Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Lancaster
24.3.2009 | 11:48
Ég var að enda við að senda inn umsókn um mastersnám í Lancaster í Norður-Englandi. Ég veit nú ekki hvað Skotunum mínum finnst um það að ég sé að svíkja lit og flytja til ENGLANDS af öllum stöðum. Sjáum til hvernig þetta fer. Um er að ræða ITMOC masterinn í upplýsingatækni og breytingastjórnun sem ég minnist á í færslunni hér að neðan. Mjög spennandi nám.
Smelltu hérna til að finna Lancaster á korti.
Annars erum við Þórir bara hérna heima í rólegheitum í augnablikinu en Inga er í skólanum. Nú ætlum við að fá okkur smá hádegismat og síðan skellum við okkur út þar sem Þórir sefur í tvo tíma í kerrunni og ég rölti um óravíddir Edinborgar á meðan. Úti hefur komið eitthvað bakslag í vorið. Hitastigið er um 7 gráður, svolítill vindur og von á skúrum þegar líða tekur á daginn. Búist er við svona veðri út vikuna. Dagskipunin er semsagt: "Aftur í vetrarfötin!".
Inga er í skólanum en er búin í dag um tvöleytið. Þá annað hvort slæst hún í hópinn með okkur í úti eða fer heim og heldur áfram með verkefnin. Hún er að standa sig þvílíkt vel og klárar í dag verkefni sem hún þarf strangt til tekið ekki að skila fyrr en á föstudaginn. Það eru hins vegar fleiri verkefni í farvatninu sem hún vill klára eins mikið af og hún getur áður en við komum til Íslands svo hún þurfi ekki að vera alla daga inni að læra á Fróni.
Í kvöld er svo kóræfing hjá kórnum mínum, Kevock kórnum, sem æfir nú stíft fyrir vortónleikana í Queens Hall 10. maí. Efnisskráin er fjölbreytt og skemmtileg og má þar helst nefna The Armed Man sem er verk eftir Karl Jenkins, syrpu úr Evitu eftir Andrew Lloyd Webber, nokkur skosk þjóðlög og loks gamaldags djass/swing tónlist að hætti Fats Domino og má þar nefna Ain't Misbehaven, Continental og fleiri lög. Það verður verulega gaman. Ég hlakka mikið til.
Vorið er komið...
20.3.2009 | 22:26
... og jafnvel pínulítið eins og íslenskt sumar í dag og í gær. Æðislegt veður og frábært að vera úti.
Siggi og Þórir Snær voru úti í 8 tíma í gær og voru báðir ósköp þreyttir um kvöldmatarleytið. Ég (Inga) er að reyna að vinna á fullu í áfanga lokaverkefnum þessa dagana, en óskaplega er það erfitt þegar veðrið er svona gott. Það verður samt að hafa það því ég á að skila einu verkefni 27. mars, öðru 3. apríl og þriðja 15. apríl en þá verð ég á Íslandi svo ég mun skila því verkefni líka þann 3. apríl. Þetta hefst allt og ég þakka fyrir að hafa unnið jafnt og þétt í vetur og vera skipulögð í vinnubrögðum
Veðurspáin fyrir morgundaginn (21.mars) er mjög góð og stefnan því tekin á Portabello-ströndina hér í Edinborg. Ef fer eins og ætlað er mun þetta verða Íslendingaferð á ströndina, ég ætla því að vera dugleg að vinna í verkefninu í kvöld, fyrramálið og annaðkvöld því þá get ég farið með
Kominn inn!!!
18.3.2009 | 00:37
Gleðifréttir!!! Ég var að fá póst um að búið væri að samþykkja mig í University of Dayton í Ohio í Bandaríkjunum. Þetta þýðir að ég er a.m.k. öruggur um að komast í nám næsta haust og eyðir því mikilli óvissu. Ég á von á svari frá Alabama í næstu viku eða þarnæstu.
Þetta þýðir að óþarfi er að sækja um fleiri skóla en þó ætla ég að henda inn umsókn í námið í Lancaster. Það er mjög athyglisvert nám og myndi henta mér mjög vel ef ég fengi þar inni.
Óvissunni er alla vega eytt um það hvort ég komist í nám eða ekki. Það er það mikilvægasta. Jibbbííí!!!
Hvar skyldum við dansa um næstu jól?
13.3.2009 | 02:59
Af skólamálum hjá Sigga...
Um áramótin sótti ég um MBA með áherslu á viðskiptagreind (Business Intelligence) í tveimur skólum. Annars vegar University of Alabama í bænum Tuscaloosa í Alabamafylki í Bandaríkjunum og hins vegar í University of Dayton sem staðsettur er í Dayton í Ohio fylki.
Ég hafði síðan samband við skólana í janúar til að fá staðfestingu á því að ekkert hefði vantað í umsóknirnar og að öll gögn væru komin í hús hjá þeim. Eitthvað vildu þeir hafa öðruvísi og eftir nokkurra daga póstsendingar var allt klárt.
Síðan hef ég ekkert heyrt frá University of Dayton en í byrjun febrúar heyrði ég frá Alabama. Þar var mér sagt að umsóknin mín væri mjög sterk en samkeppnin í ár væri mikið meiri en hún hefði verið undanfarin ár. Vegna fjöldaatvinnuleysis í Bandaríkjunum (10% atvinnuleysi - hátt í 20 milljónir manna) væri miklu meiri aðsókn í námið en áður hefði verið. Ég væri því á biðlista. Það helsta sem ég gæti gert til að hafa áhrif á niðurstöðuna væri að endurtaka GMAT prófið. Þar voru þeir bæði að vonast eftir hærra skori hjá mér og líka að sjá hvort ég tæki áskoruninni. Ég kýldi auðvitað á það, tók prófið núna 9. mars síðastliðinn og sendi þeim niðurstöðuna. Niðurstaðan var 20 stigum hærri en síðast (580 í stað 560). Næsti fundur valnefndarinnar í Alabama er 23. mars eða þar um bil og munu þeir hafa samband eftir þann fund varðandi það hver staða mín verður þá. Þessi aukna samkeppni gerir það að verkum að maður er ekki jafn viss í sinni sök og áður.
Ég er því að spá í að sækja um á fleiri stöðum nú á næstu dögum. Koma þá þrjú nám helst til greina, öll hérna megin Atlantshafs. Líklega sæki ég um þau öll:
- Alþjóðlegt MBA hér í Edinborgarháskóla. 15 mánaða nám þar sem síðasti hluti námsins (haustið 2010) er tekinn í einhverjum af samstarfsskólum Edinborgarháskóla, t.d. í Singapore eða Shanghai, sem væri ekki leiðinlegt!
- Annar kostur er Grenoble Graduate School of Business þar sem ég er að spá í að sækja um MBA nám með áherslu á viðskiptagreind (Business Intelligence). Þetta er ansi spennandi skóli á mjög spennandi stað, Grenoble í frönsku ölpunum með Matterhorn fyrir ofan okkur og frönsku rívíeruna svolítið sunnan við okkur. Ekki slæmt það!
- Þriðji kosturinn, líklega sá mest spennandi námslega séð, er mastersnám í stjórnun, breytingastjórnun og upplýsingatækni (MSc Information Technology, Management & Organisational Change (ITMOC)) við háskólann í Lancaster. Lancaster er um 100 km norðvestur af Manchester, í norð-vesturhluta Englands. Þangað er aðeins 2-3 klukkustunda akstur héðan frá Edinborg. Þetta er sérhæfðara nám heldur en MBA sem er almennt viðskiptafræðinám. Þetta nám brúar bilið á milli upplýsingatækni og stjórnunar með sérstakri áherslu á breytingastjórnun. Þetta er mjög spennandi og í raun nákvæmlega það sem ég hef áhuga á. Þrátt fyrir að áherslan á viðskiptagreind sé minni þá er komið inn á hana í náminu líka.
Þetta þýðir að ef við förum ekki til Bandaríkjanna þá vitum við ekki hvort við komum til Íslands í sumar eða hvort við verðum í Edinborg. Líklega verðum við bara hérna þangað til við keyrum á nýja staðinn, þ.e. ef ég enda ekki í Edinborgarháskóla. Ef við hins vegar ákveðum að skella okkur yfir hafið, þá komum við væntanlega heim í maí og verðum fram til mánaðarmóta júlí/ágúst áður en við höldum til vesturheims í tvö ár.
Í stuttu máli sagt höfum við ekki hugmynd um hvar í heiminum við verðum stödd seinni part ársins sem gefur auðvitað endalaus tækifæri!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Dregið úr drykkju - Barnaland - skólinn hennar Ingu
13.3.2009 | 01:38
Var að setja nýjar myndir inn á Barnaland. Myndirnar frá 13. febrúar til dagsins í dag eru nýjar.
Annars er allt fínt að frétta af okkur hér í Edinborginni. Það hefur komið smá bakslag í vorið undanfarna daga. Þótt hitastigið haldi sig að mestu ennþá milli 8 og 10 gráður á daginn hefur veðrið að öðru leyti verið misjafnt undanfarið þótt góðir dagar hafi komið inn á milli.
Þórir hefur verið að drekka 4-5 pela af mjólk á nóttu. Okkar tilfinning var að hann væri eiginlega ekkert svona þyrstur heldur væri þetta bara einhver sogþörf, yfirleitt 4-5 sinnum á nóttu. Pelarnir hans eru 150 ml. og hann var því að drekka allt upp í 750 ml. á nóttu. Við ákváðum því fyrir helgi að minnka innihaldið niður í 100 ml. Nú höfum við minnkað það aftur niður í 50 ml. og enn er hann að drekka jafn oft og áður, þ.e. 4-5 sinnum á nóttu. Hann drekkur hins vegar um 200 ml. í stað 750 ml áður og í kvöld gáfum við honum ekki pela þegar hann fór að sofa. Það virðist ekki skipta hann neinu máli svo lengi sem hann fær smá smakk á þessum tímum. Það verður athyglisvert að sjá hvort þetta fjarar ekki bara út í rólegheitum. Prófum að skipta restinni yfir í vatn einhvern tímann á næstu dögum.
Nú er önnin hennar Ingu að klárast og á næstu tveimur vikum verða síðustu fyrirlestrarnir í hverju fagi. Við tekur verkefnavinna en öllum fögunum líkur með stóru verkefni. Hún verður því í stanslausri verkefnavinnu þangað til við förum til Íslands á pálmasunnudag 5. apríl. Hún mun líka vinna í verkefnum á meðan við verðum á Íslandi og eftir að við komum út. Síðan tekur ritgerðin við í allt sumar annað hvort hérna eða á Íslandi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 03:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þórir farinn að færa sig upp á skaftið!
2.3.2009 | 13:57
Öfgana á milli í bæjarferð
2.3.2009 | 13:55
Skruppum út að labba í gær á meðan Þórir svaf sem ekki telst til tíðinda. Nú er farið að vora svolítið í Edinborg þótt hitastigið sé nú almennt hærra séð út um gluggann en í raun þegar út er komið. Þó er það yfir leitt um 10 gráðurnar á daginn og getur verið nokkuð gott bara þegar sólin skín.
Í gær lögðum við af stað áleiðis niður í bæ í blíðskapar veðri og sól. Þegar við vorum komin niður undir Meadows fór að þykkna verulega upp. Við leiktum okkur aðeins á uppáhaldsleikvellinum okkar við Meadows og síðan var stefnan tekin á höll drottningar, þ.e. Holyrood Palace.
Þá fóru að leka dropar úr lofti. Við rákum augun í skilti sem benti okkur að Moskueldhúsi nokkru sem staðsett er í húsasundi. Lyktin var góð og við kíktum við. Þá var rigningin orðin slík að það hreinlega fossaði niður af himninum í nokkrar mínútur og þegar við héldum að þetta hefði náð hámarki þá kom haglél í nokkrar mínútur og ekki í neinu smáræðismagni!
Þar sem við höfðum flúið á vit múslimana ákváðum við að fá okkur að borða. Þarna er einhvers konar súpueldhús í bakgarði moskunnar í Edinborg þar sem boðið er upp á marga góða karrýrétti og nanbrauð að hætti Pakistana og þjóðanna þar í kring. Þarna borðuðum við á okkur gat undir tjaldhimni í portinu á meðan veðurofsinn gekk yfir. Þá var orðið of seint að fara í höllina og stefnan tekin niður í bæ enda aftur komið ágætisveður.
Þar enduðum við á "The Scotch Whisky Experience" sem er sýningarhús í tengslum við skoska viskýgerð og þá miklu menningarsögu sem það á í Skotlandi. Þar hlustuðum við á nokkra stutta fyrirlestra um viskýgerð og síðan var farið í það að smakka veigarnar. Þetta var mjög skemmtilegt og var okkur meðal annars gefið The Glencairn Glass sem er tiltölulega nýhannað glas og fyrsta sérhannaða viskýsmökkunarglas í heimi. Við versluðum okkur síðan smávegis nesti og héldum heim á leið.
Þetta var því bæjarferð öfganna. Sól í bland við úrhelli og haglél og ég veit ekki alveg hvað góðlega manninum, sem var auðsjáanlega einhvers konar leiðtogi í moskunni þar sem við borðuðum, hefði fundist ef hann hefði vitað að við fórum beint frá honum í viskýsmökkun, en það er annað mál.
Minjagripur frá Edinborg - A Walk in the Gardens
23.2.2009 | 22:55
Við höfum að undanförnu verið að líta í kringum okkar eftir minjagrip eftir dvöl okkar í Edinborg. Eigum reglulega leið fram hjá galleríi á leiðinni heim úr miðbænum og þar greip augu okkar málverk sem höfðaði sérstaklega til okkar. Eftir að hafa gengið fram hjá henni líklega 10 sinnum með glampa í augunum fórum við inn og gengum að lokum heim með gripinn.
Málverkið er af borgarmyndinni í Edinborg sem er einstök og á heimsminjaskrá UNESCO. Horft er frá Princes Street í áttina að Edinborgarkastala og Royal Mile yfir Princes Gardens. Við höfum í vetur eitt ófáum gönguferðunum á þessu svæði og myndin er lífleg og falleg. Við erum mjög ánægð með minjagripinn okkar.
Við keyptum hana óinnrammaða enda fer hún betur þannig á því flakki sem við verðum næstu mánuði og ár. Ætli hún endi ekki inni í geymslu á Miklubrautinni eða með brúðkaupsgöfunum á háaloftinu í Ásabyggðinni. Þar bíða allar gersemarnar þess að við flytjum aftur á Frónið og eigum þar fastan viðverustað aftur.
Gripinn má skoða hér á heimasíðu gallerísins þar sem við keyptum hana. Hægt er að smella á hana til að skoða stærri mynd.
Hvað hefur fjölskyldan verið að bardúsa? Jú...
18.2.2009 | 23:43
... það er nú eitt og annað sem við höfum verið að gera undanfarna daga. Sem betur fer annars værí lítið gaman af þessu
Þann 12. febrúar bauð eiginmaðurinn okkur út að borða (í tilefni af Valentínusardeginum) á, (að ég held) fínasta og samkvæmt sögum, einn dýrasta veitingastað í Edinborg. The Witchery, frábær staður og virkilega góð þjónusta. Þetta er jú mjög fínn staður en verðið er samt alveg fyrir "venjulegt" fólk, aðalréttirnir eru frá 14.95 pund og reyndar upp í 50 pund (það var sjávarréttarplatti með heilum humar) en lang algengast var að sjá verð í kringum 23 pund. Snilldin er samt að nú árið 2009 er boðið upp á 30 ára afmælisseðil sem er 3 rétta máltíð á 30 pund fyrir manninn, svo bætast drykkir við það.
Ástæðan fyrir því að við fórum út að borða 12. febrúar í stað 14. febrúar sem er Valentínusardagurinn er sú að Kristófer kom til okkar föstudaginn 13. feb. svo þann 14. áttum við fjögur huggulegt fjölskyldukvöld saman . Þessi tími saman er búinn að vera ósköp góður og rólegheitin alveg þau sömu og venjulega, samt er alltaf nóg að gera. Við erum búin að ganga um allt, skoða margt og mikið. Þeir feðgar, Siggi og Kristófer, fóru í Our Dynamic Earth í gær og skemmtu sér hið besta. Í dag fóru þeir allir þrír í dýragarðinn á meðan ég var í skólanum. Á morgun er stefnan að fara í Edinborgarkastala og skoða hann og útsýnið frá honum. Um kvöldið á að fara á PizzaHut að ósk Kristófers og svo huggókvöld með bíómynd.
Á föstudagsmorguninn fljúga Siggi og Kristófer til Billund. Kristófer fer heim til Álaborgar en Siggi hoppar aftur upp í vélina og flýgur til Edinborgar á ný. Dagmar vinkona okkar frá Aberdeen ætlar að koma og vera hjá okkur óg klippa fólk og lita hár (eins og var hjá okkur í byrjun des.). Við búumst því við gleði og fjöri hér á "Saloon West Powburn" um helgina
Nýjar myndir komnar á Barnalandssíðuna...
12.2.2009 | 18:47