Íslendingapartý og Little Britain USA
3.10.2008 | 22:50
Jæja, löngu kominn tími til að blogga. Pundið var í 160 þegar við blogguðum síðast...það er reyndar ekki svo langt síðan...þannig séð.
Vorum að horfa á Little Britain USA áðan þar sem háðfuglarnir skella sér yfir Atlantshafið og ausa bresku háði yfir Bandaríkjamenn á sinn óborganlega hátt. Hrikalega fyndið en ég held það geti orðið ennþá fyndnara að lesa gagnrýnina í Bandaríkjunum. Hún hlýtur að verða óborganleg.
Inga er inni í eldhúsi að plokka smjörlausan smjörpappír undan botninum á pizzu sem hún gerði áðan og markmiðið er að taka með í nesti í dýragarðinn á morgun. Það verkefni mun duga eitthvað fram eftir kvöldi.
Við erum annars í góðum gír. Inga er byrjuð í skólanum og á fullu við að kynnast nýju og skemmtilegu fólki alls staðar að úr heiminum. Samnemendur hennar koma frá Nígeríu, Indlandi, Kína, Póllandi, Hollandi, Pakistan, Rússlandi sem og auðvitað Bretlandi og fleiri ríkjum. Hún prófaði að lesa á bókasafninu um daginn en þar spjallaði fólk víst út í eitt þannig að hún er búin að koma sér vel fyrir hérna heima við að læra. Verkefnið næstu daga er að koma sér upp rútínu og koma sér almennilega af stað í lærdóminn. Mér heyrist einhvern veginn að hún sé að taka þetta dæmi yfir og sé hálfpartinn orðin "mamma" hópsins eins og henni er einni lýst.
Siggi og Þórir Snær hafa það afargott saman á daginn. Mikil rólegheit, röltum um bæinn og erum heima í rólegheitum til skiptis. Skelltum okkur í prufutíma á tónlistarnámskeið fyrir 1-2 ára á þriðjudaginn. Þarna var kona um fimmtugt að syngja barnalög, nokkrir krakkar og foreldrar þeirra. Var bara skemmtilegt, sérstaklega seinni hlutinn þegar hún dreifði hristum og trommum sem okkar manni fannst nú ekki leiðinlegt. Hann fylgdist vel með þessu öllu saman, tiltölulega undrandi til að byrja með en jafnaði sig þegar hristurnar og tromman komu.
Fórum í gær í kaffi og muffins heim til íslenskra hjóna, Birgis og Svönu, sem buðu Íslendingum í heimsókn á póstlista Íslendinga í Edinborg. Þarna mættu nokkrar mömmur með börnin sín, við Inga með Þóri og Benni Hemm Hemm tónlistarmaður sem er heima með barnið sitt eins og ég á meðan konan hans er í námi. Síðan komu pabbarnir líka þegar líða tók á daginn. Mjög sprækur og skemmtilegur hópur fólks sem náði vel saman. Sumir komu í haust, aðrir eru búnir að vera í 2-3 ár. Öllum líður afskaplega vel í Edinborg og tíma varla að fara heim.
Anna og Hildur nágrannar okkar komu með þá hugmynd í vikunni að við skelltum okkur ásamt einum öðrum íslenskum hjónum í dýragarðinn á morgun. Það hefur undið upp á sig og nú er jafnvel von á töluverðum fjölda, þ.m.t. Dagmar sem mamma passaði fyrir 20 árum síðan og hennar fjölskyldu sem ætla í kaupstaðaferð frá Aberdeen um helgina og datt í hug að koma með okkur. Það verður skemmtilegur dagur á morgun.
Þórir Snær kom okkur á óvart í þessu Íslendingapartýi. Hann hefur auðvitað mjög lítið leikið sér með öðrum börnum undanfarið en fór bara beint að leika sér með dótið og við krakkana og leit ekki á okkur frekar en við hefðum ekki verið með. Alsæll rölti hann um og nældi sér meðal annars í muffinsköku sem lá þarna á borðinu og var hálfnaður í gegnum hana þegar foreldrarnir komu að og höfðu nú lúmskt gaman af öllu saman. Hann er þá kominn á bragðið. Teningunum er kastað!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 4.10.2008 kl. 00:33 | Facebook
Athugasemdir
Gaman að fá fréttir af ykkur kæra fjölskylda eftir nokkra bið. Sérlega gaman að skoða myndirnar af Þóri sem stækkar og breytist svo hratt núna. Gott að sjá hvað þið eruð búin að koma ykkur vel fyrir og inn í samfélagið
kossar frá okkur handan ermasundsins
Rosa og Marwan (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 09:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.