Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Fullt af nýjum myndum á Barnalandi!!!

Vorum að setja inn á Barnalandssíðuna fullt af nýjum myndum frá því í apríl.  Enn fleiri verða settar inn á næstu dögum.

Í saltan sjó

Skelltum okkur á ströndina í gær.  Komum við á McDonalds og fórum með matinn á Portobelloströndina til að gæða okkur á kræsingunum með almennilegu útsýni.  Veðrið var fínt, sól og hlýtt þannig að við trítluðum svolítið á tásunum í flæðarmálinu, lékum okkur með skóflu og fötu og Þórir Snær elti hunda sem voru þarna út um alla strönd.

Fyrst var Þórir Snær frekar óöruggur gagnvart því að vaða út í sjóinn, líklega fyrst og fremst vegna kulda.  Fljótlega fannst honum þetta þó spennandi og náði spennan hámarki þegar hann tók á rás út í sjó.  Hann var þó ekki kominn nema rétt um hnédýpt þegar hann steyptist á kaf í sjóinn.  Við vorum að sjálfsögðu með honum, kipptum honum upp og klæddum hann úr fötunum og fjarlægðum sjóblauta bleiuna.  Þóri fannst þessi bleyta skrítin á fötunum og brá hálfpartinn.  Var auðsjáanlega ekki búinn að gera sér grein fyrir því að sjórinn var blautur.  Það kemur líklega með nokkrum svona byltum.

Hann þornaði þó fljótt í fanginu á pabba sínum í sólinni og var fljótlega farinn að hlaupa um á nýrri bleiu.  Þórir hefur því kannski ekki mýgið í saltan sjó en hann hefur hins vegar dottið í hann og lyktaði af sjávarseltu fram eftir degi þegar við komum loks heim og hann fór í bað.  Er nokkuð íslenskara en að lykta af sjávarseltu?


Í syngjandi sveiflu!

Þórir Snær gengur nú um íbúðina syngjandi alla daga og á leiðinni úr safarí garðinum á sunnudaginn söng hann megnið af leiðinni.  Skemmtilegt!! Smile

Leigjendurnir hættir við að koma!

Fengum nýjar fréttir í gær af leigumálum.  Nýju leigjendurnir sem ætluðu að koma 9. júní eru hættir við, fundu sér minni og ódýrari íbúð einhvers staðar í borginni.  Við ráðum því hvort og hvenær við yfirgefum Edinborgina.

Við erum búin að vera að skoða leigumarkaðinn í Lancaster.  Svo virðist sem við séum að fá parhús með garði og jafnvel bílskúr fyrir svipaða leigu og við erum að greiða fyrir þriggja herbergja íbúðina okkar hér, þrátt fyrir að við séum að greiða lága leigu samanborið við aðra í Edinborg.  Það er svolítið freistandi.

Eftir vangaveltur undanfarinna vikna er eiginlega kominn ferðahugur í okkur og okkur langar að fá garð fyrir sumarið og leikföng í garðinn þannig að Þórir geti verið úti að leika sér án þess að við þurfum alltaf að vera með.  Við munum því líklega kýla á flutning til Lancaster í júní þrátt fyrir nýjustu fréttir.  Þó verður það líklega meira á rólegri nótunum og án þess að við þurfum að flytja inn á Önnu nágranna í millitíðinni.

Við munum hins vegar kveðja Edinborg með söknuði.  Hér hefur okkur liðið sérstaklega vel og hér höfum við kynnst algerlega frábærum vinum, bæði íslenskum, skoskum og víðar að.  

Dagmar og Geir ætla að koma frá Aberdeen og vera hjá okkur um helgina.  Þá ætla Íslendingarnir að hittast á laugardagskvöldið hjá Ragga og Agnesi í grilli og Eurovisionpartýi auk þess sem stefnan er tekin á safarigarð á sunnudaginn þar sem keyrt er á milli ljónanna.  Eins gott að opna ekki gluggann! 


Aftur og aftur...

Venjulega erum við inni hjá Þóri Snæ þangað til hann sofnar á kvöldin.  Siggi ákvað að taka slaginn í kvöld og fór út áður en Þórir sofnaði.  Þá kom berglega í ljós að drengurinn er engin lufsa.  Hann kom fram eitthvað á bilinu 30 til 40 sinnum, ekki sáttur, og jafn oft fór Siggi með hann aftur inn.  Að lokum, stuttu fyrir miðnætti, varð þreytan þrjóskunni yfirsterkari.  Maður gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. ;o)


Loksins loksins...

Restin af marsmyndunum er komin inn á Barnalandssíðuna, þ.e. frá 11. mars.  Apríl kemur síðan á næstunni.


Þórir Snær ferðalangur!

Þórir Snær er orðinn ansi ferðavanur þótt hann sé ekki nema 22 mánaða. Hann hefur búið í Reykjavík, Edinborg og er á leiðinni til Lancaster. Hann hefur ferðast í bílum, lestum, neðanjarðarlestum, skipi, breskum leigubílum, innanlandsflugi, millilandaflugi og komið til Íslands, Færeyja, Noregs, Frakklands og Skotlands, að ekki sé minnst á að hann hefur farið á bilinu 2.500 - 3.000 km í kerrunni sinni! Geri aðrir betur á 22 mánuðum! ;o)

Kominn inn í Lancaster

Var að fá póst áðan...

5 May 2009

Dear Mr Sigurdur Ulfarsson

Further to your application for the MSc in Information Technology, Management & Organisational Change programme, we are very pleased to recommend that you be made an unconditional offer for a place on the programme commencing October 2009.

We have therefore forwarded your application to our Central Postgraduate Admissions Office and, subject to their approval; you should receive an official unconditional offer letter from them within the next few weeks.

This official offer letter will also enclose an acceptance form for you to complete to inform us if you want to accept or decline the offer.  If you wish to accept we ask that you return your acceptance form and deposit of £500 within 21 days after receipt of your official offer from the University. Please send this to the Management School Admissions Office.

The programme fees for 2009/10 are UK/EU students: £7,000 (GBP), Overseas (non-EU) students: £11,700 (GBP).

We hope that you accept this offer of a place on this popular Master's programme and that we will be able to welcome you to Lancaster in October 2009.

If you have any queries whatsoever, please do not hesitate to contact the Management School Admissions Office at ITMOCadmissions@lancaster.ac.uk

With best wishes

Yours sincerely,

 


Sarah Patterson
Faculty Admissions Officer (Postgraduate)

Cc: Central Postgraduate Admissions Office

Find out about our MSc in Information Technology, Management & Organisational Change
http://www.lums.lancs.ac.uk/masters/itmoc/


Óvissa og ævintýri litlu fjölskyldunnar

Fengum óvæntar fréttir í dag.  Leigusalinn okkar tilkynnti okkur að nýju leigjendurnir væru búnir að panta sér flug þann 9. júní til Edinborgar.  Það væri því fínt ef við yrðum farin ca. viku fyrr!  Við komum algerlega af fjöllum!  Við fórum með leigusölunum okkar, sem er mikið sómafólk, í gönguferð 30. desember og spjölluðum þá um það hvað væri á döfinni og þar fram eftir götunum.  Þá vorum við að spá í að fara til Íslands í maí og vera þar þangað til við héldum áfram til Ameríku í lok sumars.  Þetta var áður en ég sótti um skólana og löngu áður en við vissum að masterinn sem ég sótti um í Lancaster í mars væri yfirhöfuð til.

Þau virðast hins vegar hafa tekið þessar vangaveltur fullbókstaflega því þau hafa gengið út frá því að þetta væri planið.  Við höfum hins vegar síðan smám saman komist á þá skoðun að vera bara hérna í Edinborg í sumar og fara síðan beint þangað sem við ætluðum að búa í vetur, sem líklega verður í Lancaster fáist jákvæð niðurstaða þaðan.

Ég sendi þeim póst áðan og spurði hvort það væri einhver leið út úr þessu önnur en að yfirgefa íbúðina í lok maí?  Við eigum reyndar svo gott að það er búið að bjóða okkur að vera, bæði hjá Önnu og Hildi hérna í næstu íbúð og hjá Lindu og Bjarna sem búa hér stutt frá.  Takk fyrir það öll sömul.  Það er gott að eiga góða að.  Við sjáum hvernig þessu öllu ríður af á næstu dögum.

Hvað skólamál varðar er ég eins og áður sagði búinn að fá "Já" frá háskólanum í Dayton, Ohio fyrir nokkru síðan.  Núna í síðustu viku fékk ég síðan neikvætt svar frá "Full time MBA" í háskólanum í Alabama en þeir buðu mér að flytja umsóknina mína yfir í "Executive MBA" deildina hjá sér.  Þar er um að ræða "Háskólanám með vinnu" prógram sem væri mjög athyglisvert.  Ég mætti reyndar líklega ekkert vinna í Ameríkunni en gæti þá tekið aukakúrsa í staðinn, t.d. þá sem snúa beint að viðskiptagreind (business intelligence) og ég hafði hugsað mér að taka í "Full time MBA"-inu þar sem mér var hafnað.  Þetta er líka spennandi vegna þess að þá væri ég með fólki sem væri að koma af vinnumarkaðnum í stað þess að hluti samnemenda minna væri að koma beint úr námi.  Vandamálið við þetta er að það er skipulagt öðruvísi.  Það er ekkert sumarleyfi heldur er náminu dreift á vetur-sumar-vetur í stað vetur-vetur í dagskólanum og það veldur því að hver önn nær ekki fullu námi eins og Lánasjóður íslenskra námsmanna skilgreinir það.  Ég fengi því ekki fullt námslán nema að ég næði að bæta við mig meira námi.  Ég var í símaviðtali við tvær konur frá EMBA í Alabama sem eru að skoða umsóknina mína og síðustu dagar hafa farið í að svara ritgerðarspurningum frá þeim sem ég sendi í gær.  Svo er bara að bíða og sjá hvort ég fái já eða nei þaðan.

Ég hafði loksins samband við Lancaster í síðustu viku. Ég hefði betur gert það fyrr en vegna þess að þeir óska eftir því að maður sé ekki að hringja of mikið í þau á meðan á valferlinu stendur, þar sem það tefji fyrir, þá beið ég fram yfir páska.  Ég heyrði hinsvegar á tóninum í þeirri sem svaraði að umsóknin mín hafði klárlega lent milli skips og bryggju einhvern veginn og hún sagðist setja hana í forgang eftir að ég benti henni á að búið væri að samþykkja mig í Ohio.  Ég hringdi síðan aftur núna á fimmtudaginn, þar sem þau höfðu ætlað að gefa mér svar í þessari viku, og þá var augljóst á því hvernig hún talaði að hún var ekkert búin að gera, þótt hún segði það ekki beint.  Hún virðist þó eitthvað hafa vaknað til lífsins því hún sendi mér tölvupóst seinna um daginn og tilkynnti mér að hana vantaði einkunnablað úr HR og 2 meðmælabréf.  Ég kom henni í skilning um að hvort tveggja væri komið til hennar fyrir löngu.  Þá sá ég að hún sendi gögnin mín á einhverja skólaskrifstofu í Lancaster þannig að þau eru vonandi loksins að fara að gera eitthvað í mínum málum.  Konan lofaði að ég fengi niðurstöðu núna eftir helgina.

Þar sem ég er búinn að ýta umsókninni í Ohio á undan mér í dágóðan tíma án þess að taka afstöðu til þess hvort ég tek því boði eða ekki þá er mikilvægt að ég fari að fá niðurstöðu í Lancaster þannig að ég missi ekki plássið í Ohio og sitji þá hugsanlega uppi með ekki neitt.  Það væri versta mögulega niðurstaða.  Ég hafði samband við Ohio vegna þessa og þeir gáfu mér umhugsunarfrest út maí þannig að ég þarf ekkert að óttast alveg á næstunni. 

Ef niðurstaðan frá Lancaster verður jákvæð þá erum við líklega að fara að flytja til þangað í lok maí eða seinna í sumar ef eitthvað breytist varðandi íbúðina.  Ef hún verður neikvæð þá erum við líklega að fara að panta pláss í Norrænu til Íslands, a.m.k. eftir atburði dagsins varðandi leigusalana.  Þá keyrum við væntanlega til Danmerkur og hittum Kristófer, með viðkomu í Brussel hjá Rósu og Marwan, áður en við höldum um borð í Norrænu og verðum á Íslandi í sumar þangað til við höldum vestur um haf í lok sumars.

Okkar háttur er viðtengingarháttur þessa dagana.  Óvissa er nú samt svolítið skemmtileg, svona þar sem við vitum a.m.k. að ég er pottþétt kominn inn í skólann í Ohio þannig að versta mögulega niðurstaða er að flytja til Íslands í sumar og þaðan til Ohio í haust.  Það er nú bara stórfín niðurstaða og því ekkert að óttast.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband