Lengri leiðin til Manchester, kýr, Íslendingar og IKEA-ferð aldarinnar!
23.8.2009 | 23:12
Þriðjudagurinn 18. ágúst var flakkdagur. Þá var ákveðið að leggja land undir hjól og skella sér í bíltúr. Ferðinni var heitið til Manchester og stefnan tekin á IKEA, Costco og almennt að skoða sig um. Inga hafði legið á netinu og komist að þeirri niðurstöðu að í Manchester væri ekki mjög mikið að sjá annað en pöbbar og verslunarmiðstöðvar sem skýrir líklega hvað Íslendingar hafa verið ánægðir með þá borg undanfarin ár. ;)
Við ákváðum að fara lengri leiðina til Manchester og létum Google Maps leiða okkur um sveitirnar eins langt frá hraðbrautunum og við komumst. Við renndum niður til Preston og sveigðum þar í austurátt, undir M6 hraðbrautina og áleiðis inn í landbúnaðarhéruðin og upp á heiðar. Þarna vorum við aldeilis komin á kaf í ensku sveitirnar sem eru fallegar og skemmtilegar og oft mjög gaman að keyra í gegnum þær enda fullar af gróðri og oft frekar þröngum vegum sem hlykkjast með fram hlöðnum veggjum sem margir líta jafnvel út fyrir að vera mörg hundruð ára gamlir. Norðurhéruð Englands eru mikil fótboltahéruð og oft líta vegaskiltin út eins og listi úr íþróttafréttunum þar sem kunnugleg heiti úr enska boltanum skjóta oft upp kolli. Við renndum til dæmis í gegnum Blackburn sem lítur út fyrir að vera hinn vinalegasti bær.
Inga fór hamförum á kortinu og þegar komið var svolítið yfir hádegi fórum við að líta í kringum okkur eftir ekta enskri sveitakrá til að snæða. Þar urðum við ekki fyrir vonbrigðum þegar nokkrum beygjum síðar birtist Owd Betts, sveitakrá sem skírð er eftir Betty nokkurri sem rak staðinn á seinni hluta nítjándu aldar til dauðadags 1893. Þar borðuðum við alvöru enskan sveitamat, Lancashire hot pot, sem er pottréttur með kjöti, lifur, lauk og fleiru í brúnni sósu og "ömmusteikt" roast beef að hætti sveitunga með Yorkshire pudding. Skammtarnir voru risavaxnir og væntanlega ætlaðir vinnumönnum úr grenndinni.
Frá Owd Betts renndum við gegnum sveitirnar til Manchester úr norðurátt og stoppuðum næst í Heaton Park í Manchester. Þarf skoðuðum við húsdýr og var Þórir mjög hrifinn af þeim, sérstaklega kú sem kom sérstaklega út úr húsi til að heilsa upp á hann og baulaði eftirminnilega. Þarna göluðu líka hanar í löngum bunum auk þess sem svo virtist sem útivistardagur gyðinga væri þennan dag því strangtrúaðir gyðingar flykktust þarna um með flétturnar sínar í hárinu. Á leiðinni út hittum við á íslenska konu sem var þarna með breskum manni sínum og börnum og gengu þau á okkur þegar þau heyrðu íslenskuna. Hún sagðist ekki vita af mörgum Íslendingum í Manchester utan stúdenta sem kæmu og væru eitt ár í senn.
Eftir útiveruna héldum við í IKEA þar sem markmiðið var að kaupa rúm og leikfangaskáp fyrir Þóri Snæ sem á þessum tímapunkti vissi ekki að hann var að fara að flytja úr herbergi foreldra sinna enda orðinn STÓR strákur. Við létum greipar sópa um búðina þangað til komið var að því að flytja allt saman heim á leið. Þá þökkuðum við fyrir að hafa valið bílinn með stærsta skottið! Það var því þétt pakkað og Þóri fannst þetta nokkuð sérstakt þar sem hann sat hinum megin við flata IKEA pakkann og sá pabba sinn í gegnum hrúguna. Klukkan var orðin margt þegar við renndum í Rutlandið okkar aftur eftir að hafa rennt í gegnum Manchester og tekið hraðbrautina heim. Frábær dagur en Costco bíður betri tíma.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 24.8.2009 kl. 00:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.