Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
Jógúrt og hurðir
13.12.2008 | 02:48
Þórir Snær prófaði að borða sjálfur jógúrtið sitt um daginn. Fílaði það í tætlur enda um afar krefjandi verkefni að ræða.
Hann er líka farinn að opna hurðir. Nú eru honum því allir vegir færir.
Nokkrar myndir af jógúrtaðgerðinni miklu!
Þórir Snær slappur
3.12.2008 | 23:39
Þórir Snær hefur ekki haft það sem allra best í gær og í dag. Byrjaði á því að æla í fyrrinótt og var með 38,5 stiga hita. Hann var síðan allur frekar ómögulegur í allan gærdag, svaf mikið, borðaði lítið, hélt litlu niðri og þegar hann var ekki sofandi vildi hann vera í fanginu á okkur. Hann hóstaði líka illa og okkur stóð ekki á sama hvað það snerti.
Pöntuðum tíma hjá lækni í gær þar sem okkur fannst hóstinn koma neðan úr lungum. Hittum í morgun doktor Martin, unga konu um þrítugt á Conan Doyle heilsugæslustöðinni sem hlustaði Þóri og komst að því að ótti okkar var ástæðulaus. Við greiddum ekkert fyrir læknisskoðunina. Þar standa Bretar Íslendingum framar. Doktor Martin benti okkur á Parasetamól í vökvaformi til að vinna gegn hitanum. Hérna notað þeir ekki stíla heldur gefa þetta í vökvaformi.
Þegar leið á daginn varð hann betri og betri, borðaði meira og meira og var bara orðinn nokkuð góður í kvöld. Hefur sofið frekar órólega í kvöld og erum við því að spá í að gefa honum stíl svo hann fái góða hvíld í nótt. Þá verður þetta vonandi að baki að mestu leyti.
Þess má geta að Conan Doyle heilsugæslustöðin heitir eftir Arthur Conan Doyle sem samdi á sínum tíma bækurnar um Sherlock Holmes. Arthur þessi var héðan úr Edinborg eins og fleiri góðir rithöfundar. Sú frægasta þeirra um þessar mundir er J.K. Rowling höfundur Harry Potter. Hún er sögð hafa skrifað a.m.k. fyrstu bókina á kaffihúsi niðri í bæ. Í nágrenni þess kaffihúss er kirkjugarður þar sem margir skúrkar eru jarðaðir og má þar finna mörg nöfn úr Harry Potter bókunum á legsteinum. Þaðan sést yfir til stórs einkaskóla sem var einmitt fyrirmyndin að Hogwarts. Einnig skilst okkur að J.K. Rowling hafi um tíma búið hér við West Powburn í blokkinni okkar en í öðrum stigagangi. Gaman að því
Annað er það að frétta að Inga er á fullu í ritgerðarskrifum og á að skila á föstudaginn kemur. Þá hefst hún handa við annað verkefni sem á að skilast tíu dögum seinna. Í námi sínu leggur Inga helst áherslu á það hvernig hún getur komið á virkri starfsþróun og símenntun (organisational learning) í íslenska skólakerfinu með sérstaka áherslu á framhaldsskóla, þ.m.t. Flensborg þar sem hún þekkir best til.
Vinir og fjölskylda | Breytt 4.12.2008 kl. 02:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þjóðleg á fullveldisdaginn - Jól á West Powburn - Klippijólapartý
2.12.2008 | 01:07
Hafragrautur, lifrapylsa og lýsi í morgunmat. Plokkfiskur og heimabakað rúgbrauð úr Ásabyggðinni í kvöldmat. Gerist ekki mikið þjóðlegra. Komumst að því þegar líða tók á daginn að við hefðum væntanlega tekið upp þennan þjóðlega takt vegna 90 ára afmælis fullveldisins í dag. Hver svo sem hvatinn var bragðaðist þetta stórkostlega.
Létum greipar sópa í verslunum í dag. Skelltum okkur í Ikea og keyptum dýnu í rúmið hans Þóris Snæs. Hann sefur í ferðarúmi úr Rúmfatalagernum og nú er hann orðinn það stór að okkur fannst ástæða til að hann fengi almennilega dýnu. Hann hvílist því vonandi betur en nokkru sinni í nótt og næstu nætur. Keyptum líka piparkökuhjörtu sem hengja á um alla íbúð auk þess að reka augun í steiktan lauk sem telst til vandfundinna gæða í heimsveldinu breska.
Næst var það Asda og fórum við þar hamförum í jóladeildinni. Verkefni vikunnar er að skreyta West Powburn og keyptum við jólaseríur, jólatré, kerti í aðventukrans og fleira skemmtilegt á botnverði. Jólatréð kostaði t.d. 9 pund sem er innan við 2.000 kall fyrir 180 cm tré. Vonandi er það ekki bara einhver grein!
Nú skal skreytt fyrir klippijólapartýið um næstu helgi.
Talandi um klippijólapartýið....
Dagmar, sem einu sinni var dagmömmubarn á Hólsveginum í mörg ár en býr nú í Aberdeen með fjölskyldu sinni og klippir Skota daginn út og inn, ætlar að dvelja hjá okkur um næstu helgi og klippa Íslendinga í Edinborg. Íslensku konurnar halda því statt og stöðugt fram að afurðir breskra klippidama séu lummó og taka þessu framtaki Dagmar fagnandi. Við höfum sagt fólki að mæta með smákökur í klippinguna og þannig að hér verða vonandi standandi klippi-litlu-jól alla næstu helgi.
Helginni mun síðan ljúka með jólatónleikum Kevock kórsins, kórsins míns, sem haldnir verða í Queens Hall sunnudagskvöldið 7. desember.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fyrsti sunnudagur í aðventu
1.12.2008 | 03:14
Renndum niður í bæ í dag á fyrsta sunnudag í aðventu. Fyrir helgi var opnað jólaþorp mikið í miðbæ Edinborgar. Um er að ræða stórt 300 manna skautasvell, þýskan jólamarkað, risastórt parísarhjól, hringekjur og margt fleira. Jólamarkaðurinn er mjög skemmtilegur og fengum við okkur dýrindis súkkulaði og púns að hætti Þjóðverja.
Núna um helgina var líka haldið upp á St. Andrews day sem er nokkurs konar þjóðhátíðardagur Skota. Það var fullt af fólki í bænum og mjög líflegt og skemmtilegt.