Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
Stóri sexkantadagurinn - Þórir stóri strákur flytur frá pabba og mömmu
24.8.2009 | 02:22
Miðvikudagurinn fór í það að sveifla sexköntum. Ætlunin var að Þórir flytti út úr mömmu-og-pabba-herbergi um kvöldið. Við feðgarnir settum saman leikfangaskáp úti í garði í sólinni og rétt náðum að klára hann áður en það fór að rigna. :) Næst var það nýja rúmið hans Þóris. Þórir hjálpaði pabba sínum að setja IKEA-stautana í götin og síðan var allt skrúfað saman.
Eftir að hafa endurraðað í herberginu varð úr þetta líka fína barnahergi. Um kvöldmatarleytið ætluðum við í búðina en Þórir steinsofnaði í aftursætinu. Við ákváðum að ísskápurinn myndi duga til morguns og renndum heim með kappann. Hann rumskaði ekki þegar við bárum hann upp í nýja Þórisrúmið sitt í nýja Þórisherberginu sínu. Fyrsta nóttin í nýja herberginu gekk eins og sögu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lengri leiðin til Manchester, kýr, Íslendingar og IKEA-ferð aldarinnar!
23.8.2009 | 23:12
Þriðjudagurinn 18. ágúst var flakkdagur. Þá var ákveðið að leggja land undir hjól og skella sér í bíltúr. Ferðinni var heitið til Manchester og stefnan tekin á IKEA, Costco og almennt að skoða sig um. Inga hafði legið á netinu og komist að þeirri niðurstöðu að í Manchester væri ekki mjög mikið að sjá annað en pöbbar og verslunarmiðstöðvar sem skýrir líklega hvað Íslendingar hafa verið ánægðir með þá borg undanfarin ár. ;)
Við ákváðum að fara lengri leiðina til Manchester og létum Google Maps leiða okkur um sveitirnar eins langt frá hraðbrautunum og við komumst. Við renndum niður til Preston og sveigðum þar í austurátt, undir M6 hraðbrautina og áleiðis inn í landbúnaðarhéruðin og upp á heiðar. Þarna vorum við aldeilis komin á kaf í ensku sveitirnar sem eru fallegar og skemmtilegar og oft mjög gaman að keyra í gegnum þær enda fullar af gróðri og oft frekar þröngum vegum sem hlykkjast með fram hlöðnum veggjum sem margir líta jafnvel út fyrir að vera mörg hundruð ára gamlir. Norðurhéruð Englands eru mikil fótboltahéruð og oft líta vegaskiltin út eins og listi úr íþróttafréttunum þar sem kunnugleg heiti úr enska boltanum skjóta oft upp kolli. Við renndum til dæmis í gegnum Blackburn sem lítur út fyrir að vera hinn vinalegasti bær.
Inga fór hamförum á kortinu og þegar komið var svolítið yfir hádegi fórum við að líta í kringum okkur eftir ekta enskri sveitakrá til að snæða. Þar urðum við ekki fyrir vonbrigðum þegar nokkrum beygjum síðar birtist Owd Betts, sveitakrá sem skírð er eftir Betty nokkurri sem rak staðinn á seinni hluta nítjándu aldar til dauðadags 1893. Þar borðuðum við alvöru enskan sveitamat, Lancashire hot pot, sem er pottréttur með kjöti, lifur, lauk og fleiru í brúnni sósu og "ömmusteikt" roast beef að hætti sveitunga með Yorkshire pudding. Skammtarnir voru risavaxnir og væntanlega ætlaðir vinnumönnum úr grenndinni.
Frá Owd Betts renndum við gegnum sveitirnar til Manchester úr norðurátt og stoppuðum næst í Heaton Park í Manchester. Þarf skoðuðum við húsdýr og var Þórir mjög hrifinn af þeim, sérstaklega kú sem kom sérstaklega út úr húsi til að heilsa upp á hann og baulaði eftirminnilega. Þarna göluðu líka hanar í löngum bunum auk þess sem svo virtist sem útivistardagur gyðinga væri þennan dag því strangtrúaðir gyðingar flykktust þarna um með flétturnar sínar í hárinu. Á leiðinni út hittum við á íslenska konu sem var þarna með breskum manni sínum og börnum og gengu þau á okkur þegar þau heyrðu íslenskuna. Hún sagðist ekki vita af mörgum Íslendingum í Manchester utan stúdenta sem kæmu og væru eitt ár í senn.
Eftir útiveruna héldum við í IKEA þar sem markmiðið var að kaupa rúm og leikfangaskáp fyrir Þóri Snæ sem á þessum tímapunkti vissi ekki að hann var að fara að flytja úr herbergi foreldra sinna enda orðinn STÓR strákur. Við létum greipar sópa um búðina þangað til komið var að því að flytja allt saman heim á leið. Þá þökkuðum við fyrir að hafa valið bílinn með stærsta skottið! Það var því þétt pakkað og Þóri fannst þetta nokkuð sérstakt þar sem hann sat hinum megin við flata IKEA pakkann og sá pabba sinn í gegnum hrúguna. Klukkan var orðin margt þegar við renndum í Rutlandið okkar aftur eftir að hafa rennt í gegnum Manchester og tekið hraðbrautina heim. Frábær dagur en Costco bíður betri tíma.
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.8.2009 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðlegi sólarhringurinn
11.8.2009 | 23:14
Inga hefur átt stórleik í dag! Fyrir utan það að ná markmiði sínu og klára kafla í ritgerðinni þá hélt hún áfram með þjóðlega sólarhringinn í myndarskap.
Í matinn í gærkvöldi var semsagt grjónagrautur og kanilsykur eftir að Inga hafði fyrr um daginn sett í muffins milli efnisgreina í ritgerðinni. Í morgun borðuðum við feðgarnir hafragraut og lýsi eins og við gerum flesta morgna, seinni partinn voru grautarlummur á boðstólnum með frumraun Ingu í rabbabarasultugerð en Inga lét slag standa og sauð sultu fyrr í dag. Þjóðlega sólarhringnum lauk síðan með soðnum fiski og ísblómi í kvöldmatinn.
Þann tiltölulega stutta tíma í dag sem við vorum ekki borðandi tókum við því rólega heima eftir göngudag gærdagsins hjá okkur feðgum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vatnaleiðin, Dan, Ben og grjónagrautur
11.8.2009 | 23:14
Um Bretland þvers og kruss liggur mikið og merkilegt síkjakerfi (canals). Þetta kerfi hefur um aldir flutt fólk og vörur, þ.m.t. kol frá kolanámum um allt Bretland og Bretar tala stundum um kerfið sem vatnsvegi (waterways). Í dag er þetta að miklu leyti nýtt fólki til skemmtunar og kaupir það sér báta og rúntar á þeim um landið, oftast nær eins og í sumarbústað. Sumir búa þó í bátunum allt árið um kring.
Til að komast af árbakkanum upp á brúnna þarf að klífa ansi langan og brattan stiga, örugglega 50 þrep. Ég var hálfnaður upp með kerruna þegar kona kom á eftir mér og hjálpaði mér að bera hana restina. Sú fékk heldur betur aukahreyfingu þann daginn. :) Fólkið hér í Lancaster virðist vera mjög hjálplegt. Konan hjálpaði mér upp með kerruna og nágrannakona okkar lánaði okkur sláttuvélina sína þegar við komum hingað fyrst. Þetta er smábæjarhlýleikinn.
Við feðgar gengum síðan meðfram síkinu til baka inn í borg. Þetta er mjög falleg og skemmtileg leið og gaman að mæta reglulega bátum sem áttu leið hjá. Við enduðum daginn á leiksvæði inni í borg þar sem Þórir sullaði í pollunum og bleytti sig ennþá meira því hann hafði miklu frekar viljað ganga í blautu grasinu meðfram síkinu en á göngustígnum.
Á leiksvæðinu hittum við þá feðga Dan og Ben sem höfðu flutt til Lancaster fyrr um daginn. Sambýliskona Dan, hún Bella, var heima að taka upp úr kössum. Við spjölluðum heilmikið og Þórir lék sér við Ben. Þórir vildi ólmur knúsa strákinn sem tók vel í það í fyrstu en fannst þó nóg um þegar Þórir vildi halda áfram knúsinu. Pabbanum, Dan, fannst þetta mjög fyndið og hafði það á orði að loksins hefði Ben fundið einhvern sem væri enn meira fyrir knús en hann sjálfur! Við skiptumst á símanúmerum og verðum örugglega í sambandi. Verandi öll nýflutt til Lancaster og bæði með tveggja ára stráka þá eigum við nú ýmislegt sameiginlegt.
Vinnumynstur þeirra Dan og Bellu er svolítið lýsandi fyrir Bretland að því sem ég hef heyrt frá mörgu fólki. Hann vinnur mikið heima en fyrir fyrirtæki sem starfar í Cumbria, þ.e. í Lake District vatnahéruðunum 40 km norður af Lancaster. Bella vinnur fyrir fyrirtæki í Manchester sem er 100 km í suður. Þau ákváðu að setjast að í Lancaster þar sem það væri miðja vegu. Bella tekur lestina í vinnuna 3 daga í viku. Ben verður á leikskóla 3 daga í viku, Bella með hann einn dag í viku og Dan sér um hann einn dag í viku. Leikskólagjöld í Bretland eru rosalega há. Við vorum svolítið að skoða þetta í Edinborg og komumst að því að það kostaði hátt í þúsund pund (um tvö hundruð þúsund íslenskar krónur) að hafa barn á leikskóla fimm daga vikunnar allan daginn. Fólk þarf því að hafa ansi háar tekjur til að það borgi sig að báðir vinni úti. Margir sem eiga fleiri en eitt barn ráða sér frekar barnfóstrur því það er einfaldlega ódýrari lausn. Skólakerfið hérna byrjar þó þegar barnið er 4 ára og er foreldrum að mestu að kostnaðarlausu nema ef fólk skráir börnin sín í einkaskóla sem verðleggja sig upp í hið óendanlega og hefur orðstýr og snobb þar mikið að segja.
Það var gott að koma heim eftir 7-8 km. göngu með rennblautan strák og fá grjónagraut hjá Ingu. Góður dagur. Könnunarleiðangur um svæði í Lancaster þar sem við höfðum ekki komið áður.
Vinir og fjölskylda | Breytt 23.8.2009 kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)