Nýtt ár og ný ævintýri

Gleðilegt ár kæru fjölskylda og vinir!

Jólin fóru vel með okkur fjölskylduna í Lancaster, við borðuðum vel og nutum lífsins sem og um áramótin sem voru þó með rólegasta móti.  Rósa systir Ingu og Marwan maðurinn hennar eignuðust strák þann 27.desember, sá stutti "átti" reyndar ekki að koma fyrr en 11.janúar en því var flýtt af heilsufarsástæðum.  Móður og barni heilsast vel og ég (Inga) fæ ekki leið á því að skoða myndir af honum á barnalandssíðunni hans.  Til hamingju Rósa og Marwan Smile

Við vorum eina fólkið í okkar götu sem skaut upp einhverjum flugeldum auk þess sem okkur fannst eins og Lancasterbúar væru almennt rólegir í flugeldunum.  Líklega skýtur meðal fjölskylda á Íslandi upp fleiri flugeldum en við heyrðum í eða sáum um áramótin Smile  Til að fá útrás fyrir blysgirni okkar hjóna þá stilltum við á BBC Scotland og horfðum á flugeldasýninguna við Edinborgarkastala, hún var sko ekkert slor.

Siggi reynir að læra eins og hægt er, hann fer í próf núna föstudaginn 8.janúar og svo eru verkefnaskil 11., 14., 15. og 18. janúar svo það er nóg að gera hjá honum.  Inga og Þórir Snær hafa ofanaf fyrir sér á daginn með því að leika, teikna, leira, horfa á sjónvarpið og fleiru.  Stuð-stuðull húsmóðurinnar hefur lækkað síðustu vikur þar sem ég er með leiðinlega verki í mjaðmagrindinni.  En nú styttist í að settur dagur fyrir fæðingu renni upp, 22.janúar, svo vonandi kemur sú stutta fljótlega eftir það ef hún verður þá ekki komin fyrr....sem væri óskandi svona okkar á milli Wink

Hanna og Úlli, foreldrar Sigga koma til okkar 15. janúar og verða fram til 1. febrúar.  Það verður æðislegt að fá þau til okkar og sýna þeim hvernig við búum hér í Lancaster og ekki síst bara að fá þau til okkar því hvað er betra en að hafa fólkið sitt hjá sér Smile 

Þann 22.janúar verður Urður Eva systirdóttir mín (Ingu) 1 árs og mikið væri ég til í að vera með henni og foreldrum að því tilefni, það verður því að bíða enn um stund.  Ekki ólíklegt að við verðum á Íslandi eftir ár og þá mætum við galvösk í afmælið hennar.  Ég vona því svolítið að ég muni ekki eiga þann 22.janúar svo Urður Eva fái að eiga sinn dag og litla frænkan sem fæðist hér í Lancaster eigi sinna dag líka Smile

Við látum vita þegar eitthvað fer að gerast í fæðingarmálum...annaðhvort rétt áður eða með fréttum að "komu drottningarinnar".


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband