Göngutúr meðfram Union Canal
18.10.2008 | 23:02
Fórum í síðustu viku í göngutúr meðfram Union Canal. Union Canal er skipaskurður sem liggur frá Falkirk Wheel skipalyftunni sem við skoðuðum með Úlla og Hönnu og inn í miðja borg í Edinborg. Hann er hluti af neti skipaskurða sem liggja meðal annars milli Edinborgar og Glasgow annars vegar og frá austurströnd Skotlands yfir á vesturströndina hins vegar. Í gegnum tíðina hafa þeir mikið verið notaðir í alls kyns flutninga en í dag eru þeir mest notaðir til ýmiss konar afþreyingar.
Þennan sólríka dag þegar við gengum með skurðinum var fullt af krökkum að leika sér á bátum, sum á kappróðursæfingu og margt fólk á leiðinni úr og í vinnu sem valdi þessa leið úr miðbænum. Skemmtilegur göngutúr sem endaði á því að verða 10 km langur.
Íslenskt kvöld
18.10.2008 | 22:53
Áttum íslenskt laugardagskvöld. Horðum á fréttirnar, veðrið, Spaugstofuna og Gott kvöld með Ragnhildi Steinunni þar sem hún tók á móti Páli Óskari. Notalegt.
Inga fer í skóla
13.10.2008 | 23:10
Hétu þær ekki svoleiðis nöfnum bækurnar sem ungar stúlkur lásu hér í denn. Anna fer í flugvél og Magga í New York. Nú er það Inga fer í skóla eða Inga í Skotlandi.
Ég er svo heppin að mér finnst alveg æðislega gaman í skólanum. Fögin sem ég er í eru áhugaverð, fínir kennarar og samnemendurnir skemmtilegir. Námið byggst fyrst og fremst á því að ég lesi og lesi og lesi og.... Tímarnir fara þannig fram að í hverjum þeirra er ákveðið viðfángsefni tekið fyrir. Kennarinn heldur smá fyrirlestur þar sem hann leggur línurnar um efnið og fer yfir það helsta er varðar það. Yfirleitt vinnum við líka hópverkefni í hverjum tíma og kynnum niðurstöður okkar.
Annars er ég þessa dagana að taka þátt í rannsóknarverkefni sem einn kennarinn minn er að vinna að. Ég er, ásamt sjö öðrum nemendum, að spila tölvuleik. Já ég er ekki að grínast, ég mun næstu þrjá mánudaga spila tölvuleik sem heitir "Second Life" og er á netinu. Við fáum hinsvegar ekki að hafa alveg frjálsar hendur og spilum eftir handriti og undir algjörri nafnleynd. Rannsóknin felst í því að skoða hvernig fólk metur annan einstakling og vinnu hans án þess að þekkja neitt til hans. Svolítið merkilegt að prófa þetta, sérstaklega þar sem ég hef ekki verið í neinum svona tölvuleikjum.
Það er samt svo margt sem ég er að læra og sjá hér í útlandinu. Eitt sá ég samt um daginn (þar sem ég beið eftir strætó niðri í bæ) sem ég átti alls ekki von á. Framhjá mér gekk indíáni. Já alvöru indíáni í kögurskyrtu með höfuðklút og skóm sem voru bundnir upp á legginn. Og hann var með alvöru indíána útlit. Stórmerkilegt og skemmtilegt. Ótrúlega varð ég samt hissa.
Vinir og fjölskylda | Breytt 18.10.2008 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þórir Snær og ný orð
13.10.2008 | 22:54
Hann Þórir Snær er að þroskast og læra svo margt eins og börn gera gjarnan á hans aldri. Hann segir til dæmis "est" núna þegar lest er framhjá húsinu okkar. Og iðulega hleypur hann út að stofuglugga þar sem hann sér út á lestarteinana. Önnur orð sem hann segir eru: ost, mamma, út, öll (sbr. Guttavísur "þá er sagan öll") og síðast en ekki síst þá segir hann "afs" sem þýðir afsakið ef hann ropar, prumpar eða hnerrar. En það sem enn merkilegar er að hann er mjög strangur við foreldrana ef þau gera eitthvað af fyrgreindu. Þá er sko ekkert "elsku mamma". Hann hættir ekki fyrr en við afsökum okkur. Einnig er það frekar fyndið ja eða merkilegt að eitt af fyrstu orðum lítils drengs frá Íslandi sé lest. Ólíklegt að það hefði verið jafn framarlega og raun ber vitni ef við hefðum verið áfram á Miklubrautinni .
Krepputal...
13.10.2008 | 22:44
Já nú hefur margt breyst síðan við blogguðum síðast þó svo það hafi bara verið fyrr í þessum mánuði. Ég nenni hins vegar ekki að tala mikið um það enda veit ég að þið nennið ekki að lesa um það hér . Við fáum nóg af því í öllum fréttum daginn út og inn.
Af okkur ef allt ljómandi gott að frétta, ég (Inga) er á fullu í skólanum og reyna að skipuleggja lærdóm eftir því sem best ég get. Og já ég er sífellt að verða betri í því. Feðgarnir, Þórir og Siggi, eru alveg ótrúlega afslappaðir. Sofa út, leggja sig saman og hafa það eins huggulegt og þeir geta. Sem er frábært og bara akkúrat sem þeir eiga að vera gera.
En svo ég tali aðeins um "kreppuna" þá snertir hún okkur þannig að við höfum ekki getað millifært peninginn okkar frá Íslandi til Skotlands ennþá. Við hinsvegar getum notað íslensku kortin okkar ólíkt því sem við heyrum um námsmenn í Danmörku. Kannski er þetta bara það sem við þurftum til að koma okkur í námsmanna-eyðsluna og úr launaumslags-eyðslunni .
En lífið er gott og við alveg óskaplega hamingjusöm og vonum að þið séuð það öll líka.
Nýjar myndir á Barnalandi
4.10.2008 | 23:05
Gott fólk!
Það sem allir hafa beðið eftir...það eru komnar nýjar myndir á Barnalandssíðuna. Kíkið á thorirsnaer.barnaland.is. Ef ykkur vantar lykilorð þá hafið þið bara samband.
Úlfar og Hanna vígðu gestaherbergið
4.10.2008 | 00:10
Foreldrar Sigga, Úlfar og Hanna dvöldu hjá okkur 16.-23. september. Það var frábært að fá þau og gaman hvað þau gátu verið með okkur lengi. Við sóttum þau á flugvöllinn í Glasgow sem var fyrsta skiptið sem við komum til Glasgow. Keyrðum reyndar bara í gegn eftir hraðbrautinni þannig að við eigum ennþá eftir að skoða Glasgow og heimsækja Kristinn sem var með Sigga í HR og býr í Glasgow.
Þetta var ljúf vika. Við tókum því rólega heima, röltum um, fórum nokkrum sinnum niður í miðbæ, pabbi prófaði sundlaugina, við skoðuðum Britanniu skip hennar hátignar, Edinborgarkastala og margt fleira. Á laugardeginum skelltum við okkur á sveitahátíð sem haldin var á landareign eins flottasta herragarðs landsins, Hopetoun House. Þetta var skemmtilegt. Langt fyrir utan allt sem hét túristaslóðir. Þarna komu bændur og sýndu og seldu alls kyns handverk, mat og fleira. Þarna var töluvert um fálka- og uglubændur sem sýndu fálkana sína, uglur og meira að segja erni. Þetta virðist vera töluvert algengt hérna. Þarna voru líka leirdúfuskotfimi og veiðihundasýningar en mjög mikið er um hunda í og við Edinborg. Það er gaman að hitta alvöru fólk sem byggir landið.
Á sunnudeginum skelltum við á skeið og renndum að Falkirk Wheel sem er stórmerkileg bátalyfta á mótum tveggja skipaskurða milli Edinborgar og Glasgow. Í Skotlandi er nefnilega net bátaskurða (e. canal) sem liggja þvers og kruss um landið og hafa lengi verið notaðir til að flytja vörur sem og til afþreyingarsiglinga. Einn slíkur skurður liggur úr botni Forth of Firth, sem er fjörðurinn sem Edinborg stendur við, og þvert í gegnum landið yfir til vesturstrandarinnar með viðkomu í Glasgow. Miðja vegu milli Glasgow og Edinborgar sker annar bátaskurður þennan en sá liggur niður í miðbæ Edinborgar. Til að komast frá öðrum skurðinum til hins þurfti áður að fara í gegnum 9 þrepa skipastiga sem tók heilan dag. Í dag sigla bátarnir inn í ker í lyftunni sem er í raun listaverk í sjálfri sér. Bátnum er lyft upp í 32 metra hæð eða þar um bil og siglir síðan áfram í átt til Edinborgar. Þegar eitt kar fer upp, fer annað niður og það er merkilegt að eðlisfræðin tryggir að alltaf er sama þyngd í báðum körunum. Báturinn riður frá sér þyngd sinni af vatni þegar hann siglir inn í sitt ker og því er alltaf sama þyngd báðum megin, hvort sem þar er bátur eða ekki. Þetta er glæsilegt mannvirki.
Úlfar og Hanna flugu síðan heim á þriðjudagsmorguninn. Á morgnanna er rosaleg umferð milli Edinborgar og Glasgow og við vorum að spá í það hvenær við þyrftum að leggja af stað til að ná örugglega á flugvöllinn í tíma. Niðurstaðan varð þó sú að Siggi keyrði þau niður á lestarstöð þaðan sem þau tóku lest til Glasgow og síðan leigubíl þaðan og út á flugvöll. Þannig hafði umferðin engin áhrif á ferðlagið og þau prófuðu að ferðast í lest í fyrsta skiptið á ævinni. Þau voru verulega ánægð með ferðalagið og skemmtilegt að prófa nýjan ferðamáta.
Það var frábært að þau skildu geta verið hérna hjá okkur þennan tíma og gaman að sjá hvað Þórir Snær náði að tengjast þeim vel. Hann var meira að segja farinn að segja "afi" áður en þau fóru eftir töluverða vinnu Úlla afa við að ná þeim merka árangri áður en þau færu. Afi Þórir mun án efa halda uppi merki þeirra afanna þegar þau Una koma til okkar í byrjun nóvember.
Það haustar
3.10.2008 | 23:00
Það haustar í Edinborg þessa dagana. Hitastigið er komið niður í 10 gráður á daginn og fer jafnvel niður fyrir frostmark á næturna. Þótt þetta hús sé vel einangrað með tvöföldu gleri (sem er frekar óalgengt hérna) og ekki í gömlum viktoríönskum stíl með 4 metra lofthæð í stofunni þá finnum við áberandi fyrir því að það er kaldara hérna innandyra á næturna en við erum vön. Íbúðin er kynnt með gasi og til að spara það er tímarofi sem keyrir kyndinguna. Hann er stilltur til að keyra frá kl. 7 til 9 á morgnanna, milli 5 og 7 á daginn og loks 9 og 11 á kvöldin. Á öðrum tímum er ekki kynnt nema við kveikjum handvirkt. Við getum breytt þessum tímum ef við viljum. Það sakar ekki að fjölskyldan er ágætlega heitfeng.
Ein íslensku hjónin töluðu um að þau hefðu lægst greitt 292 pund fyrir þrjá mánuði af gasi og hæst hefði það farið í 700 pund. Það þýðir, miðað við að pundið sé 200 krónur, 60-140 þúsund króna reikningur á þriggja mánaða fresti. Þau eru reyndar með 4 metra lofthæð og einfalt gler þannig að við vonum bara það besta en það er ljóst að við erum ekki að tala um neina Orkuveitutaxta í þessari borg.
Íslendingapartý og Little Britain USA
3.10.2008 | 22:50
Jæja, löngu kominn tími til að blogga. Pundið var í 160 þegar við blogguðum síðast...það er reyndar ekki svo langt síðan...þannig séð.
Vorum að horfa á Little Britain USA áðan þar sem háðfuglarnir skella sér yfir Atlantshafið og ausa bresku háði yfir Bandaríkjamenn á sinn óborganlega hátt. Hrikalega fyndið en ég held það geti orðið ennþá fyndnara að lesa gagnrýnina í Bandaríkjunum. Hún hlýtur að verða óborganleg.
Inga er inni í eldhúsi að plokka smjörlausan smjörpappír undan botninum á pizzu sem hún gerði áðan og markmiðið er að taka með í nesti í dýragarðinn á morgun. Það verkefni mun duga eitthvað fram eftir kvöldi.
Við erum annars í góðum gír. Inga er byrjuð í skólanum og á fullu við að kynnast nýju og skemmtilegu fólki alls staðar að úr heiminum. Samnemendur hennar koma frá Nígeríu, Indlandi, Kína, Póllandi, Hollandi, Pakistan, Rússlandi sem og auðvitað Bretlandi og fleiri ríkjum. Hún prófaði að lesa á bókasafninu um daginn en þar spjallaði fólk víst út í eitt þannig að hún er búin að koma sér vel fyrir hérna heima við að læra. Verkefnið næstu daga er að koma sér upp rútínu og koma sér almennilega af stað í lærdóminn. Mér heyrist einhvern veginn að hún sé að taka þetta dæmi yfir og sé hálfpartinn orðin "mamma" hópsins eins og henni er einni lýst.
Siggi og Þórir Snær hafa það afargott saman á daginn. Mikil rólegheit, röltum um bæinn og erum heima í rólegheitum til skiptis. Skelltum okkur í prufutíma á tónlistarnámskeið fyrir 1-2 ára á þriðjudaginn. Þarna var kona um fimmtugt að syngja barnalög, nokkrir krakkar og foreldrar þeirra. Var bara skemmtilegt, sérstaklega seinni hlutinn þegar hún dreifði hristum og trommum sem okkar manni fannst nú ekki leiðinlegt. Hann fylgdist vel með þessu öllu saman, tiltölulega undrandi til að byrja með en jafnaði sig þegar hristurnar og tromman komu.
Fórum í gær í kaffi og muffins heim til íslenskra hjóna, Birgis og Svönu, sem buðu Íslendingum í heimsókn á póstlista Íslendinga í Edinborg. Þarna mættu nokkrar mömmur með börnin sín, við Inga með Þóri og Benni Hemm Hemm tónlistarmaður sem er heima með barnið sitt eins og ég á meðan konan hans er í námi. Síðan komu pabbarnir líka þegar líða tók á daginn. Mjög sprækur og skemmtilegur hópur fólks sem náði vel saman. Sumir komu í haust, aðrir eru búnir að vera í 2-3 ár. Öllum líður afskaplega vel í Edinborg og tíma varla að fara heim.
Anna og Hildur nágrannar okkar komu með þá hugmynd í vikunni að við skelltum okkur ásamt einum öðrum íslenskum hjónum í dýragarðinn á morgun. Það hefur undið upp á sig og nú er jafnvel von á töluverðum fjölda, þ.m.t. Dagmar sem mamma passaði fyrir 20 árum síðan og hennar fjölskyldu sem ætla í kaupstaðaferð frá Aberdeen um helgina og datt í hug að koma með okkur. Það verður skemmtilegur dagur á morgun.
Þórir Snær kom okkur á óvart í þessu Íslendingapartýi. Hann hefur auðvitað mjög lítið leikið sér með öðrum börnum undanfarið en fór bara beint að leika sér með dótið og við krakkana og leit ekki á okkur frekar en við hefðum ekki verið með. Alsæll rölti hann um og nældi sér meðal annars í muffinsköku sem lá þarna á borðinu og var hálfnaður í gegnum hana þegar foreldrarnir komu að og höfðu nú lúmskt gaman af öllu saman. Hann er þá kominn á bragðið. Teningunum er kastað!
Vinir og fjölskylda | Breytt 4.10.2008 kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kvenfélagskaffi, bændamarkaður og bíltúr
14.9.2008 | 00:28
Vorum dugleg í dag.
Vorum komin út um ellefuleytið og byrjuðum á að mæta í kvenfélagskaffi sem við höfðum séð auglýst við kirkju hérna við endan á götunni. Þetta var svona dæmigert kvenfélagskaffi, gamlar brosmildar konur að selja handavinnu, þrívíddarjólakort, kaffi og með því.
Urðu óskaplega hrifnar af okkur og þá sérstaklega Þóri Snæ sem átti auðvitað svæðið. Fannst frábært að við skyldum líta við. Sáum þarna líka að það eru "mömmumorgnar" í kirkjunni á miðvikudagsmorgnum. Feðgarnir þurfa að kíkja þangað við tækifæri svo barnið hitti einhverja aðra en mömmu sína og pabba! ...hann getur þá líka kynnst "the other housewifes"!
Skotar eru óskaplega vinalegt fólk. Þeir taka vel á móti manni, eru sífellt brosandi til Þóris Snæs úti í búð og úti á götu, víkja fyrir barnakerrunni og fá mann til að finnast maður velkominn í nýja landinu. Það skiptir miklu máli.
Eftir kvenfélagskaffið skelltum við okkur á bændamarkað sem haldinn er alla laugardaga í nágrenni Edinborgarkastala. Stórskemmtilegt! Smökkuðum fullt. Keyptum nautakjöt, brauð, jarðaber og karamellusósu sem allt átti uppruna sinn til skoskra bændabýla. Þarna var til dæmis seldur hafragrautur sem skyndibiti, kanínukjöt sem við þurfum að prófa næst, ýmiss konar ostar, kjöt, sultur, sápur og margt fleira. Óskaplega skemmtilegt og vinalegt fólk. Við förum þarna klárlega aftur.
Fórum niður í bæ á bílnum til að spara tíma. Lögðum nokkrum götum frá mílunni. Vakti athygli okkar að bílastæðið kostaði 2 pund (300 kr.) klukkutíminn! Hæsta verðið í Reykjavík er helmingi lægra, 150 kr. á klukkustund á dýrasta svæðinu.
Skelltum svo á skeið. Tókum á okkur rögg og lögðum til atlögu við Edinborg By-Pass hraðbrautina. Höfðum ætlað að keyra þá braut á leið hingað frá Scrabster en villtumst í gegnum miðbæinn. Síðan þá höfum við gert a.m.k. eina tilraun til að komast upp á þessa götu en beygðum þá líka vitlaust. Nú gekk hins vegar allt að óskum og við keyrðum út úr Edinborg til austurs á sjálfri Edinborg By-Pass. Gerum því ráð fyrir að okkur takist að endurtaka leikinn á þriðjudaginn og komast til Glasgow að ná í Úlfar og Hönnu sem ætla að vígja svefnsófann að West Powburn.
Tókum góðan bíltúr meðfram ströndinni í austur frá Edinborg í gegnum fjölda fallegra þorpa og sveita og enduðum í sjófuglamiðstöð í North Berwick, afar fallegum bæ utarlega á ströndinni. Gengum aðeins um bæinn áður en við héldum í hann heim og tókum hring í gegnum skosku sveitirnar.
Settum í dag bensín á bílinn í fyrsta skiptið síðan við vorum í Færeyjum fyrir þremur vikum síðan. Bensínlítrinn kostar um 1,1 pund og er því um 166 krónur miðað við gengi í dag. Frábært hvað við erum að nota bílinn lítið þótt við förum á honum það sem við þurfum. Meira en 2/3 hlutar akstursins á þessum tanki var ferðin frá Scrabster til Edinborgar. Samt höfum við ekki þurft að taka bensín í þrjár vikur. Jibbí!
Á morgun er stór dagur. Inga á að mæta í skólann í fyrsta skiptið. Reyndar ekki í kennslu, heldur er móttaka (Welcome Ceremony) og alþjóðadagur (International Day). Næstu daga fjölgar síðan viðburðum smám saman þar til kennsla hefst formlega mánudaginn 22. september. Frú Ingu hlakkar mikið til!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þórir í stuði!!!
12.9.2008 | 00:47
Nú er Þórir Snær farinn að ganga um allt eins og herforingi, syngur og trallar og blakar eyrunum. Nokkur myndbönd af kappanum vegna fjölda áskorana...það langar engan að vita hvað við fullorðna fólkið erum að gera...
Síðan á laugardaginn. Þórir á fleygiferð um stofuna, enn svolítið valtur á fótunum.
Þórir stigamaður! Við búum á 3. hæð og Þórir er búinn að þróa aðdáunarverða tækni við að renna sér niður stigann á maganum. Maður þarf að hafa sig allan við til að halda í við hann.
Það er fullt af görðum í Edinborg og í sumum þeirra eru leikvellir, jafnvel með leiktæki fyrir þau yngstu. Á mánudaginn gengum við meðal annars í gegnum garðana við Princes Street neðan við Edinborgarkastalann þar sem Þórir fékk svolítið að spretta úr spori.
Líf og fjör við matarborðið við West Powburn.
Góða skemmtun!
Ps. Þess má geta að heimilisfaðirinn er þessa dagana að mastera Windows Movie Maker!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það skoskasta af öllu skosku
8.9.2008 | 02:56
Horfðum á heimsmeistaramótið í sekkjapípuleik í sjónvarpinu í kvöld. Er eitthvað skoskara í öllum heiminum?
Dagurinn í dag - Stóri dagurinn!!!
8.9.2008 | 02:54
Dagurinn í dag, sunnudagurinn 7. september 2008, er líklega fyrsti dagurinn sem Þórir Snær gengur meira en hann skríður.
Til hamingju með daginn!
Fjallið okkar - Arthur´s Seat
8.9.2008 | 02:12
Hérna er mynd af fjallinu sem við sjáum út um gluggann. Fjallið heitir Arthur´s Seat, er 251 metra há gömul eldstöð sem gnæfir yfir borgina.
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.9.2008 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þórir Snær tekur á rás
5.9.2008 | 01:24
Þórir Snær hefur svo sannarlega tekið á rás undanfarna daga og náð miklum framförum núna síðustu 1-2 daga. Metið núna er líklega um 3 metrar, frá sjónvarpinu í stofunni og fram undir hurð.
Myndbandið hér að neðan var tekið í morgun þegar hann skellti á skeið í áttina að pabba sínum pínulítið valtur á litlu fótunum sínum.
Kevock kórinn er málið!!! Skellti mér á kóræfingu í kvöld!
3.9.2008 | 01:38
Fann kór á vefnum. Kevock kórinn. 90 manna blandaður kór fólks á öllum aldri á sem æfir í skóla í nágrenni Edinborgar. Skellti mér á æfingu í kvöld. Gaman að kynnast alvöru Skotum! Þessi kór varð fyrir valinu þar sem hann æfir einu sinni í viku, ekki á föstudögum, ekki á sunnudögum og er ekki kirkjukór eða fastur í tiltekinni tónlist. Inga sagði: "Þarftu alltaf að æfa í kórum sem eru einhvers staðar lengst úti á landi?". Þeysist alltaf í Hafnarfjörðinn á Skátakórsæfingar á meðan ég fer 10 km út fyrir borgina núna. Hélt ég myndi aldrei rata heim á vinstri akreininni eftir æfinguna í kvöld. Það tókst þó að lokum.
Kevock kórinn syngur allt milli himins og jarðar og er góður að því. Í kvöld sungum við ýmislegt; Passíusálm, lög úr Phantom at the Opera eftir Andrew Lloyd Webber, nokkur Abba lög o.fl. Æfingin lofaði góðu. Einnig skemmtilegt að þessi kór hefur sungið "Bohemian Raphsody" með Queen í nákvæmlega sömu útsetningu og Skátakórinn.
Það sem kórmeðlimir vita ekki - en ég og aðrir meðlimir Skátakórsins vitum - er að það er löngu búið að ákveða að þau taki á móti Skátakórnum þegar hann kemur í heimsókn næsta vor. Ég ætla að kynnast þeim svolítið betur áður en segi þeim fréttirnar.
Bloggað úr Edinborgarhreppi
2.9.2008 | 01:20
Loksins hefur litla fjölskyldan við West Powburn í Edinborg komið bloggmálunum í réttan farveg vegna fjölda áskoranna. Ákveðið var að kýla á Moggabloggið þar sem það bíður upp á mestu möguleikana.
Annars líður okkur óskaplega vel hérna í fínu íbúðinni okkar í Edinborg og höfum flakkað um borgina og notið lífsins frá því við komum hingað síðastliðinn miðvikudag eftir langt ferðalag sjóleiðina frá Íslandi.
...meira um það síðar!