sónarnum stendur.  Það gekk eftir að hluta.  Þórir sofnar og við förum á sjúkrahúsið þar sem skoðunin fer fram.  Við förum inn í skoðunarherbergi og ég skelli mér á bekkinn.  Sú sem skoðar er einstaklega ljúf of viðkunnaleg.  Sónarinn hefst og gengur vel, allt er eins og það á að vera. Þetta er nákvæm skoðun og margt sem er athugað.  Þegar kemur að því að skoða hryggsúluna þá er krílið ekkert á því að "hlýða" og liggur sem fastast á bakinu.  Þurfti hinsvegar að liggja á grúfu, þ.e. með bakkið í átt að kviðveggnum hjá mér.  Sónarkonan soyr hvort við séum í tímaþröng eða hvort möguleiki sé á því að við kæmum aftur eftir 30 mínútur.  Ekkert mál.

Næstu 30 mínúturnar erum við á göngu, Þórir vaknar og fáum okkur aðeins í svanginn, ég reyni að vera á hreyfingu eins mikið og ég get til að fá barnið til að snúa sér.  Aftur erum við kölluð inn í skoðunarherbergið og aftur liggur krílið sem fastast á bakinu.  Þórir finnst þetta verulega fúlt og kvartar hástöfum.  En það er greinilegt að við eigum von á öðru ákveðnu barni eða þrjósku allt eftir því hvað fólk kýs að kalla það.  Siggi segist alveg vita hvaðan sú þrjóska komi og horfir kankvís á mig þar sem ég ligg á bekknum.  Jú jú ég neita því ekki ég er ósköp þrjósk þegar þannig stendur á, bæði kostur og galli.  Allavega ekki tókst að skoða hrygginn svo aftur spyr sónarkonan hvort við getum komið aftur eftir 15 mínútur og gera þriðju tilraun í að skoða hrygginn.  Jú jú ekkert mál, við förum fram á biðstofuna þar sem feðgarnir lita og lesa bækur en ég læt öllum illum látum.  Hoppa, sveifla mér til hliðanna, hristi bumbuna og að lokum kem ég mér fyrir á fjórum fótum og blaða í tímaritum.

Í þriðja sinn er ég kölluð inn í skoðunarherbergið.  Og það tókst eftir allan hamaganginn á biðstofunni þá var krílið búið að skipta um stellingu og hryggurinn sást vel og allt í fína með hann eins og allt hitt sem skoðað var.

Nú vitum líka að við að við eigum von á stelpu í ca. 22. janúar næstkomandi.  (Allavega er það 90-95% öruggt að um stelpu sé að ræða).


Stóri sexkantadagurinn - Þórir stóri strákur flytur frá pabba og mömmu

20090819 001 Feðgarnir hjálpast að.Miðvikudagurinn fór í það að sveifla sexköntum.  Ætlunin var að Þórir flytti út úr mömmu-og-pabba-herbergi um kvöldið.  Við feðgarnir settum saman leikfangaskáp úti í garði í sólinni og rétt náðum að klára hann áður en það fór að rigna. :)  Næst var það nýja rúmið hans Þóris.  Þórir hjálpaði pabba sínum að setja IKEA-stautana í götin og síðan var allt skrúfað saman.

Eftir að hafa endurraðað í herberginu varð úr þetta líka fína barnahergi.  Um kvöldmatarleytið ætluðum við í búðina en Þórir steinsofnaði í aftursætinu.  Við ákváðum að ísskápurinn myndi duga til morguns og renndum heim með kappann.  Hann rumskaði ekki þegar við bárum hann upp í nýja Þórisrúmið sitt í nýja Þórisherberginu sínu.  Fyrsta nóttin í nýja herberginu gekk eins og sögu.20090819 001 Þórir skoðar nýja rúmið sem er í vinnslu.20090819 005 Þórir lék á alls oddi í nýja herberginu sínu.

 

 

 

 

 

 

20090819 004 Þórir lék á alls oddi í nýja herberginu sínu.

20090819 003 Þórir prófar nýja rúmið.


Lengri leiðin til Manchester, kýr, Íslendingar og IKEA-ferð aldarinnar!

20090818 001 Fyrir utan Owd Betty.Þriðjudagurinn 18. ágúst var flakkdagur.  Þá var ákveðið að leggja land undir hjól og skella sér í bíltúr.  Ferðinni var heitið til Manchester og stefnan tekin á IKEA, Costco og almennt að skoða sig um.  Inga hafði legið á netinu og komist að þeirri niðurstöðu að í Manchester væri ekki mjög mikið að sjá annað en pöbbar og verslunarmiðstöðvar sem skýrir líklega hvað Íslendingar hafa verið ánægðir með þá borg undanfarin ár. ;)

Við ákváðum að fara lengri leiðina til Manchester og létum Google Maps leiða okkur um sveitirnar eins langt frá hraðbrautunum og við komumst.  Við renndum niður til Preston og sveigðum þar í austurátt, undir M6 hraðbrautina og áleiðis inn í landbúnaðarhéruðin og upp á heiðar.  Þarna vorum við aldeilis komin á kaf í ensku sveitirnar sem eru fallegar og skemmtilegar og oft mjög gaman að keyra í gegnum þær enda fullar af gróðri og oft frekar þröngum vegum sem hlykkjast með fram hlöðnum veggjum sem margir líta jafnvel út fyrir að vera mörg hundruð ára gamlir.  Norðurhéruð Englands eru mikil fótboltahéruð og oft líta vegaskiltin út eins og listi úr íþróttafréttunum þar sem kunnugleg heiti úr enska boltanum skjóta oft upp kolli.  Við renndum til dæmis í gegnum Blackburn sem lítur út fyrir að vera hinn vinalegasti bær.

20090818 002 Alvöru sveitakrá.  Þórir fékk litabók að lita.Inga fór hamförum á kortinu og þegar komið var svolítið yfir hádegi fórum við að líta í kringum okkur eftir ekta enskri sveitakrá til að snæða.  Þar urðum við ekki fyrir vonbrigðum þegar nokkrum beygjum síðar birtist Owd Betts, sveitakrá sem skírð er eftir Betty nokkurri sem rak staðinn á seinni hluta nítjándu aldar til dauðadags 1893.  Þar borðuðum við alvöru enskan sveitamat, Lancashire hot pot, sem er pottréttur með kjöti, lifur, lauk og fleiru í brúnni sósu og "ömmusteikt" roast beef að hætti sveitunga með Yorkshire pudding.  Skammtarnir voru risavaxnir og væntanlega ætlaðir vinnumönnum úr grenndinni.

20090818 004 Bleiuskiptingar í skottinu í Heaton Park.Frá Owd Betts renndum við gegnum sveitirnar til Manchester úr norðurátt og stoppuðum næst í Heaton Park í Manchester.  Þarf skoðuðum við húsdýr og var Þórir mjög hrifinn af þeim, sérstaklega kú sem kom sérstaklega út úr húsi til að heilsa upp á hann og baulaði eftirminnilega.  Þarna göluðu líka hanar í löngum bunum auk þess sem svo virtist sem útivistardagur gyðinga væri þennan dag því strangtrúaðir gyðingar flykktust þarna um með flétturnar sínar í hárinu.  Á leiðinni út hittum við á íslenska konu sem var þarna með breskum manni sínum og börnum og gengu þau á okkur þegar þau heyrðu íslenskuna.  Hún sagðist ekki vita af mörgum Íslendingum í Manchester utan stúdenta sem kæmu og væru eitt ár í senn.

20090818 005 Þórir heilsar upp á kusu.

Eftir útiveruna héldum við í IKEA þar sem markmiðið var að kaupa rúm og leikfangaskáp fyrir Þóri Snæ sem á þessum tímapunkti vissi ekki að hann var að fara að flytja úr herbergi foreldra sinna enda orðinn STÓR strákur.  Við létum greipar sópa um búðina þangað til komið var að því að flytja allt saman heim á leið.  Þá þökkuðum við fyrir að hafa valið bílinn með stærsta skottið!  Það var því þétt pakkað og Þóri fannst þetta nokkuð sérstakt þar sem hann sat hinum megin við flata IKEA pakkann og sá pabba sinn í gegnum hrúguna.  Klukkan var orðin margt þegar við renndum í Rutlandið okkar aftur eftir að hafa rennt í gegnum Manchester og tekið hraðbrautina heim.  Frábær dagur en Costco bíður betri tíma.

20090818 006 Þórir búinn að fá nóg af IKEA!

20090818 007 Þórir les Andrés á bakvið flötu IKEA-pakkana í bílnum.
 

 

 


Þjóðlegi sólarhringurinn

Inga hefur átt stórleik í dag!  Fyrir utan það að ná markmiði sínu og klára kafla í ritgerðinni þá hélt hún áfram með þjóðlega sólarhringinn í myndarskap.

Í matinn í gærkvöldi var semsagt grjónagrautur og kanilsykur eftir að Inga hafði fyrr um daginn sett í muffins milli efnisgreina í ritgerðinni.  Í morgun borðuðum við feðgarnir hafragraut og lýsi eins og við gerum flesta morgna, seinni partinn voru grautarlummur á boðstólnum með frumraun Ingu í rabbabarasultugerð en Inga lét slag standa og sauð sultu fyrr í dag.  Þjóðlega sólarhringnum lauk síðan með soðnum fiski og ísblómi í kvöldmatinn.

Þann tiltölulega stutta tíma í dag sem við vorum ekki borðandi tókum við því rólega heima eftir göngudag gærdagsins hjá okkur feðgum.


Vatnaleiðin, Dan, Ben og grjónagrautur

Við fórum að versla í Asda um hádegisbilið í gær.  Eftir það fór Inga heim að læra og baka muffins en við feðgar gengum frá Asda upp með Luna River, eða Máná eins og við köllum hana, nokkra kílómetra norður fyrir borgina þangað til við komum að fallegri steinbrú, Lune Aqueduct.  Það sem var merkilegt við þessa brú yfir ána er að hún ber ekki veg í eiginlegum skilningi eins og flestar brýr heldur síki (canal) fullt af vatni.  Manni stóð þó ekki alveg á sama þegar maður stóð undir brúnni að töluvert af vatni lak úr henni!  Þessi brú var víst svo dýr á sínum tíma að hún gerði það að verkum að það var ekki hægt að klára síkið fyrr en löngu seinna. 20090810 001 Lune Aquaduct í baksýn þar sem skipaskurðurinn liggur yfir ánna.

Um Bretland þvers og kruss liggur mikið og merkilegt síkjakerfi (canals).  Þetta kerfi hefur um aldir flutt fólk og vörur, þ.m.t. kol frá kolanámum um allt Bretland og Bretar tala stundum um kerfið sem vatnsvegi (waterways).  Í dag er þetta að miklu leyti nýtt fólki til skemmtunar og kaupir það sér báta og rúntar á þeim um landið, oftast nær eins og í sumarbústað.  Sumir búa þó í bátunum allt árið um kring.

Til að komast af árbakkanum upp á brúnna þarf að klífa ansi langan og brattan stiga, örugglega 50 þrep.  Ég var hálfnaður upp með kerruna þegar kona kom á eftir mér og hjálpaði mér að bera hana restina.  Sú fékk heldur betur aukahreyfingu þann daginn. :)  Fólkið hér í Lancaster virðist vera mjög hjálplegt.  Konan hjálpaði mér upp með kerruna og nágrannakona okkar lánaði okkur sláttuvélina sína þegar við komum hingað fyrst.  Þetta er smábæjarhlýleikinn.

Við feðgar gengum síðan meðfram síkinu til baka inn í borg.  Þetta er mjög falleg og skemmtileg leið og gaman að mæta reglulega bátum sem áttu leið hjá.  Við enduðum daginn á leiksvæði inni í borg þar sem Þórir sullaði í pollunum og bleytti sig ennþá meira því hann hafði miklu frekar viljað ganga í blautu grasinu meðfram síkinu en á göngustígnum.  20090810 002 Lancaster - Þórir ofan á brúnni þar sem skipaskurðurinn liggur yfir veginn inn í Lancaster.

Á leiksvæðinu hittum við þá feðga Dan og Ben sem höfðu flutt til Lancaster fyrr um daginn.  Sambýliskona Dan, hún Bella, var heima að taka upp úr kössum.  Við spjölluðum heilmikið og Þórir lék sér við Ben.  Þórir vildi ólmur knúsa strákinn sem tók vel í það í fyrstu en fannst þó nóg um þegar Þórir vildi halda áfram knúsinu.  Pabbanum, Dan, fannst þetta mjög fyndið og hafði það á orði að loksins hefði Ben fundið einhvern sem væri enn meira fyrir knús en hann sjálfur!  Við skiptumst á símanúmerum og verðum örugglega í sambandi.  Verandi öll nýflutt til Lancaster og bæði með tveggja ára stráka þá eigum við nú ýmislegt sameiginlegt.

Vinnumynstur þeirra Dan og Bellu er svolítið lýsandi fyrir Bretland að því sem ég hef heyrt frá mörgu fólki.  Hann vinnur mikið heima en fyrir fyrirtæki sem starfar í Cumbria, þ.e. í Lake District vatnahéruðunum 40 km norður af Lancaster.  Bella vinnur fyrir fyrirtæki í Manchester sem er 100 km í suður.  Þau ákváðu að setjast að í Lancaster þar sem það væri miðja vegu.  Bella tekur lestina í vinnuna 3 daga í viku.  Ben verður á leikskóla 3 daga í viku, Bella með hann einn dag í viku og Dan sér um hann einn dag í viku.  Leikskólagjöld í Bretland eru rosalega há.  Við vorum svolítið að skoða þetta í Edinborg og komumst að því að það kostaði hátt í þúsund pund (um tvö hundruð þúsund íslenskar krónur) að hafa barn á leikskóla fimm daga vikunnar allan daginn.  Fólk þarf því að hafa ansi háar tekjur til að það borgi sig að báðir vinni úti.  Margir sem eiga fleiri en eitt barn ráða sér frekar barnfóstrur því það er einfaldlega ódýrari lausn.  Skólakerfið hérna byrjar þó þegar barnið er 4 ára og er foreldrum að mestu að kostnaðarlausu nema ef fólk skráir börnin sín í einkaskóla sem verðleggja sig upp í hið óendanlega og hefur orðstýr og snobb þar mikið að segja.

Það var gott að koma heim eftir 7-8 km. göngu með rennblautan strák og fá grjónagraut hjá Ingu.  Góður dagur.  Könnunarleiðangur um svæði í Lancaster þar sem við höfðum ekki komið áður.


Íslandsferð fjölskyldunnar

Föstudagurinn 26. júní og það var komið að Íslandsferðinni okkar.  Um miðjan dag var farangurinn kominn í bílinn og við lögðum að stað til Manchester í föstudagsseinnipartsumferðinni... ÚFF við þurftum að einbeita okkur heilmikið.  Ég á kortinu og Siggi undir stýri, allt fór vel og við mætt tímanlega á flugvöllinn til að finna bílastæði.  Við tók hið venjubundna flugvallarflakk, finna rétt innritunarborð, örggisleit, fríhöfn og síðast en ekki síst töluverð bið.  Þórir Snær var í góðu skapi að venju, foreldrarnir héldu fast í vonina um að sá stutti myndi sofna fljótlega eftir að við færum í loftið og svæfi vært til Íslands (þar sem um kvöldflug var að ræða).  En aldeilis ekki, Þórir vakti nær alla leið og brölti í 1800 hringi í það minnsta. Líf og fjör þegar um er að ræða yfirbókað flug.  Hann sofnaði þó 10 mínútur í lendingu á Íslandi.  Tengdó, Hanna og Úlli, voru svo yndisleg að ná í okkur á völlinn og við héldum heim á Skúlagötuna.  Þar sem nota bene beið mín já og hinna alvöru gamaldags hangikjötssalat brauðterta a la Birna. Takk Birna, hún var æði!!

Dagarnir í borginni voru rólegir og góðir.  Helst ber að nefna brúðkaup Valda og Eddu þann 4. júlí, athöfnin í Lágafellskirkju og veislan í Veisluturninum í Smáranum.  Takk fyrir okkur.

Ása, Rúnar og Urður Eva komu að hitta okkur strax á laugardeginum, mikið er maður nú ríkur að eiga systur sem er líka besta vinkona manns. Já og þú kemur sterk til leiks í þeim efnum Urður Eva. Við komum börnunum fyrir í kerrum og héldum í gönguferð um miðbæinn.  Eins hittum við Heklu okkar og fórum líka með henni í göngufúr.  Það er orðinn siður að halda fjölskyldug Raclette-veislu þegar við komum til landsins.  Mikið er það góður siður. Eins fórum við í heimsókn til Steina, Herdísar og dætra í Grafarvoginn og hittum Mató í Laugardalnum.  Það er í raun merkilegt hvað okkur tókst að gera margt án þess að vera nokkurn tíman að flýta okkur, en þannig er það í raun alltaf hjá okkur hjónunum.

Mamma og pabbi (Una og Þórir) mættu á höfðuborgarsvæðið, tilbúin í barnapössun og ekki síður til þess að koma með okkur aftur til Lancaster.  Eins kom Kristófer til landsins og kom einnig með okkur út til Lancaster.  Eins gott að vera með aukasæti í skottinu á bílnum, enda var þéttpakkað af bæði farangri og farþegum af flugvellinum í Manchester til Lancaster.

Góð ferð var á enda og ný ævintýri bíða okkar.


18. júní - flutt frá Edinborg til Lancaster

Dagurinn þegar við fluttum frá Edinborg til Lancaster var runninn upp.  Íbúðin okkar að 7/7 West Powburn var hrein og fín eftir nákvæm þrif okkar hjóna og búið að pakka öllum okkar eigum.  Við viljum þakka almættinu fyrir að halda þurru á meðan við pökkuðum í bílinn og á kerruna sem við leigðum í Edinborg.  Já einmitt KERRUNA, við sem fórum út með allt í bílnum okkar í lok ágúst þurftum að leigja kerru til að komast á milli með allt okkar dót.  Anna nágranni var svo indisleg að hjálpa okkur að bera dótið niður og passa Þóri Snæ á meðan við kláruðum að pakka.  Takk Anna!! Þá var lagt af stað til Englands frá Skotlandi þar sem svo gott er að búa og Edinborg sem er indisleg borg þar sem við áttum 10 frábæra mánuði.  Við munum alltaf hugsa vel til Edinborgar, Skotlands og Skota. Leiðin lá eftir sveitavegi frá Edinborg út á hraðbrautina sem liggur niður eftir austur Englandi.  Á gatnamótum 34 beygðum við útaf og vorum mætt til Lancaster.  Lancaster sem á eftir að vera heimabær/borg okkar næstu 15 mánuðina.  Við keyrðum beint heim að 52 Rutland Avenue þangað sem Suzanne frá leigumiðluninni kom til að ganga frá leigusamningnum.  Þegar því var lokið bárum við (Siggi) dótið inn úr bíl og kerru – við vorum flutt inn. Við erum ókaplega ánægð með tveggjahæða parhúsið okkar með bílskúr og garði... en það voru kóngulærnar greinilega líka.  Einnig sem eigandinn virðist hafa yfirgefið húsið án þess að þrífa það vel.  Föstudagur og laugardagur eru því búnir að fara í að þrífa húsið hátt og lágt, slá lóðina og koma okkur fyrir.  Það tókst og nú er það hið ljúfa líf sem bíður okkar. Við erum reyndar á leið til Íslands næsta föstudag, fljúgum frá Manchester að kvöldi 26. júní og verðum á Íslandi til 6. júlí.  Þá förum við aftur heim til Lancaster og tökum mömmu og pabba (Unu og Þóri) með okkur. Við hlökkum til að kanna og kynnast Lancaster og nágrenni.

17. júní í Edinborg

Þrátt fyrir að vera í útlöndum hélt fjölskyldan upp á þjóðhátíðardaginn eins og sönnum Íslendingum “ber” að gera.  Vararæðismaður Íslands í Skotlandi, Limma (Kristín Hannesdóttir), bauð Íslendingum í Skotlandi að koma heim til sín.  Þar var hoppukastali fyrir börninn, pylsur, gos einnig sem veislugestir lögðu hitt og þetta á veisluborðið.  Þar á meðal voru upprúllaðar sykur pönnukökur frá Önnu nágranna, harðfiskur og smjör sem við komum með, nammi, fylltur lakkrís, prins pólo og terta skreytt sem íslenski fáninn.  Veislugestir átu vel og skemmtu sér vel.  Þórir Snær tók til að mynda mjög vel á því í hoppukastalanum og brosti sínu breiðasta.  Við notuðum líka tækifærið og hvöddum kæra vini sem við höfum kynnst í Edinborg í vetur.  Hópurinn okkar sem hittist reglulega á leikvellinum á Meadows, í afmælum og í dýragarðsferðum er frábær hópur fólks sem við hlökkum til að halda sambandi við og hitta hvort sem er hér í Bretlandi eða á Íslandi.

Miklabrautin auglýst á Mbl.is

Á meðan við búum erlendis leigjum við íbúðina okkar að Miklubraut 70 út og höfum verið einstaklega heppni með Kristin og Helen sem leigja íbúðina í vetur.  Við vorum hins vegar óheppin þar sem við þurftum að segja upp leyfi sem þau höfðu til hundahalds í íbúðinni vegna þess að konan á efri hæðinni komst að því að hún er með ofnæmi fyrir hundum.  Krakkarnir ætla að fylgja hundinum og því þurfum við að finna okkur nýja leigjendur fyrir 15. ágúst en þá rennur út leigusamningurinn við Kristin og Helen.

Auglýsinguna má finna á leigumiðlunarvef Mbl.is og viljum við biðja alla um að dreifa henni sem allra mest.

Við settum hana inn fyrir viku og höfum fengið töluverð viðbrögð á hana.  Sumum finnst leigan of há á meðan öðrum finnst það í lagi.  Við höfum bent fólki á að það sé að fá húsgögn og til dæmis dót í eldhúsið með íbúðinni að andvirði margra mánaða leigu.  Leigjandinn er hann er t.d. að byrja að búa, þarf því ekki að kaupa sér þetta sjálfur allt í einu.  Í gær á ein að hafa skoðað íbúðina.  Við heyrum vonandi frá henni og besta mögulega niðurstaða væri sú að ganga frá þessu öllu saman á meðan við verðum á Íslandi í byrjun júlí.


Þórir Snær í ljósmyndasamkeppni Mbl.is

Ein uppáhaldsmyndin okkar af Þóri Snæ var tekin í sturtu um borð í Norrænu á leið til Skotlands í fyrra.  Þegar við sáum ljósmyndasamkeppni auglýsta á Mbl.is ákváðum við að slá til og senda hana inn.  Það er eitthvað svo hugljúft og notalegt við þessa mynd.

Á leið til Íslands í sumar

Við tókum þá ákvörðun á fimmtudaginn að skella okkur til Íslands í sumar í brúðkaupið hjá Valda og Eddu 4. júlí.  Við höfðum verið svolítið á báðum áttum hvort við ættum að láta slag standa peningalega en ákváðum að taka svolitið '2007' á þetta og skella okkur bara!  Það þýðir ekkert að missa af þessu!

Næstu vikur verða því ekki beint lognmollulegar.  Við flytjum því til Lancaster 15. júlí, verðum þar í 10 daga og tökum loks flug frá Manchester til Íslands að kvöldi föstudagsins 26. júní.  Brúðkaupið er laugardaginn 4. júlí og við fljúgum aftur heim til Lancaster seinnipartinn mánudaginn 6. júlí.  Þess má geta að Inga er á kafi í mastersritgerð með þessu öllu.  Jafnvel er verið að skoða þann möguleika að Þórir og Una, foreldrar Ingu, komi með okkur út þann 6. júlí og verði hjá okkur í einhvern tíma.

Það er því engin lognmolla á næstunni, svo mikið er víst!


Íslendingaferð í dýragarðinn

20090604 Í dýragarðinum - Inga hélt hún fengi þennan! ;o)Á miðvikudaginn skelltum við okkur í Íslendingaferð í dýragarðinn.  Við, Inga og Þórir mættum þangað ásamt Lindu, Agnesi, Rósu og börnum.  Við byrjuðum á því að skoða mörgæsagöngu sem er fastur liður á hverjum degi í dýragarðinum.  Þá ganga mismargar mörgæsir hring á milli gestanna þar sem starfsmennirnir hafa vökult auga með þeim.

Við röltum um garðinn, sáum ástralska Koalabirni, ljón, apa, sebrahesta og fjölmörg önnur dýr, spjölluðum og lékum okkur.  Þessi Íslendingahópur sem náð hefur saman hér í Edinborginni er alveg sérstaklega þéttur og vandaður hópur og gaman að gera hluti með honum.  Það varð því úr að við vorum með þeim síðustu að yfirgefa garðinn þegar við héldum braut.20090604 Í dýragarðinum Álfrún, Bjarnheiður, Margrét, Dagrún og Eyvindur 20090604 Í dýragarðinum - Mömmurnar og karlarnir þrír

 


Lancasterferð til fjár! Flytjum 15. júní!

Á þriðjudaginn var komið að langþráðri stund, ferðalagi til Lancaster þangað sem ég (Siggi) ætla til náms í haust.  Við áttum pantaða tíma hjá tveimur leigusölum í Lancaster þennan dag til að skoða sitthvort húsið auk þess sem okkur hafði verið boðið að koma og skoða nýja háskólann minn.

20090602 Lancaster Fyrstu skrefin á Lancasterska grund!Ferðin til Lancaster gekk vel og lá leiðin í gegnum gullfallegar skoskar sveitir í suðvestur frá Edinborg þangað til kemur að M6 hraðbrautinni sem liggur frá Glasgow og suður með eyjunni framhjá Lancaster.  Við gleymdum að taka bensín áður en við lögðum af stað og komumst fljótlega að því að ekki var mikið um bensínstöðvar í sveitunum.  Komum loks til bæjar sem heitir Biggar.  Þar sáum við nokkrar eldgamlar skítugar bensíndælur, þið munið þessar ferköntuðu sem voru á öllum Shell stöðum í gamla daga.  Við beygðum inn að þeim þar sem þær stóðu við einhvers konar verkstæði en ekki venjulega bensínstöð.  Út kom maður sem var enn eldri en tankarnir.  Ég myndi giska á að hann hafi verið farinn að nálgast áttrætt.  Gamli maðurinn dældi á bílinn og ég hóf máls á því að það væru nú ekki margar bensínstöðvar á leiðinni.  Gamli maðurinn sem enn hafði ekkert sagt hnussaði þá hálfpartinn hvort „þessi stöð væri ekki nægilega góð handa mér?!".  „Uh, jú, mér finnst þessi stöð mjög góð" sagði ég og ákvað að láta þar með spjallæfingum mínum lokið í bili.  Sá gamli varð hins vegar allur meyrari þegar við komum að kassanum og þakkaði mér mikið fyrir að versla við sig, „Thank you very much!" í hlýlegum tón.  Ég hef líklega reddað viðskiptunum þann daginn fyrir blessaðan karlinn.  Það var eitthvað ljúft við þennan endatón þessa karls sem hafði verið svo fýldur þarna stuttu áður.  Þegar ég elti hann inn þá var þetta bara einhver ruslakompa eða vísir að verkstæði þar sem öllu ægði saman.  Þetta var kærkomin og persónulegri tilbreyting frá öllum stöðluðu bensínstöðvunum.

Allan daginn skein sól í heiði og þegar við komum til Lancaster um hádegisbilið rúntuðum við um bæinn, fundum húsin sem við ætluðum að skoða, skruppum í verslun og fengum okkur að borða.

20090602 Lancaster Hlaupið í mömmuknús á litla opna svæðinu við hliðina á húsinu okkar.Rúmlega eitt vorum við mætt við fyrsta húsið.  Þar tók á móti okkur fasteignasali, kona sem tjáði okkur að við kæmumst ekki þarna inn.  Núverandi leigjendur neituðu að hleypa fólki inn að skoða og sögðust hafa bannað skoðanir á þessum tíma dags.  Húsið var enda líka til sölu þannig að okkur þótti ekki spennandi að fara að leigja hús sem síðan yrði selt undan okkur fljótlega.  Við fórum því aftur til baka með skottið milli lappanna.  Nú var aðeins eitt hús eftir að skoða og líkurnar orðnar óþægilega miklar á því að við færum aftur húslaus heim til Edinborgar.

Leigan í Lancaster er mun lægri en í Edinborg.  Líklega er 40-60% munur á leiguverði á góðum stað í London og Edinborg og hátt í annar eins munur á Edinborg og Lancaster.  Lancaster er líklega sambærilegt því að flytja á Patreksfjörð eða Sauðárkrók á Íslandi þótt um sé að ræða 40 þúsund manna bæjarfélag.  Við höfðum því gert okkur grein fyrir því að fyrir nokkurn veginn sömu upphæð og við erum að greiða í Edinborg gætum við fengið hús með garði í Lancaster.  Hér greiðum við 600 pund á mánuði en greiddum 660 pund til áramóta þegar leigusalarnir okkar ákváðu af eigin frumkvæði að LÆKKA leiguna af meðaumkvun yfir íslenska gengishruninu!

Þær óskir sem við höfðum voru því að húsið væri leigt út með húsgögnum og hins vegar að við það væri lokaður garður sem Þórir Snær gæti leikið sér í án þess að geta hlaupið út á götu.  Inga hefur leigið yfir fasteignamarkaðnum í Lancaster undanfarið og hefur komist að því að lítið er um hús sem uppfylla þessi tvö skilyrði auk þess að vera verðlögð innan þeirra marka sem hentar okkur.

20090602 Lancaster Nýja húsið okkar.Í húsi númer tvö hvað við annan tón en í því fyrsta.  Húsið var mjög smekklega innréttað, tveggja hæða hús með bílskúr og garði þar sem auðsjáanlega var nýbúið að gera upp neðri hæðina sem skiptist í stofuna, eldhúsið og anddyrið sem og baðherbergið á annarri hæðinni.  Þegar maður kemur inn í húsið fer maður inn á flísalagðan gang meðfram stiganum sem liggur upp á aðra hæð.  Við enda gangsins er eldhúsið, til vinstri undir stiganum er lítil geymsla búin þvottavél og hægra megin við ganginn stofa og borðstofa í einu rými.  Í eldhúsinu er ný eldhúsinnrétting með innbyggðum ofni, örbylgjuofni, ísskáp, frystiskáp, gashellum og meira að segja uppþvottavél!  Í stofunni er sjónvarpskrókur með kamínu sem aldrei hefur verið kveikt á í öðrum endanum og borðstofuborð í hinum endanum með gasarni!  Við sjónvarpskrókinn er tvöföld hurð sem hægt er að opna út í garð.  Í garðinum sem er lokaður á alla kanta er lítil stétt, lítill grasbali og meira að segja viðarpallur með garðhúsgögnum.  Við hliðina á garðinum er stór bílskúr með ýmsum græjum.  Uppi á lofti er nýuppgert baðherbergi með baði og sturtu, tvö svefnherbergi með tvíbreiðum rúmum í báðum herbergjunum, miklu skápaplássi og lítið svefnherbergi sem búið er að innrétta sem skrifstofu.  Þó var þar aukarúm sem hægt er að troða þangað inn ef fólk vill.  Á anddyrinu, eldhúsinu og baðherberginu eru dökkar smekklegar flísar, í stofunni og herbergjunum er parket og á stiganum er þykkt teppi.  Það mun vonandi koma í veg fyrir meiriháttar slys þegar Þórir fer að detta í stiganum.

Það er skemmst frá því að segja að húsið uppfyllti allar okkar óskir og vel það.  Við ákváðum því að láta slag standa.  Þarna, að 52 Rutland Avenue, skyldum við búa næstu 15 mánuði ef við gætum einhverju um það ráðið!  Leiguverðið var 650 pund á mánuði sem var innan þeirra marka sem við höfðum sett okkur.  Við biðum því ekki boðanna og komum okkur niður á skrifstofu leigumiðlunarinnar eins fljótt og við gátum því annað par hafði verið að skoða húsið rétt á undan okkur og við vissum ekki nema þau hefðu tekið sömu ákvörðun og við.  Gengið var frá pappírum, hringt í eiganda hússins og við fylltum út ýmis eyðublöð.  Eigandi hússins er læknir sem bjó þarna sjálfur þangað til hann fékk vinnu erlendis.  Sú vinna framlengdist nýverið og því er ekki von á honum heim á næstunni.

Allt í einu vorum við því komin með stórt hús í Lancaster og var ákveðið að við flyttum 15. júní næstkomandi, eftir einungis 12 daga!  Í heimaverkefni fengum við það að redda staðfestingu á því hvar við byggjum (Proof of Residency) og staðfestingu á framfærslu frá LÍN.  Í Bretlandi er engin kennitala úr þjóðskrá sem allir komast í eins og á Íslandi.  Hér er nafn og heimilisfang notað til að auðkenna þig í stað kennitölu á Íslandi.  Við þurftum því að redda „Proof of Residency"-pappírum frá einhverjum ábyrgum aðilum eins og banka, sveitarfélagi eða orkufyrirtæki sem sannaði að við værum virkilega Inga og Siggi og byggjum á West Powburn í Edinborg.  20090602 Lancaster Nýi háskólinn hans SiggaVið þurfum einnig að verða okkur út um bréf frá LÍN þar sem kemur fram hvaða framfærslu við verðum með næsta árið.  Þegar þetta er skrifað (á laugardegi) erum við búin að senda þeim staðfestingu á heimilisfesti, búin að senda beiðni á LÍN að útbúa bréf fyrir okkur, eigandinn er búinn að samþykkja okkur og við erum búin að fá í pósti til undirritunnar tvö afrit af leigusamningnum.

Hérna má finna myndir af nýju höllinni okkar.

Þetta er auðvitað mjög fyndið.  Við búum í tveggja herbergja íbúð í Reykjavík.  Ákváðum að gerast fátækir námsmenn í útlöndum og leigðum okkur þriggja herbergja íbúð í Edinborg og nú tveggja hæða hús með bílskúr og garði í Lancaster!  Það er alveg óskaplega erfitt að vera námsmaður í útlöndum! ;o)

Eftir þessa viðburðaríku tvo tíma í Lancaster ákváðum við að fara og skoða nýja skólann minn, Lancaster University Managment School (Viðskiptadeild háskólans í Lancaster).  Við höfðum heyrt í starfsfólkinu sem heldur utan um masterinn minn og þær buðu okkur hjartanlega velkomin í heimsókn.  Á þessum sólríka degi var allt auðvitað eins aðlaðandi og frekast gat verið.  Fólk lá í sólbaði út um allar trissur og brosti út í bæði.  20090602 Lancaster Nýi flotti háskólinn hans SiggaHúsin þarna eru öll meira og minna ný eða nýleg og viðskiptadeildin er í mjög nýtískulegu húsi þar sem öll aðstaða virðist vera eins og best verður á kosið.  Við hittum Söruh og Sian sem halda utan um ITMOC masterinn sem ég er í en Niall (næstum því eins og Njáll) sem stjórnar ITMOC var ekki við.  Þær voru mjög vinalegar, spjölluðu lengi og Sian fór meira að segja með okkur í gönguferð um svæðið.  Háskólasvæðið er í raun lítið bæjarfélag með alla þjónustu.  Þar búa hundruð manna í stúdentaíbúðum og þar eru banki, veitingastaðir, matvöruverslun o.fl. eins og í litlu bæjarfélagi.

Eftir frábæran, viðburðaríkan dag renndum við heim á leið í sólinni með Þóri Snæ syngjandi í aftursætinu.  600 kílómetrar og tveggja hæða hús er ekki svo slæmt dagsverk!

Fjórði ofursólardagurinn – Gengið á Arthur‘s Seat

20090601 Arthur's SeatLoksins loksins skelltum við okkur á fjallið Arthur‘s Seat sem er 270 metra hátt fell í miðri Edinborg.  Ferð á fjalli er búin að vera á döfinni í allan vetur en ekki orðið af því að við skunduðum á toppinn fyrr en nú.  Við lögðum í hann frá West Powburn með Þóri Snæ í bakpokanum.  Hann var ekki alveg sáttur í fyrstu þegar við settum hann í pokann en það lagaðist svo að segja strax.  Við gengum að suðurhlíðum fjallsins og gengum upp á öxlina en upp úr henni stendur síðan toppurinn.  Þórir seig nú svolítið í enda bakpokinn líklega um 20 kg með Þóri, farangri, bakpokanum sjálfum og öllu.

Þórir gekk síðan með okkur frá öxlinni, upp á topp þar sem við borðuðum nesti og aftur niður á öxlina.  Þetta er líklega 50-100 metra hækkun þannig að við vorum ansi ánægð með litla fjallagarpinn okkar.  20090601 Arthur's Seat - Litli fjallagarpurinn arkar á fjalliðÁ toppnum af afar fallegt veður, sól og blíða, og var þar slæðingur af fólki.  Þarna er fínt útsýni til allra átta þar sem tindurinn gnæfir yfir alla Edinborg.  Það var engu líkara en við höfum verið látin bíða með að fara þarna upp til þess að geta verið þarna á þessu fallega degi þar sem útsýnið var endalaust.

Þegar komið var niður á öxlina aftur var Þórir orðinn ansi þreyttur og vildi komast aftur í bakpokann.  Við skelltum honum því í pokann og gengum norður eftir fjallinu yfir að Holyrood Palace, fengum okkur ís þar og héldum svo áleiðis heim með stuttri viðkomu á Meadows leikvellinum en Þórir var orðinn alltaf þreyttur til að leika sér þar.  Við renndum því heim á leið eftir frábæran dag og 8,5 km göngu auk hækkunarinnar.20090601 Arthur's Seat - Inga og Þórir á toppnum!20090601 Arthur's Seat - Fjölskyldan á toppnum!


Þriðji í ofursól - Ströndin við North Berwick

20090531 North Berwick - Það var pláss merkt Kristófer í kjöltunni á Sigga sem Kristófer ákvað að nýta sér.Sólskinið hélt áfram.  Stórkostlegt veður með 20-30 stiga hita og glampandi sól allan sunnudaginn!  Við Íslendingarnir skruppum til North Berwick sem er mjög fallegur lítill bær um 40 km. austur af Edinborg.  Þar er til dæmis stór sjófuglamiðstöð sem meðal annars nýtir sér vefmyndavél sem þau hafa komið fyrir úti í eyjum töluvert langt frá landi og sýna „beina útsendingu" frá fuglahreiðrum.  Á ströndinni hittum við Iain, Marion og Kirsten nágranna okkur af hæðinni fyrir neðan.  Síðan eyddum við deginum í rólegheitum með Lindu, Agnesi, Rósu, Önnu, Hildi og krökkunum.

Kristófer Lindu- og Bjarnason virtist gera sér grein fyrir því að annað lærið á Sigga var merkt með nafninu hans. ;o) Þórir slóst þá bara í hópinn.

Þórir bast sérstöku ástfóstri við fólk sem hafði sests að ca. 7-8 metra frá okkar hóp.  Þau voru með töluvert af dóti sem Þóri fannst spennandi.  Þetta var mikið ljúflingsfólk og spjölluðum við töluvert saman.  Þau reyndust reka kúabú og selja mjólkurvörur í verslanir.  Athyglisvert og alltaf gaman að hitta fleiri af hinum vingjarnlegu Skotum!


Annar í ofursól - TASTE of Edinburgh matgæðingahátíðin

Á laugardaginn skein sól í heiði þegar við fjölskyldan skelltum okkur í Inverleith garðinn til að taka þátt í matgæðingahátíðinni TASTE of Edinburgh sem haldin er árlega í Edinborg.  20090530 Á TASTE of EdinburghÞetta er mjög skemmtileg hátíð.  Þarna koma fjölmargir framleiðendur gæðavara tengdum mat auk þess sem mörg af fínustu veitingahúsum Edinborgar setja upp eldhús í tjöldum á svæðinu og bjóða upp á smárétti að hætti síns veitingahúss.  Það er svona nett hvítutjalda-Þjóðhátíð-í-Eyjum-stemning yfir þessu þar sem mikið er lagt í innréttingar þessara tjalda þannig að glæsileiki viðkomandi veitingastaða fylgi þeim þarna út á tún með tilheyrandi gæðum á kokkum og mat.  Þarna voru einnig óteljandi vínframleiðendur, ostaframleiðendur, matarolíuframleiðendur, bændamarkaður með ýmiss konar landbúnaðarvörur, áhöld til matargerðar og fleira.  Það er selt inn á svæðið og við héldum að aðgöngumiðinn myndi gefa okkur aðgang að fullt af smakki.  Það var hins vegar minna en við héldum.  Þess í stað gat maður keypt hátíðarkrónur sem maður gat síðan notað í tjöldunum.  20090530 Á TASTE of Edinburgh - Balmoralsteikin og RínarvíniðVíðast hvar var líka hægt að nota alvörupeninga til að kaupa vörur en eingöngu var hægt að nota hátíðarkrónur (n.k. Matadorpeningar) í veitingatjöldunum.  Aðgangseyririnn virðist hafa gert það að verkum að fjöldinn á svæðinu varð ekki yfirþyrmandi eins og við héldum að hann yrði og t.d. komumst við allra okkar ferða með kerruna, okkur til mikillar ánægju og undrunar.

Við fengum okkur dýrindis hægeldaða smásteik að hætti Balmoral hótelsins við Princess Street.  Í eftirrétt fengum við okkur líka jarðaber með eplakrapi, súkkulaði og einhverju fleiru ljúfu.  Þetta var hrikalega gott, sérstaklega með franska Rínarrauðvíninu mínu sem ég varð mér út um á næsta bás og drakk með steikinni. Mmmm...

20090530 Á TASTE of Edinburgh - Aspasstúlkan 2009Í einum básnum keyptum við okkur lítinn disk sem nota má við að skera niður hvítlauk, súkkulaði og næstum hvað sem er.  Misstum okkur líka í potta- og pönnubás og enduðum með að ganga út með ofurpönnu úr títaníum sem ekkert á að festast við um aldur og ævi.  Við fáum hana senda í vikunni...eða vonum það alla vega.  Þá keyptum við svokallað „Beef olives" sem er nautakjöt vafið utan um pylsu.  Það var mjög gott og rann ljúflega niður loksins þegar við komum heim á laugardagskvöldið.

Eftir matarhátíðina gátum við ekki hugsað okkur að fara heim í góða veðrinu og skelltum okkur á ströndina í Musselburgh sem er í raun úthverfi austan við Edinborg.  Þar gengum við í flæðarmálinu og leyfðum Þóri að dýfa aðeins tánni í sjó.  Það endaði auðvitað með því að hann sleit sig lausan og stakkst beint á nefið ofan í sjóinn og varð sjóblautur frá toppi til táar.  Við renndum því heim á leið.


Fyrsti ofursólardagurinn - Portóbelloströndin

Undanfarna daga hefur verið frábært veður í Edinborg.  Alla síðustu helgi og fram á þriðjudag var 20-30 stiga hiti og glampandi sól allan daginn.  Það var því komið víða við.20090529 Þórir buslar á Portobello ströndinni

Á föstudaginn skelltum við okkur  á ströndina með Lindu, Bjarna, Agnesi, Rósu og Önnu og Hildi nágrönnum auk þess sem Jón Garðar leit við á í svolitla stund. Með þessum hópi fylgir síðan fríður skari barna.

Portobelloströndin teygir sig nokkra kílómetra meðfram norðurströnd Edinborgar.  Þarna hafa Skotar baðað sig svo öldum skiptir og má nefna að Sean Connery, hinn eini og sanni, var þarna sætur strandvörður á sínum yngri árum.

Við höfðum það óskaplega gott á ströndinni í góða veðrinu.  Krakkarnir léku sér í sandinum og sjónum og við fullorðna fólkið spjölluðum og hlupum á eftir krökkunum um alla strönd.  Þórir Snær er orðinn nokkuð öflugur í sjónum, finnst hann svolítið kaldur fyrst en er fljótur að jafna sig.  Þegar líða tók á daginn var hann farinn að vilja æða beinustu leið út í og hætti ekki fyrr en hann var kominn upp undir mitti þar sem hann hélt í höndina á pabba sínum.

Það var glaður, vindbarinn og þreyttur hópur sem kom heim á föstudagskvöldið eftir frábæran dag.


Fullt af nýjum myndum á Barnalandi!!!

Vorum að setja inn á Barnalandssíðuna fullt af nýjum myndum frá því í apríl.  Enn fleiri verða settar inn á næstu dögum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband