Annar í ofursól - TASTE of Edinburgh matgæðingahátíðin
6.6.2009 | 00:27
Á laugardaginn skein sól í heiði þegar við fjölskyldan skelltum okkur í Inverleith garðinn til að taka þátt í matgæðingahátíðinni TASTE of Edinburgh sem haldin er árlega í Edinborg. Þetta er mjög skemmtileg hátíð. Þarna koma fjölmargir framleiðendur gæðavara tengdum mat auk þess sem mörg af fínustu veitingahúsum Edinborgar setja upp eldhús í tjöldum á svæðinu og bjóða upp á smárétti að hætti síns veitingahúss. Það er svona nett hvítutjalda-Þjóðhátíð-í-Eyjum-stemning yfir þessu þar sem mikið er lagt í innréttingar þessara tjalda þannig að glæsileiki viðkomandi veitingastaða fylgi þeim þarna út á tún með tilheyrandi gæðum á kokkum og mat. Þarna voru einnig óteljandi vínframleiðendur, ostaframleiðendur, matarolíuframleiðendur, bændamarkaður með ýmiss konar landbúnaðarvörur, áhöld til matargerðar og fleira. Það er selt inn á svæðið og við héldum að aðgöngumiðinn myndi gefa okkur aðgang að fullt af smakki. Það var hins vegar minna en við héldum. Þess í stað gat maður keypt hátíðarkrónur sem maður gat síðan notað í tjöldunum. Víðast hvar var líka hægt að nota alvörupeninga til að kaupa vörur en eingöngu var hægt að nota hátíðarkrónur (n.k. Matadorpeningar) í veitingatjöldunum. Aðgangseyririnn virðist hafa gert það að verkum að fjöldinn á svæðinu varð ekki yfirþyrmandi eins og við héldum að hann yrði og t.d. komumst við allra okkar ferða með kerruna, okkur til mikillar ánægju og undrunar.
Við fengum okkur dýrindis hægeldaða smásteik að hætti Balmoral hótelsins við Princess Street. Í eftirrétt fengum við okkur líka jarðaber með eplakrapi, súkkulaði og einhverju fleiru ljúfu. Þetta var hrikalega gott, sérstaklega með franska Rínarrauðvíninu mínu sem ég varð mér út um á næsta bás og drakk með steikinni. Mmmm...
Í einum básnum keyptum við okkur lítinn disk sem nota má við að skera niður hvítlauk, súkkulaði og næstum hvað sem er. Misstum okkur líka í potta- og pönnubás og enduðum með að ganga út með ofurpönnu úr títaníum sem ekkert á að festast við um aldur og ævi. Við fáum hana senda í vikunni...eða vonum það alla vega. Þá keyptum við svokallað Beef olives" sem er nautakjöt vafið utan um pylsu. Það var mjög gott og rann ljúflega niður loksins þegar við komum heim á laugardagskvöldið.
Eftir matarhátíðina gátum við ekki hugsað okkur að fara heim í góða veðrinu og skelltum okkur á ströndina í Musselburgh sem er í raun úthverfi austan við Edinborg. Þar gengum við í flæðarmálinu og leyfðum Þóri að dýfa aðeins tánni í sjó. Það endaði auðvitað með því að hann sleit sig lausan og stakkst beint á nefið ofan í sjóinn og varð sjóblautur frá toppi til táar. Við renndum því heim á leið.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.