Vatnaleiðin, Dan, Ben og grjónagrautur
11.8.2009 | 23:14
Um Bretland þvers og kruss liggur mikið og merkilegt síkjakerfi (canals). Þetta kerfi hefur um aldir flutt fólk og vörur, þ.m.t. kol frá kolanámum um allt Bretland og Bretar tala stundum um kerfið sem vatnsvegi (waterways). Í dag er þetta að miklu leyti nýtt fólki til skemmtunar og kaupir það sér báta og rúntar á þeim um landið, oftast nær eins og í sumarbústað. Sumir búa þó í bátunum allt árið um kring.
Til að komast af árbakkanum upp á brúnna þarf að klífa ansi langan og brattan stiga, örugglega 50 þrep. Ég var hálfnaður upp með kerruna þegar kona kom á eftir mér og hjálpaði mér að bera hana restina. Sú fékk heldur betur aukahreyfingu þann daginn. :) Fólkið hér í Lancaster virðist vera mjög hjálplegt. Konan hjálpaði mér upp með kerruna og nágrannakona okkar lánaði okkur sláttuvélina sína þegar við komum hingað fyrst. Þetta er smábæjarhlýleikinn.
Við feðgar gengum síðan meðfram síkinu til baka inn í borg. Þetta er mjög falleg og skemmtileg leið og gaman að mæta reglulega bátum sem áttu leið hjá. Við enduðum daginn á leiksvæði inni í borg þar sem Þórir sullaði í pollunum og bleytti sig ennþá meira því hann hafði miklu frekar viljað ganga í blautu grasinu meðfram síkinu en á göngustígnum.
Á leiksvæðinu hittum við þá feðga Dan og Ben sem höfðu flutt til Lancaster fyrr um daginn. Sambýliskona Dan, hún Bella, var heima að taka upp úr kössum. Við spjölluðum heilmikið og Þórir lék sér við Ben. Þórir vildi ólmur knúsa strákinn sem tók vel í það í fyrstu en fannst þó nóg um þegar Þórir vildi halda áfram knúsinu. Pabbanum, Dan, fannst þetta mjög fyndið og hafði það á orði að loksins hefði Ben fundið einhvern sem væri enn meira fyrir knús en hann sjálfur! Við skiptumst á símanúmerum og verðum örugglega í sambandi. Verandi öll nýflutt til Lancaster og bæði með tveggja ára stráka þá eigum við nú ýmislegt sameiginlegt.
Vinnumynstur þeirra Dan og Bellu er svolítið lýsandi fyrir Bretland að því sem ég hef heyrt frá mörgu fólki. Hann vinnur mikið heima en fyrir fyrirtæki sem starfar í Cumbria, þ.e. í Lake District vatnahéruðunum 40 km norður af Lancaster. Bella vinnur fyrir fyrirtæki í Manchester sem er 100 km í suður. Þau ákváðu að setjast að í Lancaster þar sem það væri miðja vegu. Bella tekur lestina í vinnuna 3 daga í viku. Ben verður á leikskóla 3 daga í viku, Bella með hann einn dag í viku og Dan sér um hann einn dag í viku. Leikskólagjöld í Bretland eru rosalega há. Við vorum svolítið að skoða þetta í Edinborg og komumst að því að það kostaði hátt í þúsund pund (um tvö hundruð þúsund íslenskar krónur) að hafa barn á leikskóla fimm daga vikunnar allan daginn. Fólk þarf því að hafa ansi háar tekjur til að það borgi sig að báðir vinni úti. Margir sem eiga fleiri en eitt barn ráða sér frekar barnfóstrur því það er einfaldlega ódýrari lausn. Skólakerfið hérna byrjar þó þegar barnið er 4 ára og er foreldrum að mestu að kostnaðarlausu nema ef fólk skráir börnin sín í einkaskóla sem verðleggja sig upp í hið óendanlega og hefur orðstýr og snobb þar mikið að segja.
Það var gott að koma heim eftir 7-8 km. göngu með rennblautan strák og fá grjónagraut hjá Ingu. Góður dagur. Könnunarleiðangur um svæði í Lancaster þar sem við höfðum ekki komið áður.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 23.8.2009 kl. 17:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.