Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Miklabrautin auglýst á Mbl.is

Á meðan við búum erlendis leigjum við íbúðina okkar að Miklubraut 70 út og höfum verið einstaklega heppni með Kristin og Helen sem leigja íbúðina í vetur.  Við vorum hins vegar óheppin þar sem við þurftum að segja upp leyfi sem þau höfðu til hundahalds í íbúðinni vegna þess að konan á efri hæðinni komst að því að hún er með ofnæmi fyrir hundum.  Krakkarnir ætla að fylgja hundinum og því þurfum við að finna okkur nýja leigjendur fyrir 15. ágúst en þá rennur út leigusamningurinn við Kristin og Helen.

Auglýsinguna má finna á leigumiðlunarvef Mbl.is og viljum við biðja alla um að dreifa henni sem allra mest.

Við settum hana inn fyrir viku og höfum fengið töluverð viðbrögð á hana.  Sumum finnst leigan of há á meðan öðrum finnst það í lagi.  Við höfum bent fólki á að það sé að fá húsgögn og til dæmis dót í eldhúsið með íbúðinni að andvirði margra mánaða leigu.  Leigjandinn er hann er t.d. að byrja að búa, þarf því ekki að kaupa sér þetta sjálfur allt í einu.  Í gær á ein að hafa skoðað íbúðina.  Við heyrum vonandi frá henni og besta mögulega niðurstaða væri sú að ganga frá þessu öllu saman á meðan við verðum á Íslandi í byrjun júlí.


Þórir Snær í ljósmyndasamkeppni Mbl.is

Ein uppáhaldsmyndin okkar af Þóri Snæ var tekin í sturtu um borð í Norrænu á leið til Skotlands í fyrra.  Þegar við sáum ljósmyndasamkeppni auglýsta á Mbl.is ákváðum við að slá til og senda hana inn.  Það er eitthvað svo hugljúft og notalegt við þessa mynd.

Á leið til Íslands í sumar

Við tókum þá ákvörðun á fimmtudaginn að skella okkur til Íslands í sumar í brúðkaupið hjá Valda og Eddu 4. júlí.  Við höfðum verið svolítið á báðum áttum hvort við ættum að láta slag standa peningalega en ákváðum að taka svolitið '2007' á þetta og skella okkur bara!  Það þýðir ekkert að missa af þessu!

Næstu vikur verða því ekki beint lognmollulegar.  Við flytjum því til Lancaster 15. júlí, verðum þar í 10 daga og tökum loks flug frá Manchester til Íslands að kvöldi föstudagsins 26. júní.  Brúðkaupið er laugardaginn 4. júlí og við fljúgum aftur heim til Lancaster seinnipartinn mánudaginn 6. júlí.  Þess má geta að Inga er á kafi í mastersritgerð með þessu öllu.  Jafnvel er verið að skoða þann möguleika að Þórir og Una, foreldrar Ingu, komi með okkur út þann 6. júlí og verði hjá okkur í einhvern tíma.

Það er því engin lognmolla á næstunni, svo mikið er víst!


Íslendingaferð í dýragarðinn

20090604 Í dýragarðinum - Inga hélt hún fengi þennan! ;o)Á miðvikudaginn skelltum við okkur í Íslendingaferð í dýragarðinn.  Við, Inga og Þórir mættum þangað ásamt Lindu, Agnesi, Rósu og börnum.  Við byrjuðum á því að skoða mörgæsagöngu sem er fastur liður á hverjum degi í dýragarðinum.  Þá ganga mismargar mörgæsir hring á milli gestanna þar sem starfsmennirnir hafa vökult auga með þeim.

Við röltum um garðinn, sáum ástralska Koalabirni, ljón, apa, sebrahesta og fjölmörg önnur dýr, spjölluðum og lékum okkur.  Þessi Íslendingahópur sem náð hefur saman hér í Edinborginni er alveg sérstaklega þéttur og vandaður hópur og gaman að gera hluti með honum.  Það varð því úr að við vorum með þeim síðustu að yfirgefa garðinn þegar við héldum braut.20090604 Í dýragarðinum Álfrún, Bjarnheiður, Margrét, Dagrún og Eyvindur 20090604 Í dýragarðinum - Mömmurnar og karlarnir þrír

 


Lancasterferð til fjár! Flytjum 15. júní!

Á þriðjudaginn var komið að langþráðri stund, ferðalagi til Lancaster þangað sem ég (Siggi) ætla til náms í haust.  Við áttum pantaða tíma hjá tveimur leigusölum í Lancaster þennan dag til að skoða sitthvort húsið auk þess sem okkur hafði verið boðið að koma og skoða nýja háskólann minn.

20090602 Lancaster Fyrstu skrefin á Lancasterska grund!Ferðin til Lancaster gekk vel og lá leiðin í gegnum gullfallegar skoskar sveitir í suðvestur frá Edinborg þangað til kemur að M6 hraðbrautinni sem liggur frá Glasgow og suður með eyjunni framhjá Lancaster.  Við gleymdum að taka bensín áður en við lögðum af stað og komumst fljótlega að því að ekki var mikið um bensínstöðvar í sveitunum.  Komum loks til bæjar sem heitir Biggar.  Þar sáum við nokkrar eldgamlar skítugar bensíndælur, þið munið þessar ferköntuðu sem voru á öllum Shell stöðum í gamla daga.  Við beygðum inn að þeim þar sem þær stóðu við einhvers konar verkstæði en ekki venjulega bensínstöð.  Út kom maður sem var enn eldri en tankarnir.  Ég myndi giska á að hann hafi verið farinn að nálgast áttrætt.  Gamli maðurinn dældi á bílinn og ég hóf máls á því að það væru nú ekki margar bensínstöðvar á leiðinni.  Gamli maðurinn sem enn hafði ekkert sagt hnussaði þá hálfpartinn hvort „þessi stöð væri ekki nægilega góð handa mér?!".  „Uh, jú, mér finnst þessi stöð mjög góð" sagði ég og ákvað að láta þar með spjallæfingum mínum lokið í bili.  Sá gamli varð hins vegar allur meyrari þegar við komum að kassanum og þakkaði mér mikið fyrir að versla við sig, „Thank you very much!" í hlýlegum tón.  Ég hef líklega reddað viðskiptunum þann daginn fyrir blessaðan karlinn.  Það var eitthvað ljúft við þennan endatón þessa karls sem hafði verið svo fýldur þarna stuttu áður.  Þegar ég elti hann inn þá var þetta bara einhver ruslakompa eða vísir að verkstæði þar sem öllu ægði saman.  Þetta var kærkomin og persónulegri tilbreyting frá öllum stöðluðu bensínstöðvunum.

Allan daginn skein sól í heiði og þegar við komum til Lancaster um hádegisbilið rúntuðum við um bæinn, fundum húsin sem við ætluðum að skoða, skruppum í verslun og fengum okkur að borða.

20090602 Lancaster Hlaupið í mömmuknús á litla opna svæðinu við hliðina á húsinu okkar.Rúmlega eitt vorum við mætt við fyrsta húsið.  Þar tók á móti okkur fasteignasali, kona sem tjáði okkur að við kæmumst ekki þarna inn.  Núverandi leigjendur neituðu að hleypa fólki inn að skoða og sögðust hafa bannað skoðanir á þessum tíma dags.  Húsið var enda líka til sölu þannig að okkur þótti ekki spennandi að fara að leigja hús sem síðan yrði selt undan okkur fljótlega.  Við fórum því aftur til baka með skottið milli lappanna.  Nú var aðeins eitt hús eftir að skoða og líkurnar orðnar óþægilega miklar á því að við færum aftur húslaus heim til Edinborgar.

Leigan í Lancaster er mun lægri en í Edinborg.  Líklega er 40-60% munur á leiguverði á góðum stað í London og Edinborg og hátt í annar eins munur á Edinborg og Lancaster.  Lancaster er líklega sambærilegt því að flytja á Patreksfjörð eða Sauðárkrók á Íslandi þótt um sé að ræða 40 þúsund manna bæjarfélag.  Við höfðum því gert okkur grein fyrir því að fyrir nokkurn veginn sömu upphæð og við erum að greiða í Edinborg gætum við fengið hús með garði í Lancaster.  Hér greiðum við 600 pund á mánuði en greiddum 660 pund til áramóta þegar leigusalarnir okkar ákváðu af eigin frumkvæði að LÆKKA leiguna af meðaumkvun yfir íslenska gengishruninu!

Þær óskir sem við höfðum voru því að húsið væri leigt út með húsgögnum og hins vegar að við það væri lokaður garður sem Þórir Snær gæti leikið sér í án þess að geta hlaupið út á götu.  Inga hefur leigið yfir fasteignamarkaðnum í Lancaster undanfarið og hefur komist að því að lítið er um hús sem uppfylla þessi tvö skilyrði auk þess að vera verðlögð innan þeirra marka sem hentar okkur.

20090602 Lancaster Nýja húsið okkar.Í húsi númer tvö hvað við annan tón en í því fyrsta.  Húsið var mjög smekklega innréttað, tveggja hæða hús með bílskúr og garði þar sem auðsjáanlega var nýbúið að gera upp neðri hæðina sem skiptist í stofuna, eldhúsið og anddyrið sem og baðherbergið á annarri hæðinni.  Þegar maður kemur inn í húsið fer maður inn á flísalagðan gang meðfram stiganum sem liggur upp á aðra hæð.  Við enda gangsins er eldhúsið, til vinstri undir stiganum er lítil geymsla búin þvottavél og hægra megin við ganginn stofa og borðstofa í einu rými.  Í eldhúsinu er ný eldhúsinnrétting með innbyggðum ofni, örbylgjuofni, ísskáp, frystiskáp, gashellum og meira að segja uppþvottavél!  Í stofunni er sjónvarpskrókur með kamínu sem aldrei hefur verið kveikt á í öðrum endanum og borðstofuborð í hinum endanum með gasarni!  Við sjónvarpskrókinn er tvöföld hurð sem hægt er að opna út í garð.  Í garðinum sem er lokaður á alla kanta er lítil stétt, lítill grasbali og meira að segja viðarpallur með garðhúsgögnum.  Við hliðina á garðinum er stór bílskúr með ýmsum græjum.  Uppi á lofti er nýuppgert baðherbergi með baði og sturtu, tvö svefnherbergi með tvíbreiðum rúmum í báðum herbergjunum, miklu skápaplássi og lítið svefnherbergi sem búið er að innrétta sem skrifstofu.  Þó var þar aukarúm sem hægt er að troða þangað inn ef fólk vill.  Á anddyrinu, eldhúsinu og baðherberginu eru dökkar smekklegar flísar, í stofunni og herbergjunum er parket og á stiganum er þykkt teppi.  Það mun vonandi koma í veg fyrir meiriháttar slys þegar Þórir fer að detta í stiganum.

Það er skemmst frá því að segja að húsið uppfyllti allar okkar óskir og vel það.  Við ákváðum því að láta slag standa.  Þarna, að 52 Rutland Avenue, skyldum við búa næstu 15 mánuði ef við gætum einhverju um það ráðið!  Leiguverðið var 650 pund á mánuði sem var innan þeirra marka sem við höfðum sett okkur.  Við biðum því ekki boðanna og komum okkur niður á skrifstofu leigumiðlunarinnar eins fljótt og við gátum því annað par hafði verið að skoða húsið rétt á undan okkur og við vissum ekki nema þau hefðu tekið sömu ákvörðun og við.  Gengið var frá pappírum, hringt í eiganda hússins og við fylltum út ýmis eyðublöð.  Eigandi hússins er læknir sem bjó þarna sjálfur þangað til hann fékk vinnu erlendis.  Sú vinna framlengdist nýverið og því er ekki von á honum heim á næstunni.

Allt í einu vorum við því komin með stórt hús í Lancaster og var ákveðið að við flyttum 15. júní næstkomandi, eftir einungis 12 daga!  Í heimaverkefni fengum við það að redda staðfestingu á því hvar við byggjum (Proof of Residency) og staðfestingu á framfærslu frá LÍN.  Í Bretlandi er engin kennitala úr þjóðskrá sem allir komast í eins og á Íslandi.  Hér er nafn og heimilisfang notað til að auðkenna þig í stað kennitölu á Íslandi.  Við þurftum því að redda „Proof of Residency"-pappírum frá einhverjum ábyrgum aðilum eins og banka, sveitarfélagi eða orkufyrirtæki sem sannaði að við værum virkilega Inga og Siggi og byggjum á West Powburn í Edinborg.  20090602 Lancaster Nýi háskólinn hans SiggaVið þurfum einnig að verða okkur út um bréf frá LÍN þar sem kemur fram hvaða framfærslu við verðum með næsta árið.  Þegar þetta er skrifað (á laugardegi) erum við búin að senda þeim staðfestingu á heimilisfesti, búin að senda beiðni á LÍN að útbúa bréf fyrir okkur, eigandinn er búinn að samþykkja okkur og við erum búin að fá í pósti til undirritunnar tvö afrit af leigusamningnum.

Hérna má finna myndir af nýju höllinni okkar.

Þetta er auðvitað mjög fyndið.  Við búum í tveggja herbergja íbúð í Reykjavík.  Ákváðum að gerast fátækir námsmenn í útlöndum og leigðum okkur þriggja herbergja íbúð í Edinborg og nú tveggja hæða hús með bílskúr og garði í Lancaster!  Það er alveg óskaplega erfitt að vera námsmaður í útlöndum! ;o)

Eftir þessa viðburðaríku tvo tíma í Lancaster ákváðum við að fara og skoða nýja skólann minn, Lancaster University Managment School (Viðskiptadeild háskólans í Lancaster).  Við höfðum heyrt í starfsfólkinu sem heldur utan um masterinn minn og þær buðu okkur hjartanlega velkomin í heimsókn.  Á þessum sólríka degi var allt auðvitað eins aðlaðandi og frekast gat verið.  Fólk lá í sólbaði út um allar trissur og brosti út í bæði.  20090602 Lancaster Nýi flotti háskólinn hans SiggaHúsin þarna eru öll meira og minna ný eða nýleg og viðskiptadeildin er í mjög nýtískulegu húsi þar sem öll aðstaða virðist vera eins og best verður á kosið.  Við hittum Söruh og Sian sem halda utan um ITMOC masterinn sem ég er í en Niall (næstum því eins og Njáll) sem stjórnar ITMOC var ekki við.  Þær voru mjög vinalegar, spjölluðu lengi og Sian fór meira að segja með okkur í gönguferð um svæðið.  Háskólasvæðið er í raun lítið bæjarfélag með alla þjónustu.  Þar búa hundruð manna í stúdentaíbúðum og þar eru banki, veitingastaðir, matvöruverslun o.fl. eins og í litlu bæjarfélagi.

Eftir frábæran, viðburðaríkan dag renndum við heim á leið í sólinni með Þóri Snæ syngjandi í aftursætinu.  600 kílómetrar og tveggja hæða hús er ekki svo slæmt dagsverk!

Fjórði ofursólardagurinn – Gengið á Arthur‘s Seat

20090601 Arthur's SeatLoksins loksins skelltum við okkur á fjallið Arthur‘s Seat sem er 270 metra hátt fell í miðri Edinborg.  Ferð á fjalli er búin að vera á döfinni í allan vetur en ekki orðið af því að við skunduðum á toppinn fyrr en nú.  Við lögðum í hann frá West Powburn með Þóri Snæ í bakpokanum.  Hann var ekki alveg sáttur í fyrstu þegar við settum hann í pokann en það lagaðist svo að segja strax.  Við gengum að suðurhlíðum fjallsins og gengum upp á öxlina en upp úr henni stendur síðan toppurinn.  Þórir seig nú svolítið í enda bakpokinn líklega um 20 kg með Þóri, farangri, bakpokanum sjálfum og öllu.

Þórir gekk síðan með okkur frá öxlinni, upp á topp þar sem við borðuðum nesti og aftur niður á öxlina.  Þetta er líklega 50-100 metra hækkun þannig að við vorum ansi ánægð með litla fjallagarpinn okkar.  20090601 Arthur's Seat - Litli fjallagarpurinn arkar á fjalliðÁ toppnum af afar fallegt veður, sól og blíða, og var þar slæðingur af fólki.  Þarna er fínt útsýni til allra átta þar sem tindurinn gnæfir yfir alla Edinborg.  Það var engu líkara en við höfum verið látin bíða með að fara þarna upp til þess að geta verið þarna á þessu fallega degi þar sem útsýnið var endalaust.

Þegar komið var niður á öxlina aftur var Þórir orðinn ansi þreyttur og vildi komast aftur í bakpokann.  Við skelltum honum því í pokann og gengum norður eftir fjallinu yfir að Holyrood Palace, fengum okkur ís þar og héldum svo áleiðis heim með stuttri viðkomu á Meadows leikvellinum en Þórir var orðinn alltaf þreyttur til að leika sér þar.  Við renndum því heim á leið eftir frábæran dag og 8,5 km göngu auk hækkunarinnar.20090601 Arthur's Seat - Inga og Þórir á toppnum!20090601 Arthur's Seat - Fjölskyldan á toppnum!


Þriðji í ofursól - Ströndin við North Berwick

20090531 North Berwick - Það var pláss merkt Kristófer í kjöltunni á Sigga sem Kristófer ákvað að nýta sér.Sólskinið hélt áfram.  Stórkostlegt veður með 20-30 stiga hita og glampandi sól allan sunnudaginn!  Við Íslendingarnir skruppum til North Berwick sem er mjög fallegur lítill bær um 40 km. austur af Edinborg.  Þar er til dæmis stór sjófuglamiðstöð sem meðal annars nýtir sér vefmyndavél sem þau hafa komið fyrir úti í eyjum töluvert langt frá landi og sýna „beina útsendingu" frá fuglahreiðrum.  Á ströndinni hittum við Iain, Marion og Kirsten nágranna okkur af hæðinni fyrir neðan.  Síðan eyddum við deginum í rólegheitum með Lindu, Agnesi, Rósu, Önnu, Hildi og krökkunum.

Kristófer Lindu- og Bjarnason virtist gera sér grein fyrir því að annað lærið á Sigga var merkt með nafninu hans. ;o) Þórir slóst þá bara í hópinn.

Þórir bast sérstöku ástfóstri við fólk sem hafði sests að ca. 7-8 metra frá okkar hóp.  Þau voru með töluvert af dóti sem Þóri fannst spennandi.  Þetta var mikið ljúflingsfólk og spjölluðum við töluvert saman.  Þau reyndust reka kúabú og selja mjólkurvörur í verslanir.  Athyglisvert og alltaf gaman að hitta fleiri af hinum vingjarnlegu Skotum!


Annar í ofursól - TASTE of Edinburgh matgæðingahátíðin

Á laugardaginn skein sól í heiði þegar við fjölskyldan skelltum okkur í Inverleith garðinn til að taka þátt í matgæðingahátíðinni TASTE of Edinburgh sem haldin er árlega í Edinborg.  20090530 Á TASTE of EdinburghÞetta er mjög skemmtileg hátíð.  Þarna koma fjölmargir framleiðendur gæðavara tengdum mat auk þess sem mörg af fínustu veitingahúsum Edinborgar setja upp eldhús í tjöldum á svæðinu og bjóða upp á smárétti að hætti síns veitingahúss.  Það er svona nett hvítutjalda-Þjóðhátíð-í-Eyjum-stemning yfir þessu þar sem mikið er lagt í innréttingar þessara tjalda þannig að glæsileiki viðkomandi veitingastaða fylgi þeim þarna út á tún með tilheyrandi gæðum á kokkum og mat.  Þarna voru einnig óteljandi vínframleiðendur, ostaframleiðendur, matarolíuframleiðendur, bændamarkaður með ýmiss konar landbúnaðarvörur, áhöld til matargerðar og fleira.  Það er selt inn á svæðið og við héldum að aðgöngumiðinn myndi gefa okkur aðgang að fullt af smakki.  Það var hins vegar minna en við héldum.  Þess í stað gat maður keypt hátíðarkrónur sem maður gat síðan notað í tjöldunum.  20090530 Á TASTE of Edinburgh - Balmoralsteikin og RínarvíniðVíðast hvar var líka hægt að nota alvörupeninga til að kaupa vörur en eingöngu var hægt að nota hátíðarkrónur (n.k. Matadorpeningar) í veitingatjöldunum.  Aðgangseyririnn virðist hafa gert það að verkum að fjöldinn á svæðinu varð ekki yfirþyrmandi eins og við héldum að hann yrði og t.d. komumst við allra okkar ferða með kerruna, okkur til mikillar ánægju og undrunar.

Við fengum okkur dýrindis hægeldaða smásteik að hætti Balmoral hótelsins við Princess Street.  Í eftirrétt fengum við okkur líka jarðaber með eplakrapi, súkkulaði og einhverju fleiru ljúfu.  Þetta var hrikalega gott, sérstaklega með franska Rínarrauðvíninu mínu sem ég varð mér út um á næsta bás og drakk með steikinni. Mmmm...

20090530 Á TASTE of Edinburgh - Aspasstúlkan 2009Í einum básnum keyptum við okkur lítinn disk sem nota má við að skera niður hvítlauk, súkkulaði og næstum hvað sem er.  Misstum okkur líka í potta- og pönnubás og enduðum með að ganga út með ofurpönnu úr títaníum sem ekkert á að festast við um aldur og ævi.  Við fáum hana senda í vikunni...eða vonum það alla vega.  Þá keyptum við svokallað „Beef olives" sem er nautakjöt vafið utan um pylsu.  Það var mjög gott og rann ljúflega niður loksins þegar við komum heim á laugardagskvöldið.

Eftir matarhátíðina gátum við ekki hugsað okkur að fara heim í góða veðrinu og skelltum okkur á ströndina í Musselburgh sem er í raun úthverfi austan við Edinborg.  Þar gengum við í flæðarmálinu og leyfðum Þóri að dýfa aðeins tánni í sjó.  Það endaði auðvitað með því að hann sleit sig lausan og stakkst beint á nefið ofan í sjóinn og varð sjóblautur frá toppi til táar.  Við renndum því heim á leið.


Fyrsti ofursólardagurinn - Portóbelloströndin

Undanfarna daga hefur verið frábært veður í Edinborg.  Alla síðustu helgi og fram á þriðjudag var 20-30 stiga hiti og glampandi sól allan daginn.  Það var því komið víða við.20090529 Þórir buslar á Portobello ströndinni

Á föstudaginn skelltum við okkur  á ströndina með Lindu, Bjarna, Agnesi, Rósu og Önnu og Hildi nágrönnum auk þess sem Jón Garðar leit við á í svolitla stund. Með þessum hópi fylgir síðan fríður skari barna.

Portobelloströndin teygir sig nokkra kílómetra meðfram norðurströnd Edinborgar.  Þarna hafa Skotar baðað sig svo öldum skiptir og má nefna að Sean Connery, hinn eini og sanni, var þarna sætur strandvörður á sínum yngri árum.

Við höfðum það óskaplega gott á ströndinni í góða veðrinu.  Krakkarnir léku sér í sandinum og sjónum og við fullorðna fólkið spjölluðum og hlupum á eftir krökkunum um alla strönd.  Þórir Snær er orðinn nokkuð öflugur í sjónum, finnst hann svolítið kaldur fyrst en er fljótur að jafna sig.  Þegar líða tók á daginn var hann farinn að vilja æða beinustu leið út í og hætti ekki fyrr en hann var kominn upp undir mitti þar sem hann hélt í höndina á pabba sínum.

Það var glaður, vindbarinn og þreyttur hópur sem kom heim á föstudagskvöldið eftir frábæran dag.


Fullt af nýjum myndum á Barnalandi!!!

Vorum að setja inn á Barnalandssíðuna fullt af nýjum myndum frá því í apríl.  Enn fleiri verða settar inn á næstu dögum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband