Þjóðleg á fullveldisdaginn - Jól á West Powburn - Klippijólapartý
2.12.2008 | 01:07
Hafragrautur, lifrapylsa og lýsi í morgunmat. Plokkfiskur og heimabakað rúgbrauð úr Ásabyggðinni í kvöldmat. Gerist ekki mikið þjóðlegra. Komumst að því þegar líða tók á daginn að við hefðum væntanlega tekið upp þennan þjóðlega takt vegna 90 ára afmælis fullveldisins í dag. Hver svo sem hvatinn var bragðaðist þetta stórkostlega.
Létum greipar sópa í verslunum í dag. Skelltum okkur í Ikea og keyptum dýnu í rúmið hans Þóris Snæs. Hann sefur í ferðarúmi úr Rúmfatalagernum og nú er hann orðinn það stór að okkur fannst ástæða til að hann fengi almennilega dýnu. Hann hvílist því vonandi betur en nokkru sinni í nótt og næstu nætur. Keyptum líka piparkökuhjörtu sem hengja á um alla íbúð auk þess að reka augun í steiktan lauk sem telst til vandfundinna gæða í heimsveldinu breska.
Næst var það Asda og fórum við þar hamförum í jóladeildinni. Verkefni vikunnar er að skreyta West Powburn og keyptum við jólaseríur, jólatré, kerti í aðventukrans og fleira skemmtilegt á botnverði. Jólatréð kostaði t.d. 9 pund sem er innan við 2.000 kall fyrir 180 cm tré. Vonandi er það ekki bara einhver grein!
Nú skal skreytt fyrir klippijólapartýið um næstu helgi.
Talandi um klippijólapartýið....
Dagmar, sem einu sinni var dagmömmubarn á Hólsveginum í mörg ár en býr nú í Aberdeen með fjölskyldu sinni og klippir Skota daginn út og inn, ætlar að dvelja hjá okkur um næstu helgi og klippa Íslendinga í Edinborg. Íslensku konurnar halda því statt og stöðugt fram að afurðir breskra klippidama séu lummó og taka þessu framtaki Dagmar fagnandi. Við höfum sagt fólki að mæta með smákökur í klippinguna og þannig að hér verða vonandi standandi klippi-litlu-jól alla næstu helgi.
Helginni mun síðan ljúka með jólatónleikum Kevock kórsins, kórsins míns, sem haldnir verða í Queens Hall sunnudagskvöldið 7. desember.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:08 | Facebook
Athugasemdir
við klikkuðum nú á þessu þjóðlega í gær en hér í Hollandi lentum við einmitt í vandræðum með að finna steiktan lauk en fundum hann að lokum meðal indónesískra vara - mæli með könnunarferð um víða ganga breskra stórverslana ;-)
Jón Ingvar Bragason, 2.12.2008 kl. 11:29
Við hér í höfuðbóli sinneps og annars álegs með pylsum eigum við sömu vandamál að stríða með að finna steikta laukinn. Þetta fer að verða áhugavert. Hverjir eru það sem borða steiktann lauk?
Góð klippu jól um helgina
Rósa Rut (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 23:17
Já, áhugavert. Hverjir borða steiktan lauk? Mér dettur nú einna helst í hug að spyrja mannfræðinginn í fjölskyldunni að því. Matarsjúki landfræðingurinn er líka líklegur kostur.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 3.12.2008 kl. 23:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.