Hamingjutímar í kotinu
28.9.2009 | 23:12
Nýjustu fréttir eru þær að ég er búin með mastersritgerðina mína og þar að auki búin að skila henni inn í Edinborg. JÚHÚ!!! Já þetta er óskaplega skemmtilegt og góð tilfinning.
Við skelltum okkur því í ferð til Edinborgar síðastliðinn fimmtudag og komum aftur heim undir miðnætti á laugardagskvöldið. Við fengum gistingu hjá vinum okkar þeim Lindu og Bjarna, sem tóku æðislega vel á móti okkur. Þórir Snær var alveg í skýjunum þar sem á heimilinu eru krakkar, Kolbrún 15 ára, Eyvindur 8 ára og það sem Þóri þótti best eru þau Margrét sem er ári eldri en hann og Kristófer sem er ári yngri. Það var því töluverður galsi og mikil gleði. Á tímabili héldum við að Þórir ætlaði að setjast að
Á föstudagsmorguninn kom í ljós að við höfðum lagt ólöglega og bíllinn hafði verið dreginn í burtu, líklega hefur einhver í nærliggjandi húsum hringt og látið draga hann. Eftir nokkurn tíma í símanum var bílinn fundinn og kostnaðurinn við að leysa hann út kominn í ljós... ÚFF!!!
Á meðan feðgarnir fóru að ná í bílinn fór ég í skólann til að skila ritgerðinni. Ég fékk frábærar móttökur með hamingjuóskum fyrir bæði ritgerðarskilin og ekki síður bumbuna sístækkandi. Nokkrir höfðu orð á því að nú færi að styttast í fæðingu en þegar ég bendi á að það væru u.þ.b. fjórir mánuðir eftir af meðgöngunni þá datt andlitið hreinlega af fólki þar sem bumban er býsna vígaleg.
Dagurinn fór svo í að kíkja í búðir ásamt því sem við fórum út að borða í hádeginu til að halda upp á áfanga frúarinnar. Um kvöldið var "skvísukvöld" þegar ég ásamt Edinborgar-dömunum fórum út að borða og á pub. Ótrúlega gaman að eiga gott stelpukvöld, langt síðan ég hef átt svoleiðis
Á laugardeginum fórum við í IKEA og COSTCO þar sem við náðum okkur í birgðar, að því loknu héldum við í veislu til Lindu og Bjarna þar sem meðal annars var boðið upp á Guinness-súkkulaðiköku....namminamminamm það er ljóst að sú kaka verður bökuð á heimili okkar hjóna í framtíðinni. Algjört æði!!!
Um kvöldið keyrðum við heim á leið frá Edinborg eftir A 702 niður á M6 hraðbrautina sem liggur hér framhjá Lancaster. Gott að koma heim eftir góða ferð.
Sunnudagurinn fór í yndislega leti hjá okkur öllum
Í dag mánudag, hefst kynningarvika í háskólanum hér í Lancaster og Siggi því með skipulagða dagskrá fyrir næstu daga sem eru góð blanda af skemmtun og alvöru.
Það fyndna er að ég sem er nýbúin með lokaritgerðina mína og ósköp sátt við það er svolítið "öfundssjúk" útí Sigga að vera byrja í sínu námi og eiga það eftir. Ætli ég skelli mér ekki bara í annan master við tækifæri...kemur í ljós
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með ritgerðaskilin duglega kona ;)
Kittý í Noregi (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 07:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.