Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Gleðilegt ár Rósa og Marwan
31.12.2008 | 23:37
Þar sem klukkan hjá Rósu og Marwan er klukkutíma á undan okkur er árið 2009 komið hjá þeim.
Gleðilegt ár Rósa og Marwan og til hamingju með afmælið Rósa!
Skaup og rólegheit á West Powburn
31.12.2008 | 23:36
Magnað þetta net! Vorum að horfa á skaupið hérna í rólegheitunum við West Powburn. Það er brjálað partý niðri í bæ en við ákváðum að vera ráðsett enda partýið varla staður eða stund fyrir eins árs þótt sprækir séu. Munum þó horfa á flugeldasýninguna úr miðbænum í beinni útsendingu. Flugeldarnir þetta árið verða því í boði BBC One Scotland og borgarstjórnar Edinborgar.
Skaupið var annars óvenjugott að okkur fannst og skemmtilegt hvað hægt var að taka létt en samt þétt á kreppunni og öllu ástandinu í samfélaginu. Ísbjörninn var líka góður.
Annars hefur árið verið fínt hjá okkur með brúðkaupi og flutningum milli landa. Edinborg hefur leikið okkur sérstaklega vel og það verður spennandi að sjá hvað árið 2009 ber í skauti sér. Að öllum líkindum verðum við í annarri heimsálfu að ári horfandi á skaupið um hálf fimmleytið að degi til að staðartíma. Skemmtilegt!
Skaupið virðist hins vegar ekki vera séríslenskt fyrirbrigði. Í þessum töluðu orðum erum við að horfa á skoskt áramótaskaup þar sem gert er grín að bönkunum og fjármálakrísunni eins og víðar.
Prins Póló
31.12.2008 | 17:34
Er að borða Prins póló sem Inga keypti í pólsku búðinni niðri í bæ. Spáið í það!!!
Það eiga sko ekki allir konur sem koma heim með Prins póló í útlöndum. Algjör snilld!
Tíminn milli jóla og nýárs á West Powburn
28.12.2008 | 23:39
Já það er rólegt hjá okkur fjölskyldunni nú á milli jóla og nýárs. En þannig á það að vera er það ekki? Siggi er á fullu að undirbúa umsóknir vegna mastersnáms í Bandaríkjunum. Hann stefnir á að senda umsóknir á 2 háskóla, annan í Alabama og hinn í Ohio. Það lýtur því út fyrir að fjölskyldan sé á leið vestur um haf í byrjun næsta hausts.
Við Þórir Snær erum því saman á daginn, sem er góð tilbreyting fyrir mig. Skólinn byrjar hjá mér 12.janúar næstkomandi en þann dag á ég líka að skila inn einu lokaverkefni og svo öðru minna verkefni 16. janúar.
Veðrið hefur líka leikið við okkur, kalt og stillt. Alveg frábært til gönguferða sem er fínt þar sem við reynum að fara út að ganga með Þóri alla daga. Í gær gengum við niður í bæ, fórum í kastalann og nutum útsýnisins yfir borgina. Að því loknu fundum við okkur veitingastað (pub/bistro) og fengum okkur að borða. Ósköp ljúft þó svo mér finnist mjög gaman að elda þá er stundum gott að fá einhver til að gera það fyrir sig og ganga frá
Á þriðjudaginn stefnum við á gönguferð um vesturhluta Pentlandshæðanna (sem eru hér suður af borginni) með Judy og Goff, leigusölunum okkar. Þau eru með ákveðna gönguleið í huga sem er umhverfis uppistöðulón, hljómar spennandi og alltaf gaman að kynnast nýjum gönguleiðum.
Gleðileg jól kæru vinir!
25.12.2008 | 15:09
Þorláksmessukvöld í West Powburn
23.12.2008 | 23:25
Nú er Þorláksmessukvöld og við hjónin sitjum við borðstofuborðið í, sitt í hvorri tölvunni og hlustum á jólakveðjurnar á RÚV og til að hámarka hugguleg heitin þá er komin hangikjötslykt... já það eru að koma jól. Það sem eftir er af kvöldi fer í að pakka inn síðustu gjöfum og senda tölvupósts jólakort.
Morgundagurinn verður spennandi og skemmtilegur, ég (Inga) að elda jólamat í fyrsta skipti. Matseðillinn er eftirfarandi
Forréttur: Rækjukokteill með hunangsmelónu, camenbert, paprikum o.fl. sem mér dettur í hug
Aðalréttur: Kalkúnn með góðu meðlæti
Eftirréttur: Toblerone-súkkulaðimús
Anna nágranni okkar verður með okkur annaðkvöld og við erum svo heppin að hún kemur með kartöflur, grænmeti og heimagerðan ís
Gleðileg jól kæra fjölskylda og vinir við vonum að þið komið til með að njóta jólanna á sama hátt og við.
Inga er vöknuð!
21.12.2008 | 18:22
Jólastemning við West Powburn
16.12.2008 | 15:32
Tókum okkur loksins til að græjuðum jólagjafirnar þar sem við föttuðum í gær að það er ekki nema vika í jól! Þær verða settar í póst á eftir. Jólalög, piparkökur, kort, pappír, jólastjarnan stendur uppi á skáp, jólatréð er á sínum stað, jólaserían í glugganum, piparkökur hangandi í borðum í gluggunum...nú eru að koma jól!
Það myndi fullkomna þetta að hafa malt og appelsín við höndina. Koma tímar - kemur malt og appelsín!
Alvöru húsfaðir!
14.12.2008 | 17:50
Komum 3 lubbar - Fórum þrjár skvísur
14.12.2008 | 03:18
...var meðal þess sem stóð í gestabókinni á 7/7 West Powburn eftir síðustu helgi. Dagmar Ásmunds kom frá Aberdeen, dvaldi hjá okkur yfir helgina og klippti allt í allt um tuttugu manns eða þar um bil.
Það var semsagt stanslaust rennirí alla helgina af Íslendingum sem komu sem lubbar en fóru heim sem skvísur og gæjar. Allir komu með sitthvað á borðið þannig að úr varð standandi kökupartý alla helgina sem húsráðendum fannst nú ekkert svo hræðilegt.
Takk fyrir komuna öll sömul. Þetta var skemmtilegt og félagsskapurinn frábær! :)
Húsráðendur voru nú bara nokkuð lúnir eftir helgina enda áreitið aðeins meira en á meðaldegi hérna í útlandinu. Erum alveg búin að mastera rólegheitin síðan við komum hingað út. Segjum stundum að ef við skærum okkur á púls tæki það okkur hálfan mánuð að blæða út svo slök erum við orðin.
Nokkrar myndir frá helginni...