Loksins loksins loksins...
23.10.2008 | 01:00
Undur og stórmerki gerðust í dag. Við fengum í morgun staðfestingu á því að búið væri að leggja peninginn okkar inn á nýja flotta skoska bankareikninginn okkar. Það hefur því tekið nærri tvo mánuði að koma þessu alla leið.
Fyrst sóttum við um bankareikning hjá Halifax Bank of Scotland (HBOS) í byrjun september. Þeir sögðu okkur að þetta gæti tekið alla vega 10 daga. Þegar ekkert hafði gerst 23. september fórum við í bankann og komumst að því að þeir höfðu týnt umsókninni okkar. 24. september sóttum við því aftur um reikning.
Tveimur vikum seinna gáfum við skít í þá og gengum yfir ganginn í verslunarmiðstöðinni og inn í Lloyds TSB bankann. Þar tók það okkur 20 mínútur að stofna bankareikninginn sem við vorum búin að bíða eftir í meira en mánuð á hinum staðnum. Daginn eftir kom bankakortið frá HBOS og daginn þar á eftir kom kortið frá Lloyds TSB. Við stöndum hins vegar við það sem við ákváðum - HBOS fær að róa.
Þegar þarna var komið við sögu gátum við loksins farið að flytja út pening. Við höfðum sem betur fer flutt peninginn okkar yfir á gjaldeyrisreikning á Íslandi þegar líða tók á september og ekkert bólaði á okkar reikningi hérna úti. Þegar við komum út í lok ágúst var gengið um 150 kall en í lok september var það komið í 200 kall!
8. október sendum við Nýja Landsbankanum tölvupóst og báðum um að millifært yrði af bankareikningnum okkar hingað út. Um er að ræða 4500 pund (tæp 900 þús. krónur) sem fer í að greiða skólagjöldin hennar Ingu hérna úti, leigu um mánaðarmótin, gas og rafmagn. Eftir að hafa fengið nei á hverjum degi rofaði loksins til í lok seinustu viku, málið okkar var sent Seðlabankanum og þeir tóku afstöðu með okkur þar sem við vorum námsmenn erlendis og þurftum að greiða skólagjöldin. Við fengum því tilkynningu á föstudaginn var (17. október) um að peningarnir væru farnir út af reikningnum okkar heima. Þar var síðan ekki fyrr en í dag, miðvikudag, sem við fengum tilkynningu um að þeir væru komnir inn á reikninginn okkar hérna úti. Í 5 daga vissum við semsagt ekkert hvar í heiminum peningarnir okkar væru niður komnir, hvort við fengjum þá yfirleitt eða hvort þeir myndu festast í hryðjuverkalagagildru Darling og Brown og vera notaðir til að greiða ICESAVE.
En nú er þetta komið í hús. Fórum út á horn og keyptum okkur kínverskan í kvöldmatinn til að halda upp á daginn! Greiddum með nýja fína skoska debetkortinu okkar...sem meira að segja virkaði!
Við vitum semsagt í dag að við getum greitt skólagjöldin, leiguna, gas og rafmagn um mánaðarmótin. Við erum því í góðum málum út nóvember.
Erum að bíða eftir annarri færslu frá námslánareikningnum okkar á Akureyri. Hún kemur vonandi fyrir jól.
Þess má geta að Bretarnir eru með debetkort með upphleyptum stöfum (eins og kreditkortin heima). Stórsniðugt að geta verslað á netinu með debetkorti en ekki kreditkorti. Íslensku kortafyrirtækin mættu taka sér þetta til fyrirmyndar.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
það er nú aldeilis gott að peningarnir komust heilir heim
Ása Vala (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 19:37
Mikið er ég glaður að þurfa ekki að borga bresk skólagjöld, fannst nóg um 1800 evrurnar sem ég þarf að greiða. Það allavega hjálpar til að þurfa ekki að vera millifæra mörghundruð þúsund krónur.
Jón Ingvar Bragason, 24.10.2008 kl. 09:29
Til lukku kæra fjölskylda, ég skil að þetta sé léttir, kossar
Rósa Rut (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 09:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.