16 kílómetrar og harðfiskur með smjöri í eftirrétt
19.11.2008 | 23:25
Í dag var hlýtt í veðri en ansi hvasst.
Við feðgar skelltum okkur á barnamorgun í kirkjunni á horninu í morgun. Erum orðnir fastagestir í tveimur kirkjum á svona barnamorgnum. Þessi er einu sinni í viku en í hinni kirkjunni er þetta tvisvar í viku. Gallinn er sá að í hinni kirkjunni er þetta búið fyrr en í kirkjunni á horninu auk þess sem hún er lengra í burtu. Þar sem við erum nú frekar rólegir í tíðinni svona í morgunsárið þá mætum við orðið oftar í kirkjuna á horninu.
Skelltum okkur semsagt í dag og Þórir lék sér með öllum krökkunum og nýja dótinu. Þórir lagði sig á eftir og ég ákvað að skella á skeið. Það var nokkuð hvasst í dag og því ákváðum við að stinga okkur inn í skóg hérna við Blackford Hills sem er stór garður hér stutt frá. Við héldum síðan áfram í gegnum hann allan og upp í gegnum Braidburn Park Valley og áfram gegnum Oxgang hverfið og Colinton hverfið. Þar þurftum við að ganga í kringum risavaxna herstöð sem er þar og einnig í kringum risavaxna landareign sem einhver einkaskóli starfar á og ekki var hægt að ganga í gegnum.
Leiðin lá að á sem liggur í gegnum Edinborg og heitir Water of Leith og ætlunin var að ganga meðfram henni. Það reyndist nú svolítið lengra í hana en ég hafði gert mér í hugarlund en var ekki verra fyrir það.
Þangað náðum við loksins og var sérstaklega fallegt að ganga meðfram henni í haustlitunum. Þarna þræddum við stíga og stiga upp og niður í gegnum skóginn og ef maður verður ekki kominn með flottasta rass norðan Alpafjalla eftir að hafa ýtt kerrunni í gegnum þetta allt saman þá veit ég ekki hvað þarf til.
Þegar klukkan fór að nálgast fjögur ákváðum við að stytta okkur leið og halda heim á leið. Forgangsatriði var að komast út úr skóginum því hérna kemur myrkur stundvíslega klukkan hálf fimm. Það er enginn lygi því 16:23 var bjart og 16:40 var komið myrkur! Við komum okkur út úr skóginum og áttum þá eftir að ganga aftur heim á leið sem var töluverður spotti. Vorum komnir á hlaðið hjá okkur rúmlega fimm sælir eftir öflugt dagsverk. Komst að því eftir að hafa rennt hringinn á Google Earth að afrakstur dagsins voru hvorki meira né minna en 16 kílómetrar!!!
Eftir að við vorum komnir inn dró húsmóðirin, sem þá var komin heim úr skólanum, fram harðfisk og smjör sem Þórir og Una komu með um daginn. Þórir Snær smakkaði þar harðfisk með smjöri í fyrsta sinn og var alsæll. Álíka sæll og í morgun þegar hann fékk hafragraut og lifrapylsu í morgunmat. Er það nokkur furða að barnið sé hraust. Hafragrautur og slátur í morgunmat - berjast við vindinn í kerrunni 16 kílómetra í gegnum alls kyns ójöfnur - harðfiskur og smjör. Hann var líka fljótur að sofna.
Inga skellti sér í kvöld í nígerískt matarboð sem einn skólafélaginn hélt sem ættaður er frá Nígeríu. Í hópnum hennar er fólk alls staðar að úr heiminum og má á myndunum hér að neðan sjá samnemendur Ingu frá Hollandi, Rússlandi, Kína, Póllandi, Pakistan, Ghana, Litháen auk Bretlands. Já, það er ýmislegt sem heimilisfólkið á West Powburn tekur sér fyrir hendur á annars venjulegum miðvikudegi!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 20.11.2008 kl. 08:18 | Facebook
Athugasemdir
Frábær göngutúr hjá ykkur feðgum og flottar myndir. Hvað var svo eldað Nígerísku matarboði?
Rósa Rut (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 19:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.