Kvenfélagskaffi, bændamarkaður og bíltúr
14.9.2008 | 00:28
Vorum dugleg í dag.
Vorum komin út um ellefuleytið og byrjuðum á að mæta í kvenfélagskaffi sem við höfðum séð auglýst við kirkju hérna við endan á götunni. Þetta var svona dæmigert kvenfélagskaffi, gamlar brosmildar konur að selja handavinnu, þrívíddarjólakort, kaffi og með því.
Urðu óskaplega hrifnar af okkur og þá sérstaklega Þóri Snæ sem átti auðvitað svæðið. Fannst frábært að við skyldum líta við. Sáum þarna líka að það eru "mömmumorgnar" í kirkjunni á miðvikudagsmorgnum. Feðgarnir þurfa að kíkja þangað við tækifæri svo barnið hitti einhverja aðra en mömmu sína og pabba! ...hann getur þá líka kynnst "the other housewifes"!
Skotar eru óskaplega vinalegt fólk. Þeir taka vel á móti manni, eru sífellt brosandi til Þóris Snæs úti í búð og úti á götu, víkja fyrir barnakerrunni og fá mann til að finnast maður velkominn í nýja landinu. Það skiptir miklu máli.
Eftir kvenfélagskaffið skelltum við okkur á bændamarkað sem haldinn er alla laugardaga í nágrenni Edinborgarkastala. Stórskemmtilegt! Smökkuðum fullt. Keyptum nautakjöt, brauð, jarðaber og karamellusósu sem allt átti uppruna sinn til skoskra bændabýla. Þarna var til dæmis seldur hafragrautur sem skyndibiti, kanínukjöt sem við þurfum að prófa næst, ýmiss konar ostar, kjöt, sultur, sápur og margt fleira. Óskaplega skemmtilegt og vinalegt fólk. Við förum þarna klárlega aftur.
Fórum niður í bæ á bílnum til að spara tíma. Lögðum nokkrum götum frá mílunni. Vakti athygli okkar að bílastæðið kostaði 2 pund (300 kr.) klukkutíminn! Hæsta verðið í Reykjavík er helmingi lægra, 150 kr. á klukkustund á dýrasta svæðinu.
Skelltum svo á skeið. Tókum á okkur rögg og lögðum til atlögu við Edinborg By-Pass hraðbrautina. Höfðum ætlað að keyra þá braut á leið hingað frá Scrabster en villtumst í gegnum miðbæinn. Síðan þá höfum við gert a.m.k. eina tilraun til að komast upp á þessa götu en beygðum þá líka vitlaust. Nú gekk hins vegar allt að óskum og við keyrðum út úr Edinborg til austurs á sjálfri Edinborg By-Pass. Gerum því ráð fyrir að okkur takist að endurtaka leikinn á þriðjudaginn og komast til Glasgow að ná í Úlfar og Hönnu sem ætla að vígja svefnsófann að West Powburn.
Tókum góðan bíltúr meðfram ströndinni í austur frá Edinborg í gegnum fjölda fallegra þorpa og sveita og enduðum í sjófuglamiðstöð í North Berwick, afar fallegum bæ utarlega á ströndinni. Gengum aðeins um bæinn áður en við héldum í hann heim og tókum hring í gegnum skosku sveitirnar.
Settum í dag bensín á bílinn í fyrsta skiptið síðan við vorum í Færeyjum fyrir þremur vikum síðan. Bensínlítrinn kostar um 1,1 pund og er því um 166 krónur miðað við gengi í dag. Frábært hvað við erum að nota bílinn lítið þótt við förum á honum það sem við þurfum. Meira en 2/3 hlutar akstursins á þessum tanki var ferðin frá Scrabster til Edinborgar. Samt höfum við ekki þurft að taka bensín í þrjár vikur. Jibbí!
Á morgun er stór dagur. Inga á að mæta í skólann í fyrsta skiptið. Reyndar ekki í kennslu, heldur er móttaka (Welcome Ceremony) og alþjóðadagur (International Day). Næstu daga fjölgar síðan viðburðum smám saman þar til kennsla hefst formlega mánudaginn 22. september. Frú Ingu hlakkar mikið til!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:35 | Facebook
Athugasemdir
Alltaf á útstáelsi! Ætlaði að hryngja í ykkur í kvöld en enginn heima! Allt vitlaust að gera hjá mér líka. Reyni aftur við símann áður en ég flýg til Alaska á laugardaginn
Kossar
Rósa Rut (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 21:25
Bíð spennt eftir fréttum úr skólalífinu
Ingveldur (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 10:36
Á ekkert að fara að skrifa e-ð nýtt inn eða setja myndir/myndbönd??
Ása frænka (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 11:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.