Leigjendurnir hættir við að koma!
12.5.2009 | 10:42
Fengum nýjar fréttir í gær af leigumálum. Nýju leigjendurnir sem ætluðu að koma 9. júní eru hættir við, fundu sér minni og ódýrari íbúð einhvers staðar í borginni. Við ráðum því hvort og hvenær við yfirgefum Edinborgina.
Við erum búin að vera að skoða leigumarkaðinn í Lancaster. Svo virðist sem við séum að fá parhús með garði og jafnvel bílskúr fyrir svipaða leigu og við erum að greiða fyrir þriggja herbergja íbúðina okkar hér, þrátt fyrir að við séum að greiða lága leigu samanborið við aðra í Edinborg. Það er svolítið freistandi.
Eftir vangaveltur undanfarinna vikna er eiginlega kominn ferðahugur í okkur og okkur langar að fá garð fyrir sumarið og leikföng í garðinn þannig að Þórir geti verið úti að leika sér án þess að við þurfum alltaf að vera með. Við munum því líklega kýla á flutning til Lancaster í júní þrátt fyrir nýjustu fréttir. Þó verður það líklega meira á rólegri nótunum og án þess að við þurfum að flytja inn á Önnu nágranna í millitíðinni.
Við munum hins vegar kveðja Edinborg með söknuði. Hér hefur okkur liðið sérstaklega vel og hér höfum við kynnst algerlega frábærum vinum, bæði íslenskum, skoskum og víðar að.
Dagmar og Geir ætla að koma frá Aberdeen og vera hjá okkur um helgina. Þá ætla Íslendingarnir að hittast á laugardagskvöldið hjá Ragga og Agnesi í grilli og Eurovisionpartýi auk þess sem stefnan er tekin á safarigarð á sunnudaginn þar sem keyrt er á milli ljónanna. Eins gott að opna ekki gluggann!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.