Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Íslenskt lambalæri á West Powburn
29.11.2008 | 00:28
Nammi nammi namm!!! Já við fjölskyldan vorum svo heppin að vera boðin í mat til Önnu og Hildar, sem búa í næstu íbúð. Og í matinn var hvorki meira né minna en ÍSLENSK LAMBALÆRI já í alvöru. Vá hvað það var gott. Það verður nú að segjast að íslenskt lambakjöt er ótrúlega gott.
Anna og Hildur, takk fyrir okkur
Rólegheitasunnudagur við West Powburn
23.11.2008 | 18:00
Erum búin að taka því rólega í dag. Skólastelpan lærir af kappi á meðan húsmóðirin þvær þvott, skiptir á bleium, gefur að borða og hlustar á Silfur Egils þar á milli. Kappinn dundar sér eins og honum er einum lagið. Átti til dæmis leið inn í stofuskáp hérna rétt áðan. Hefur örugglega fundið eitthvað spennandi þar eins og annars staðar þar sem hann kemur við.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég á besta strák í heimi
21.11.2008 | 02:31
Ég bara verð að monta mig svolítið af því ég á besta strák í heimi eins og þið vitið reyndar.
Málið er að ég er búin að vera þreytt undanfarið og var meira að segja alveg svakalega þreytt þegar ég kom heim úr skólanum á þriðjudaginn. Það var eins og litli stúfurinn minn hann Þórir Snær skynjaði það því hann var endalaust að koma og knúsa mig og kyssa vá hvað það var gott og mér tókst að fá ótrúlega mikla orku í kroppinn. Ég er líka búin að kenna honum að "brýna gogg" þ.e. að nudda saman nefnum ef einhver þekkir ekki hugtakið. En knúsin hans eru best
Já hann er bestur í heimi hann Þórir minn
16 kílómetrar og harðfiskur með smjöri í eftirrétt
19.11.2008 | 23:25
Í dag var hlýtt í veðri en ansi hvasst.
Við feðgar skelltum okkur á barnamorgun í kirkjunni á horninu í morgun. Erum orðnir fastagestir í tveimur kirkjum á svona barnamorgnum. Þessi er einu sinni í viku en í hinni kirkjunni er þetta tvisvar í viku. Gallinn er sá að í hinni kirkjunni er þetta búið fyrr en í kirkjunni á horninu auk þess sem hún er lengra í burtu. Þar sem við erum nú frekar rólegir í tíðinni svona í morgunsárið þá mætum við orðið oftar í kirkjuna á horninu.
Skelltum okkur semsagt í dag og Þórir lék sér með öllum krökkunum og nýja dótinu. Þórir lagði sig á eftir og ég ákvað að skella á skeið. Það var nokkuð hvasst í dag og því ákváðum við að stinga okkur inn í skóg hérna við Blackford Hills sem er stór garður hér stutt frá. Við héldum síðan áfram í gegnum hann allan og upp í gegnum Braidburn Park Valley og áfram gegnum Oxgang hverfið og Colinton hverfið. Þar þurftum við að ganga í kringum risavaxna herstöð sem er þar og einnig í kringum risavaxna landareign sem einhver einkaskóli starfar á og ekki var hægt að ganga í gegnum.
Leiðin lá að á sem liggur í gegnum Edinborg og heitir Water of Leith og ætlunin var að ganga meðfram henni. Það reyndist nú svolítið lengra í hana en ég hafði gert mér í hugarlund en var ekki verra fyrir það.
Þangað náðum við loksins og var sérstaklega fallegt að ganga meðfram henni í haustlitunum. Þarna þræddum við stíga og stiga upp og niður í gegnum skóginn og ef maður verður ekki kominn með flottasta rass norðan Alpafjalla eftir að hafa ýtt kerrunni í gegnum þetta allt saman þá veit ég ekki hvað þarf til.
Þegar klukkan fór að nálgast fjögur ákváðum við að stytta okkur leið og halda heim á leið. Forgangsatriði var að komast út úr skóginum því hérna kemur myrkur stundvíslega klukkan hálf fimm. Það er enginn lygi því 16:23 var bjart og 16:40 var komið myrkur! Við komum okkur út úr skóginum og áttum þá eftir að ganga aftur heim á leið sem var töluverður spotti. Vorum komnir á hlaðið hjá okkur rúmlega fimm sælir eftir öflugt dagsverk. Komst að því eftir að hafa rennt hringinn á Google Earth að afrakstur dagsins voru hvorki meira né minna en 16 kílómetrar!!!
Eftir að við vorum komnir inn dró húsmóðirin, sem þá var komin heim úr skólanum, fram harðfisk og smjör sem Þórir og Una komu með um daginn. Þórir Snær smakkaði þar harðfisk með smjöri í fyrsta sinn og var alsæll. Álíka sæll og í morgun þegar hann fékk hafragraut og lifrapylsu í morgunmat. Er það nokkur furða að barnið sé hraust. Hafragrautur og slátur í morgunmat - berjast við vindinn í kerrunni 16 kílómetra í gegnum alls kyns ójöfnur - harðfiskur og smjör. Hann var líka fljótur að sofna.
Inga skellti sér í kvöld í nígerískt matarboð sem einn skólafélaginn hélt sem ættaður er frá Nígeríu. Í hópnum hennar er fólk alls staðar að úr heiminum og má á myndunum hér að neðan sjá samnemendur Ingu frá Hollandi, Rússlandi, Kína, Póllandi, Pakistan, Ghana, Litháen auk Bretlands. Já, það er ýmislegt sem heimilisfólkið á West Powburn tekur sér fyrir hendur á annars venjulegum miðvikudegi!
Vinir og fjölskylda | Breytt 20.11.2008 kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýjar myndir á Barnaland
17.11.2008 | 01:43
Vond og afspyrnu leiðinleg mamma
16.11.2008 | 18:43
Vá hvað Þóri Snæ finnst ég vera hrikalega vond mamma akkúrat núna. Þeir feðgar komu inn í herbergi þar sem ég sit og læri. Siggi að velta fyrir sér kvöldmatnum sem hann var að fara elda og Þórir kemur og sest í fangið á mér. Enn sem komið er telst ég nokkuð góð mamma. Nú fer sonurinn að skoða það sem er á skrifborðinu. Blýantur, úff ég tók hann af Þóri þar sem ég sá fram á stórslys. Þórir verður fúll en finnur sér strokleður að skoða. Þá gerist það. Ég, mamman, vil ekki leyfa honum að borða strokleðrið. Stór og myndaleg skeifa myndast á syninum og svo brestur hann í sáran grát. Horfir á mig með "þú ert svo vond og leiðinleg" augnaráði. Að lokum er hann borinn fram hágrátandi. Eftir sit ég með heilan helling af fræðigreinum sem ég er að lesa vegna ritgerðarvinnu og vitneskjuna um það hversu vond og leiðinleg ég er
Merkilegt samt hvað við Þórir erum fljót að jafna okkur, þetta virtist þó rista mun grynnra hjá mér en honum. Svona erum við mömmurnar stundum leiðinlegar
Drífa og Bogga Dís syngja lag eftir Drífu
13.11.2008 | 00:57
Fann þetta á YouTube. Þarna eru Drífa frænka á Skagaströnd og Bogga Dís dóttir hennar að syngja lag og texta eftir Drífu. Flott lag og texti og vel flutt af þeim mæðgum.
Amma og afi í heimsókn
12.11.2008 | 02:56
Una og Þórir heimsóttu okkur um helgina og áttum við frábæran tíma saman. Við sóttum þau á flugvöllinn í Glasgow á fimmtudagsmorguninn og renndum síðan heim á leið og fengum okkur Jacket Potato. Höfðum lofað afa Þóri að sýna honum uppáhalds Jacket Potato staðinn okkar. Gerðum það. Hann er heima hjá okkur að 7/7 West Powburn. Langflottast!
Eins og oft áður komu þau færandi hendi, nú með hangikjöt í jólamatinn, rúgbrauð, reyktan silung, lifrapylsu og fleira góðgæti, þar með talið chillisultu handa húsbóndanum.
Þau komu líka með útigalla og fóðruð Viking stígvél á Þóri Snæ. Það er svo ótrúlegt að í höfuðlandi rigningarinnar er ekki hægt að fá loðfóðruð stígvél eða almennilega úti- og pollagalla! Hverjum hefði dottið það í hug?
Tókum góðan göngutúr í bæinn á fimmtudaginn og á föstudaginn skellti hópurinn sér í verslunarleiðangur í Fort Kinnaird verslunarmiðstöðina. Það er ekki eiginleg verslunarmiðstöð heldur meira þyrping verslana í ætt við Smárann í Kópavogi, bara miklu stærra.
Siggi og Þórir Snær ákváðu að leggja land undir fót og kerruhjól og ganga að heiman til Fort Kinnaird. Það reyndist frábær 10 km. göngutúr í sól og blíðu og römbuðum við á göngustíg sem lá nokkurn veginn alla leið þannig að við þurftum varla að fara yfir götu á leiðinni. Gengum meðal annars eftir leið svokallaðrar Innocent railway (íslenska: Sakleysislestin) sem var járnbrautalest sem reist var um 1830. Þá var hestum beitt fyrir lestina þar sem forvígismenn hennar töldu ólíklegt að ógnvekjandi kolakynntar eimreiðar ættu framtíðina fyrir sér. Þetta minnir mann á ummæli forstjóra Intel hérna um árið þegar hann sagði að "þetta Internet væri nú bara bóla!".
Hluti leiðarinnar liggur meðfram golfvelli og lentum við í því að golfkúla kom úr mikilli hæð og lenti nokkrum metrum fyrir framan okkur. Nokkrum mínútum síðar lenti síðan önnur fyrir aftan okkur. Maður þarf kannski að ganga með hjálm þegar leiðin liggur meðfram þeim aragrúa golfvalla sem dreift er um allt hér í Edinborg!
Á laugardaginn skelltum við okkur niður í bæ á bændamarkaðinn þar sem við keyptum dýrindis mat fyrir kvöldið og héldum síðan út fyrir bæinn. Leiðin lá til Peebles, gamals hlýlegs smábæjar 50 km. sunnan við borgina. Það var sérstaklega fallegt að keyra um sveitirnar í haustlitunum á laugardaginn. Peebles er gamall fallegur bær sem liggur meðfram ánni Tweed. Miðbærinn er mjög gamall í útliti og hlýlegur. Tvær fallegar brýr liggja yfir ánna og gengum við hring meðfram ánni auk þess sem að fá okkur snarl á kaffihúsi sem staðsett er í leikhúsi bæjarins. Þar sat maður á næsta borði sem við vorum ekki á einni skoðun um hvort væri ekki í sama heimi og við, hvort hann væri að skrifa leikrit eða hvað en hann sat aleinn við borðið, skrifaði af miklum móð og spjallaði við sjálfan sig.
Eftir góða ferð um Peebles héldum við heim á leið þar sem eldað var dýrindis nautakjöt af bændamarkaðnum ásamt eplaköku, berjum og Butterscotch sósu. Vorum við nánast meðvitunarlaus eftir átið og var kreppunni gefið langt nef þetta kvöld.
Seinna um kvöldið skelltu Inga og Siggi sér í bíó þar sem barnapíurnar voru mjög áfjáðar í að losna við okkur úr húsinu svo þær gætu pakkað inn jólagjöfum og verið einar með Þóri Snæ. Skelltum okkur á nýju James Bond myndina og vorum sammála því að þar færi frábær hasarmynd en engin "Bond" mynd. Þarna var enginn Q, engin Miss Moneypenny, engar hnittnar setningar, enginn glæsileiki heldur fyrst og fremst hasar, slagsmál og blóð sem var gott og blessað en við söknuðum samt Bond. Okkur var líka algerlega ofboðið með auglýsingum. Myndin átti að byrja 22:30 en byrjaði ekki fyrr en 23:05. Auglýsingar voru því í fullar 35 mínútur áður en myndin byrjaði!!! Íslensku 10-15 auglýsingamínúturnar urðu allt í einu örstuttur tími!
Gengum síðan heim með viðkomu á pöbb í nokkrar sekúntur. Æi við nenntum því ekki. Fórum inn á tvo pöbba en út af þeim aftur eftir um það bil 30 sekúntur. Ég held við þurfum að fá aðstoð í pöbbarölti. Við erum ekki að skora stórt á þeim vettvangi.
Sunnudagurinn var tekinn rólega fram yfir hádegi en síðan ákveðið að leggja land undir hjól og skoða Glasgow. Þetta er í fyrsta skipti sem við komum til Glasgow. Eyddum tveimur tímum eða svo í að ganga um miðborg Glasgow með Þóri og Unu áður en við skutluðum þeim á flugvöllinn. Spennandi borg sem verður án efa gaman að kíkja í fyrir jólin.
Það var frábært að hafa Þóri og Unu um helgina. Við gættum þess að vera ekki með þaulskipulagða dagskrá heldur tókum okkur góðan tíma til að vera saman í rólegheitum hérna heima og leika við Þóri Snæ. Hann náði góðum tengslum við ömmu og afa og lék á alls oddi alla helgina enda miðdepill athyglinnar.
Tókum því rólega á sunnudagskvöldið eftir frábæra helgi. Góð vika framundan.
Vinir og fjölskylda | Breytt 13.11.2008 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hawaii! Aloha...Aloha...Aloha...
10.11.2008 | 15:39
Langur útidagur í gær
4.11.2008 | 13:56
Áttum langan og góðan útidag í gær. Fórum fyrst á krakkamorgun í safnaðarheimili hérna nálægt. Þar hefur hópur foreldra í samstarfi við kirkjuna safnað saman leikföngum héðan og þaðan og bjóða foreldrum með börn að koma og leika sér tvo morgna í viku í sal safnaðarheimilisins. Frábært framtak og maður borgar 80 pence (ca. 150 krónur) fyrir skiptið sem fer í að kaupa kaffi og kex til að maula.
Þórir Snær blómstraði þarna og fannst okkur foreldrunum nóg um hvað hann þurfti lítið á okkur að halda. Einhvern veginn held ég að það verði ekki vandamál að skilja hann eftir á leikskóla í framtíðinni.
Gengum þaðan niður í bæ með viðkomu í skólanum hennar Ingu þar sem hún sótti ritgerð hún skrifaði um daginn. Þetta er prufuritgerð sem kennararnir nota til að samræma ritgerðarstíl nemenda að kröfum skólans. Í skólann kemur fólk alls staðar að úr heiminum með mjög misjafnar hefðir í tengslum við ritgerðarsmíðir og fá nemendurnir þarna leiðbeiningar um hvað má betur fara.
Gengum áfram niður í bæ, Princes Gardens og í gegnum brautarstöðina og fengum okkur að borða áður en Inga fór aftur í skólann. Við Þórir skunduðum þá á leikvöllinn í Meadows garðinum sem er mjög flottur aldursskiptur leikvöllur sem er mikið sóttur. Þar fengum við okkur að borða af nestinu okkar, festum kerruna við bekk með hjólalás sem við erum búnir að kaupa okkur og lékum okkur þarna í um tvo klukkutíma, eða þangað til Inga var búin í skólanum og varð samferða okkur heim um fimmleytið eftir um sjö tíma túr - geri aðrir betur!
Kappinn var ekki lengi að sofna í gærkvöldi.