Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Kvenfélagskaffi, bændamarkaður og bíltúr

Vorum dugleg í dag.

Vorum komin út um ellefuleytið og byrjuðum á að mæta í kvenfélagskaffi sem við höfðum séð auglýst við kirkju hérna við endan á götunni.  Þetta var svona dæmigert kvenfélagskaffi, gamlar brosmildar konur að selja handavinnu, þrívíddarjólakort, kaffi og með því.

Urðu óskaplega hrifnar af okkur og þá sérstaklega Þóri Snæ sem átti auðvitað svæðið.  Fannst frábært að við skyldum líta við.  Sáum þarna líka að það eru "mömmumorgnar" í kirkjunni á miðvikudagsmorgnum.  Feðgarnir þurfa að kíkja þangað við tækifæri svo barnið hitti einhverja aðra en mömmu sína og pabba!     ...hann getur þá líka kynnst "the other housewifes"! Wink

Skotar eru óskaplega vinalegt fólk.  Þeir taka vel á móti manni, eru sífellt brosandi til Þóris Snæs úti í búð og úti á götu, víkja fyrir barnakerrunni og fá mann til að finnast maður velkominn í nýja landinu.  Það skiptir miklu máli.

Eftir kvenfélagskaffið skelltum við okkur á bændamarkað sem haldinn er alla laugardaga í nágrenni Edinborgarkastala.  Stórskemmtilegt!  Smökkuðum fullt.  Keyptum nautakjöt, brauð, jarðaber og karamellusósu sem allt átti uppruna sinn til skoskra bændabýla.  Þarna var til dæmis seldur hafragrautur sem skyndibiti, kanínukjöt sem við þurfum að prófa næst, ýmiss konar ostar, kjöt, sultur, sápur og margt fleira.  Óskaplega skemmtilegt og vinalegt fólk.  Við förum þarna klárlega aftur.

Fórum niður í bæ á bílnum til að spara tíma.  Lögðum nokkrum götum frá mílunni.  Vakti athygli okkar að bílastæðið kostaði 2 pund (300 kr.) klukkutíminn!  Hæsta verðið í Reykjavík er helmingi lægra, 150 kr. á klukkustund á dýrasta svæðinu.

Skelltum svo á skeið.  Tókum á okkur rögg og lögðum til atlögu við Edinborg By-Pass hraðbrautina.  Höfðum ætlað að keyra þá braut á leið hingað frá Scrabster en villtumst í gegnum miðbæinn.  Síðan þá höfum við gert a.m.k. eina tilraun til að komast upp á þessa götu en beygðum þá líka vitlaust.  Nú gekk hins vegar allt að óskum og við keyrðum út úr Edinborg til austurs á sjálfri Edinborg By-Pass.  Gerum því ráð fyrir að okkur takist að endurtaka leikinn á þriðjudaginn og komast til Glasgow að ná í Úlfar og Hönnu sem ætla að vígja svefnsófann að West Powburn.

Tókum góðan bíltúr meðfram ströndinni í austur frá Edinborg í gegnum fjölda fallegra þorpa og sveita og enduðum í sjófuglamiðstöð í North Berwick, afar fallegum bæ utarlega á ströndinni.  Gengum aðeins um bæinn áður en við héldum í hann heim og tókum hring í gegnum skosku sveitirnar.

Settum í dag bensín á bílinn í fyrsta skiptið síðan við vorum í Færeyjum fyrir þremur vikum síðan.  Bensínlítrinn kostar um 1,1 pund og er því um 166 krónur miðað við gengi í dag.  Frábært hvað við erum að nota bílinn lítið þótt við förum á honum það sem við þurfum.  Meira en 2/3 hlutar akstursins á þessum tanki var ferðin frá Scrabster til Edinborgar.  Samt höfum við ekki þurft að taka bensín í þrjár vikur.  Jibbí!

Á morgun er stór dagur.  Inga á að mæta í skólann í fyrsta skiptið.  Reyndar ekki í kennslu, heldur er móttaka (Welcome Ceremony) og alþjóðadagur (International Day).  Næstu daga fjölgar síðan viðburðum smám saman þar til kennsla hefst formlega mánudaginn 22. september.  Frú Ingu hlakkar mikið til! Happy


Þórir í stuði!!!

Nú er Þórir Snær farinn að ganga um allt eins og herforingi, syngur og trallar og blakar eyrunum.  Nokkur myndbönd af kappanum vegna fjölda áskorana...það langar engan að vita hvað við fullorðna fólkið erum að gera...

Síðan á laugardaginn.  Þórir á fleygiferð um stofuna, enn svolítið valtur á fótunum.

 

 

Þórir stigamaður!  Við búum á 3. hæð og Þórir er búinn að þróa aðdáunarverða tækni við að renna sér niður stigann á maganum.  Maður þarf að hafa sig allan við til að halda í við hann.

 

Það er fullt af görðum í Edinborg og í sumum þeirra eru leikvellir, jafnvel með leiktæki fyrir þau yngstu.  Á mánudaginn gengum við meðal annars í gegnum garðana við Princes Street neðan við Edinborgarkastalann þar sem Þórir fékk svolítið að spretta úr spori.

 

Líf og fjör við matarborðið við West Powburn. 

Góða skemmtun! Smile

Ps. Þess má geta að heimilisfaðirinn er þessa dagana að mastera Windows Movie Maker! Wink


Það skoskasta af öllu skosku

Horfðum á heimsmeistaramótið í sekkjapípuleik í sjónvarpinu í kvöld.  Er eitthvað skoskara í öllum heiminum? Grin


Dagurinn í dag - Stóri dagurinn!!!

Dagurinn í dag, sunnudagurinn 7. september 2008, er líklega fyrsti dagurinn sem Þórir Snær gengur meira en hann skríður.

Til hamingju með daginn! Smile


Fjallið okkar - Arthur´s Seat

Hérna er mynd af fjallinu sem við sjáum út um gluggann.  Fjallið heitir Arthur´s Seat, er 251 metra há gömul eldstöð sem gnæfir yfir borgina.

Fjallið okkar - Arthur´s Seat.  Gengum stiginn hérna næst meðfram fjallinu á föstudaginn.


Þórir Snær tekur á rás

Þórir Snær hefur svo sannarlega tekið á rás undanfarna daga og náð miklum framförum núna síðustu 1-2 daga.  Metið núna er líklega um 3 metrar, frá sjónvarpinu í stofunni og fram undir hurð.

Myndbandið hér að neðan var tekið í morgun þegar hann skellti á skeið í áttina að pabba sínum pínulítið valtur á litlu fótunum sínum.


Kevock kórinn er málið!!! Skellti mér á kóræfingu í kvöld!

Fann kór á vefnum.  Kevock kórinn. 90 manna blandaður kór fólks á öllum aldri á sem æfir í skóla í nágrenni Edinborgar.  Skellti mér á æfingu í kvöld.  Gaman að kynnast alvöru Skotum!  Þessi kór varð fyrir valinu þar sem hann æfir einu sinni í viku, ekki á föstudögum, ekki á sunnudögum og er ekki kirkjukór eða fastur í tiltekinni tónlist.  Inga sagði: "Þarftu alltaf að æfa í kórum sem eru einhvers staðar lengst úti á landi?".  Þeysist alltaf í Hafnarfjörðinn á Skátakórsæfingar á meðan ég fer 10 km út fyrir borgina núna.  Hélt ég myndi aldrei rata heim á vinstri akreininni eftir æfinguna í kvöld.  Það tókst þó að lokum.

Kevock kórinn syngur allt milli himins og jarðar og er góður að því.  Í kvöld sungum við ýmislegt; Passíusálm, lög úr Phantom at the Opera eftir Andrew Lloyd Webber, nokkur Abba lög o.fl.  Æfingin lofaði góðu.  Einnig skemmtilegt að þessi kór hefur sungið "Bohemian Raphsody" með Queen í nákvæmlega sömu útsetningu og Skátakórinn.

Það sem kórmeðlimir vita ekki - en ég og aðrir meðlimir Skátakórsins vitum - er að það er löngu búið að ákveða að þau taki á móti Skátakórnum þegar hann kemur í heimsókn næsta vor.  Ég ætla að kynnast þeim svolítið betur áður en segi þeim fréttirnar.


Bloggað úr Edinborgarhreppi

Loksins hefur litla fjölskyldan við West Powburn í Edinborg komið bloggmálunum í réttan farveg vegna fjölda áskoranna.  Ákveðið var að kýla á Moggabloggið þar sem það bíður upp á mestu möguleikana.

Annars líður okkur óskaplega vel hérna í fínu íbúðinni okkar í Edinborg og höfum flakkað um borgina og notið lífsins frá því við komum hingað síðastliðinn miðvikudag eftir langt ferðalag sjóleiðina frá Íslandi.

...meira um það síðar!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband