Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
Krakkamorgun í hverfinu
30.9.2009 | 12:32
Við Þórir Snær skelltum okkur á krakkamorgun (toddler morgning) hér í hverfinu í morgun. Þarna voru um 20 til 30 börn í bland við mömmur og ömmur. Þórir Snær skemmti sér svakalega vel og naut þess að hlaupa um og leika sér með "nýtt" dót. Ég notaði tækifærið og spjallaði við aðrar mömmur og var svo heppin að hitta eina sem býr hér í sömu götu og við. Þau fjölskyldan eru nýflutt til Lancaster, pabbinn kennir við Lancaster háskóla og mamman er heim með börnin tvö sem eru 3ja ára og 10 mánaða. Við skiptumst á númerum og ætlum að vera í sambandi, vonandi að fara eitthvað út að ganga, með krakkana á leikvöll eða bara heimavið að leika og spjalla.
Alltaf gaman að kynnast nýju fólki og ekki verra þegar það býr við sömu götu og við.
Hamingjutímar í kotinu
28.9.2009 | 23:12
Nýjustu fréttir eru þær að ég er búin með mastersritgerðina mína og þar að auki búin að skila henni inn í Edinborg. JÚHÚ!!! Já þetta er óskaplega skemmtilegt og góð tilfinning.
Við skelltum okkur því í ferð til Edinborgar síðastliðinn fimmtudag og komum aftur heim undir miðnætti á laugardagskvöldið. Við fengum gistingu hjá vinum okkar þeim Lindu og Bjarna, sem tóku æðislega vel á móti okkur. Þórir Snær var alveg í skýjunum þar sem á heimilinu eru krakkar, Kolbrún 15 ára, Eyvindur 8 ára og það sem Þóri þótti best eru þau Margrét sem er ári eldri en hann og Kristófer sem er ári yngri. Það var því töluverður galsi og mikil gleði. Á tímabili héldum við að Þórir ætlaði að setjast að
Á föstudagsmorguninn kom í ljós að við höfðum lagt ólöglega og bíllinn hafði verið dreginn í burtu, líklega hefur einhver í nærliggjandi húsum hringt og látið draga hann. Eftir nokkurn tíma í símanum var bílinn fundinn og kostnaðurinn við að leysa hann út kominn í ljós... ÚFF!!!
Á meðan feðgarnir fóru að ná í bílinn fór ég í skólann til að skila ritgerðinni. Ég fékk frábærar móttökur með hamingjuóskum fyrir bæði ritgerðarskilin og ekki síður bumbuna sístækkandi. Nokkrir höfðu orð á því að nú færi að styttast í fæðingu en þegar ég bendi á að það væru u.þ.b. fjórir mánuðir eftir af meðgöngunni þá datt andlitið hreinlega af fólki þar sem bumban er býsna vígaleg.
Dagurinn fór svo í að kíkja í búðir ásamt því sem við fórum út að borða í hádeginu til að halda upp á áfanga frúarinnar. Um kvöldið var "skvísukvöld" þegar ég ásamt Edinborgar-dömunum fórum út að borða og á pub. Ótrúlega gaman að eiga gott stelpukvöld, langt síðan ég hef átt svoleiðis
Á laugardeginum fórum við í IKEA og COSTCO þar sem við náðum okkur í birgðar, að því loknu héldum við í veislu til Lindu og Bjarna þar sem meðal annars var boðið upp á Guinness-súkkulaðiköku....namminamminamm það er ljóst að sú kaka verður bökuð á heimili okkar hjóna í framtíðinni. Algjört æði!!!
Um kvöldið keyrðum við heim á leið frá Edinborg eftir A 702 niður á M6 hraðbrautina sem liggur hér framhjá Lancaster. Gott að koma heim eftir góða ferð.
Sunnudagurinn fór í yndislega leti hjá okkur öllum
Í dag mánudag, hefst kynningarvika í háskólanum hér í Lancaster og Siggi því með skipulagða dagskrá fyrir næstu daga sem eru góð blanda af skemmtun og alvöru.
Það fyndna er að ég sem er nýbúin með lokaritgerðina mína og ósköp sátt við það er svolítið "öfundssjúk" útí Sigga að vera byrja í sínu námi og eiga það eftir. Ætli ég skelli mér ekki bara í annan master við tækifæri...kemur í ljós
Ritgerðarskrifin
11.9.2009 | 20:05
Lokaritgerðin í mastersnáminu mínu er að klárast...allavega á næstu 2 vikum. Ég gat því miður lítið sem ekkert unnið í júní og júlí sökum ógleði og annarra fylgikvilla meðgöngunnar. En sem betur fer lauk því nú og ég komst á skrið í skrifum. Í augnablikinu er ég að klára að skrifa um niðurstöður rannsóknarinnar sem ég framkvæmdi, mikið er nú gaman að skrifa um efni sem vekur áhuga manns.
Allavega ég stefni á að klára öll skrif um miðja næstu viku, gef mér svo viku til 10 daga í yfirlestur og frágang áður en við rennum til Edinborgar þar sem ég skila lokaritgerðinni minni. Þá verður þetta ársnám á enda og námsárið hans Sigga tekur við þann 1. október næstkomandi. Þetta passar því ljómandi vel saman hjá okkur.
Ég hlakka til að skrifa hér inn þegar ritgerðin verður búin og ég komin í hlutverk hinnar heimavinnandi húsmóður á ný. Mikið verður það ljúft
20 vikna sónar í gær
8.9.2009 | 21:35
Þá var komið að því að kíkja á krílið í bumbunni, athuga hvort allt væri eins og lagt var upp með einnig sem við hjónin vorum búin að ákveða að sjá hvort um strák eða stelpu væri að ræða. Veðrið var gott of við förum gangandi með Þóri Snæ í kerrunni...vonum innilega að hann sofni og sofi meðan á sónarnum stendur. Það gekk eftir að hluta. Þórir sofnar og við förum á sjúkrahúsið þar sem skoðunin fer fram. Við förum inn í skoðunarherbergi og ég skelli mér á bekkinn. Sú sem skoðar er einstaklega ljúf of viðkunnaleg. Sónarinn hefst og gengur vel, allt er eins og það á að vera. Þetta er nákvæm skoðun og margt sem er athugað. Þegar kemur að því að skoða hryggsúluna þá er krílið ekkert á því að "hlýða" og liggur sem fastast á bakinu. Þurfti hinsvegar að liggja á grúfu, þ.e. með bakkið í átt að kviðveggnum hjá mér. Sónarkonan soyr hvort við séum í tímaþröng eða hvort möguleiki sé á því að við kæmum aftur eftir 30 mínútur. Ekkert mál.
Næstu 30 mínúturnar erum við á göngu, Þórir vaknar og fáum okkur aðeins í svanginn, ég reyni að vera á hreyfingu eins mikið og ég get til að fá barnið til að snúa sér. Aftur erum við kölluð inn í skoðunarherbergið og aftur liggur krílið sem fastast á bakinu. Þórir finnst þetta verulega fúlt og kvartar hástöfum. En það er greinilegt að við eigum von á öðru ákveðnu barni eða þrjósku allt eftir því hvað fólk kýs að kalla það. Siggi segist alveg vita hvaðan sú þrjóska komi og horfir kankvís á mig þar sem ég ligg á bekknum. Jú jú ég neita því ekki ég er ósköp þrjósk þegar þannig stendur á, bæði kostur og galli. Allavega ekki tókst að skoða hrygginn svo aftur spyr sónarkonan hvort við getum komið aftur eftir 15 mínútur og gera þriðju tilraun í að skoða hrygginn. Jú jú ekkert mál, við förum fram á biðstofuna þar sem feðgarnir lita og lesa bækur en ég læt öllum illum látum. Hoppa, sveifla mér til hliðanna, hristi bumbuna og að lokum kem ég mér fyrir á fjórum fótum og blaða í tímaritum.
Í þriðja sinn er ég kölluð inn í skoðunarherbergið. Og það tókst eftir allan hamaganginn á biðstofunni þá var krílið búið að skipta um stellingu og hryggurinn sást vel og allt í fína með hann eins og allt hitt sem skoðað var.
Nú vitum líka að við að við eigum von á stelpu í ca. 22. janúar næstkomandi. (Allavega er það 90-95% öruggt að um stelpu sé að ræða).